
Þegar Tojo sneri aftur til Japans árið 1922 var hann gerður að kennara í herskóla. Á þeim árum varð Tojo einn helsti áhrifamaður hins svokallaða Tousei-ha hóps (統制派) innan hersins, sem var hópur íhaldssamra eða hófsamra afla innan hersins. Það sem helst sameinaði hópinn var andstaða hans við hóp róttæklinga sem kallaðist Koudou-ha (皇道派), eða leið keisarans. Tojo hélt áfram að klífa metorðastigann og árið 1933 var hann gerður að hershöfðingja og hóf störf í varnarmálaráðuneytinu sem skrifstofustjóri. Tveimur árum síðar var hann svo sendur til Mansjúríu, sem Japanar höfðu lagt undir sig á árunum 1931-32, og gerður að yfirmanni Kempeitai herlögreglunnar (憲兵隊). Í febrúar 1936 reyndu róttæklingar innan Koudou-ha fylkingarinnar að ræna völdum. Valdaránið fór út um þúfur og í kjölfarið notaði Tousei-ha fylkingin tækifærið og hreinsaði róttæklinga burt úr hernum. Þeir meðlimir sem eftir voru í Koudou-ha voru tiltölulega hófsamir svo að fylkingarnar tvær sameinuðust nú í eina. Þannig varð Tojo einn af helstu valdamönnum innan hersins. Japanski herinn hafði allt frá innrás sinni í Mansjúríu árið 1931 smátt og smátt verið að stækka yfirráðasvæði sitt í Norður-Kína og árið 1937 braust út allsherjarstríð milli þjóðanna. Tojo var einn af lykilmönnum Japana í Mansjúríu og var hann afar fylgjandi stríðinu. Hann var síðan kallaður aftur til Tókýó árið 1938 til þess að gegna starfi aðstoðarvarnarmálaráðherra og í október 1941 varð hann svo varnarmálaráðherra. Þegar þarna er komið sögu höfðu Bandaríkjamenn bannað alla sölu á olíu til Japans til þess að reyna að stemma stigu við útþenslunni. Samningar við Bandaríkjamenn höfðu staðið yfir í nokkra mánuði án árangurs og þótt Tojo væri ekki sérstaklega spenntur yfir því að fara í stríð við þá, taldi hann að of seint væri að semja og Japanar ættu því ekki annarra kosta völ. Forsætisráðherra Japans, Fumimaro Konoe (近衛 文麿) (1891-1945), sem reynt hafði að semja án árangurs sagði af sér þann 16. október 1941. Bjuggust þá flestir við því að Hirohito Japanskeisari myndi velja frænda sinn Higashikuni Naruhiko (東久邇稔彦) til þess að taka við af honum. Keisarinn ákvað þó að velja Tojo í hans stað og er talið að helsta ástæða þess hafi verið að honum hugnaðist ekki að meðlimur keisarafjölskyldunnar bæri ábyrgð á hugsanlegu stríði við Vesturlönd. Samningaviðræðunum var haldið áfram samhliða því að stríðsundirbúningur hófst. Tojo skilaði áætlun um árás á Pearl Harbor til keisarans snemma í nóvember árið 1941 og fékk hana samþykkta. Rétt er þó að taka fram að Tojo samdi ekki áætlunina. Í desember sama ár gaf hann svo út fyrirskipun um árásina sjálfa.

- Hvað getið þið sagt mér um kamikaze-sjálfsmorðsárásirnar í seinni heimsstyrjöldinni? eftir Hrannar Baldvinsson
- Hverjir voru samúræjar og hvaða hlutverki gegndu þeir? eftir Skúla Sæland
- Hvað getið þið sagt mér um orrustuna við Midway? eftir Skúla Sæland
- Hvernig töpuðu Þjóðverjar seinni heimsstyrjöldinni? eftir Skúla Sæland
- Hvað gerði andspyrnuhreyfingin í seinni heimsstyrjöldinni? eftir Skúla Sæland
- Hver fann upp kjarnorkusprengjuna? eftir Þorstein Vilhjálmsson og Margréti Björk Sigurðardóttur
- Bix, Herbert. Hirohito and the Making of Modern Japan, Harper Collins, New York, 2001.
- Hoyt, Edwin. Toyo Against the World, Cooper Square Press, Lanham, 2001.
- Daylife. Sótt 26.1.2009.
- The Vilification of Enemy Leadership in WWII. Sótt 26.1.2009.