Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaMið-AusturlöndHvers vegna hafa Bandaríkin stutt Ísrael eins og raun ber vitni, meðan mörg önnur ríki fordæma brot Ísraels á alþjóðasamþykktum?
Stuðning Bandaríkjanna við Ísrael má skýra að miklu leyti með hinum miklu áhrifum, sem fólk af Gyðingaættum hefur í Bandaríkjunum, ekki síst í fjölmiðlum og stjórnmálum. Bandarískum Gyðingum hefur vegnað þar mjög vel. Það virðist vera svo erfitt að öðlast stjórnmálaframa í Bandaríkjunum í óþökk Gyðinga, að enginn alvörustjórnmálamaður hefur treyst sér til þess að gagnrýna Ísrael, svo að heitið geti. Þetta skýrir að miklu leyti þá sérstöðu Bandaríkjamanna sem spyrjandi er að velta fyrir sér.
Önnur ástæða til þess, að Bandaríkjamenn og aðrar vestrænar þjóðir leyfðu eða þoldu Gyðingum í lok nítjándu aldar og langt fram á þá tuttugustu að setjast að þar sem nú er Ísrael, og stofna þar eigið ríki 1948, var eflaust sú, að þessar þjóðir höfðu samviskubit eftir helför Gyðinga á yfirráðasvæði þjóðernisjafnaðarmanna Adolfs Hitlers um og eftir 1940. Þær höfðu daufheyrst við neyðarköllum frá Gyðingum. Eins og Chaim Waizmann, síðar forseti Ísraels, sagði, skiptust lönd heims á fjórða og fimmta áratug í tvo hópa, þau, sem vildu reka Gyðinga brott, og hin, sem ekki vildu taka við þeim. Íslendingar neituðu til dæmis að taka við fjölda Gyðinga, sem voru á flótta frá ofsóknum þjóðernisjafnaðarmanna.
Þriðja ástæðan til þess, að vestrænar þjóðir og þó aðallega Bandaríkjamenn hafa stutt Ísrael, er sú, að Ísrael er lýðræðisríki, sem deilir ýmsum verðmætum með vestrænum þjóðum. Það er í aðalatriðum vestrænt. Arabaríkin eru hins vegar langflest eða nær öll einræðisríki, og almenn mannréttindi eru virt að vettugi í þeim löndum. Sums staðar sitja þar blóðugir harðstjórar í valdastólum, annars staðar spilltar furstafjölskyldur.
Fjórða ástæðan er viðleitni Bandaríkjastjórnar til að stuðla að sæmilegu jafnvægi á mjög óstöðugu svæði. Ísrael býr þrátt fyrir allt við stöðugra stjórnarfar en grannríkin. Það myndi svo sannarlega ekki stuðla að jafnvægi á svæðinu, að öfgamönnum í röðum Araba tækist það ætlunarverk sitt að hrekja Gyðinga á haf út.
Fimmta ástæðan er, að Ísrael hefur verið mjög dyggur bandamaður Bandaríkjanna. Flaggað var í hálfa stöng í Ísrael eftir árás hryðjuverkamanna á Bandaríkin 11. september 2001, en sums staðar létu Arabar í ljós fögnuð á götum úti, þó að það væri vissulega undantekning frekar en regla.
Sjöttu röksemdina nota Gyðingar sjálfir. Þeir segjast hafa sögulegan rétt til Ísraels. Landið sé fornt heimkynni þeirra. Sennilega skiptir sú röksemd aðra hins vegar miklu minna máli en Gyðinga sjálfa.
Ýmsir telja að Arabaríkin hafi ekki síður en Ísrael brotið alþjóðlegar samþykktir, til dæmis um almenn mannréttindi. Eftir stofnun Ísraelsríkis flýði fjöldi Gyðinga frá Arabaríkjunum til Ísraels og fjöldi Palestínumanna frá Ísrael til Arabaríkjanna. Síðarnefndi hópurinn hefur ekki runnið inn í eða samlagast þjóðum annarra Arabalanda, heldur hafa þeir dvalist í flóttamannabúðum, þar sem hatur og óvild lifa góðu lífi. Þegar Jórdaníukonungur hrakti baráttumenn Palestínumanna úr landinu, voru tuttugu þúsund manns felldir að sögn.
Þótt Wilson Bandaríkjaforseti hefði sett fram kröfu um sjálfsákvörðunarrétt þjóða í lok fyrri heimsstyrjaldar, hefur þeirri kröfu sjaldnast verið sinnt, ef öflugir hagsmunir eru í húfi. Til dæmis fengu þrjár milljónir Þjóðverja í Súdetahéruðum Bæheims ekki að sameinast Austurríki 1918, heldur voru þær reknar inn í Tékkóslóvakíu, þar sem þær vildu ekki vera, og eftir seinni heimsstyrjöld var þessu fólki vísað úr landi og það svipt öllum eignum sínum. Kúrdar eru rúmlega tuttugu milljónir manns og flestir telja þá sérstaka þjóð en þeir hafa ekki fengið að stofna sjálfstætt ríki, heldur deilast á milli Írans, Tyrklands, Íraks og Sýrlands. Sumir draga hins vegar í efa að Palestínumenn séu sérstök þjóð heldur séu þeir fyrst og fremst Arabar.
Allt þetta hafa bandarískir ráðamenn eflaust haft í huga, þegar þeir styðja Ísrael á alþjóðavettvangi. Hitt er annað mál, að Bandaríkjastjórn hefur líka síðustu tíu árin lýst yfir stuðningi við stofnun sérstaks ríkis Palestínumanna.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Hannes Hólmsteinn Gissurarson. „Hvers vegna hafa Bandaríkin stutt Ísrael eins og raun ber vitni, meðan mörg önnur ríki fordæma brot Ísraels á alþjóðasamþykktum?“ Vísindavefurinn, 17. maí 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2391.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson. (2002, 17. maí). Hvers vegna hafa Bandaríkin stutt Ísrael eins og raun ber vitni, meðan mörg önnur ríki fordæma brot Ísraels á alþjóðasamþykktum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2391
Hannes Hólmsteinn Gissurarson. „Hvers vegna hafa Bandaríkin stutt Ísrael eins og raun ber vitni, meðan mörg önnur ríki fordæma brot Ísraels á alþjóðasamþykktum?“ Vísindavefurinn. 17. maí. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2391>.