Það eru trúarbrögðin sem skera öðru fremur úr um það hvort viðkomandi er Gyðingur eða ekki. Hér er ekki aðeins um trú að ræða heldur einnig ævagamla helgisiði sem stöðugt minna á sögu Gyðinga og sérstöðu þeirra meðal þjóða. Hér skipta ofsóknir gegn Gyðingum miklu máli. Til dæmis minnast Gyðingar stöðugt „útlegðarinnar” í Egyptalandi frá því fyrir um það bil 3500-4000 árum. Ofsóknir nasista styrktu mjög trúarbrögð Gyðinga sem eru tvímælalaust sögulegustu trúarbrögð í heimi og ásamt hindúismanum þau elstu. Að vísu snerust margir Gyðingasöfnuðir til kristinnar trúar á fyrstu öldum kristninnar eins og eðlilegt var, enda var Kristur Gyðingur og trúboð Páls og annarra postula beindist mjög að Gyðingum við austurhluta Miðjarðarhafs. Einnig snerust margir söfnuðir Gyðinga í Vestur-Asíu, einkum í Palestínu, til íslam á undangengnum öldum enda eru gyðingdómur og íslam miklu skyldari trúarbrögð en gyðingdómur og kristni. Margar þjóðir og fylgismenn margra trúarbragða hafa verið ofsóttar í aldanna rás. Flestar þjóðir fornaldar hafa nú horfið. Stundum hefur þeim beinlínis verið útrýmt eða, sem algengara er, þær hafa misst fyrri einkenni sín og horfið í haf annarra þjóða. Einu sinni voru Hettítar ein mesta þjóð Miðausturlanda, hvar eru þeir núna? Hvað um elstu menningarþjóðina, Súmera, hvað um Babýloníumenn og Assýringa, tvö gömul stórveldi, hvað um Aramea en tungumál þeirra var ríkjandi um alla Vestur-Asíu á sínum tíma um Krists burð og mun hafa verið móðurmál Krists? Skömmu síðar varð gríska aðalmál margra þjóða á sömu slóðum og var allsráðandi hjá yfirstéttinni og í borgum; þetta hélst óbreytt fram til sjöundu aldar og gríska var áfram víða helsta tungumálið allt fram á 20. öld. Nú er þessi tunga nær eingöngu töluð í Grikklandi. Það sem er sérstætt við gyðingdóminn er að hann skuli hafa lifað í þúsundir ára bæði sem trúarbrögð og sem söguleg þjóðarvitund meðan önnur gömul trúarbrögð og önnur þjóðarvitund hvarf að öllu eða að mestu leyti, þó að hindúisma undanskildum. Einnig er það sérstætt að bæði kristni og íslam skuli eiga hugmyndalegt upphaf sitt í gyðingdómi. Aftur er samanburðurinn við hindúismann réttlætanlegur; hann gat af sér búddisma (sem á meira skylt með kristindómi en margir gera sér grein fyrir) og fleiri trúarbrögð. Að lokum má geta þess að Gyðingar eru nú um 14-18 milljónir. Þar af búa um 5 1/2 milljón í Bandaríkjunum og 4 1/2 milljón í Ísrael. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvers vegna hafa Gyðingar verið ofsóttir gegnum aldirnar? eftir Gísla Gunnarsson
- Hvers vegna heita páskar gyðinga og páskar kristinna manna það sama þó að verið sé að fagna svo ólíkum atburðum? eftir Hjalta Hugason
- Þurfa börn strangtrúaðra gyðinga ekki að læra stærðfræði? eftir EMB
- Wikipedia.com. Sótt 28.6.2010.