Þrátt fyrir að hafa vakið vonir Ísraela um áframhaldandi stuðning við Ísraelsríki lét Obama það skýrt í ljós þegar hann tók við völdum að hann myndi ekki viðhalda hinu nána sambandi sem forveri hans, George W. Bush, hafði ræktað við Ísrael. Ríkisstjórn hans hefur reynt að þræða einstigi milli þess að viðhalda jákvæðu sambandi og veita ekki beinan stuðning við stefnu Ísraels. Þannig hélt Joe Biden, varaforseti Obama, ræðu um mikilvægi sambandsríkjanna tveggja hjá AIPAC vorið 2009 um leið og Rose Gottemoellar, aðstoðarutanríkisráðherra, ræddi um nauðsyn þess að Ísraelsríki færi eftir alþjóðasamningum um kjarnorkuvopn, en Bandaríkin hafa aldrei áður tekið opinberlega á kjarnorkustefnu Ísraels. Þá lýsti Obama því skýrt yfir að Bandaríkin styddu nú við tveggja ríkja lausn, það er stofnun palestínsks ríkis við hlið hins ísraelska. Skömmu síðar hélt hann ræðu í Kaíró, þar sem hann lagði áherslu á tilvistarrétt Ísraels og Palestínu. Meðal annars sagði hann að Bandaríkin myndu ekki snúa baki við lögmætum væntingum Palestínumanna um eigið ríki. Í Kaíró-ræðu sinni lýsti Obama því einnig yfir að Bandaríkin viðurkenndu ekki lögmæti ísraelskra landtökubyggða á hinum hernumdu svæðum Palestínu. Það var því mikið áfall fyrir bandarísk stjórnvöld þegar áform um 1600 nýbyggingar fyrir Ísraela í Austur-Jerúsalem (sem er palestínskt svæði) voru kynnt meðan Joe Biden var í opinberri heimsókn í Ísrael. Enn og aftur reyndi á samband ríkjanna tveggja og ferð aðalsamningamanns Obama í málefnum Ísraels og Palestínu var aflýst. Fundur Obama og Benjamíns Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, var snubbóttur og það olli miklum titringi í Ísrael að Obama gekk út af fundinum þegar Netanyahu neitaði að lofa breytingum á landtökustefnunni. Fundi milli æðstu ráðamanna Ísraels og Bandaríkjanna hefur aldrei áður lokið þannig svo vitað sé. Stefna Bandaríkjanna er eftir sem áður að viðurkenna skuli tilvistarrétt Ísraelsríkis og stuðla að friðsamlegri lausn ágreinings Ísraela og Palestínumanna í sátt við nágrannaríkin. Þótt dregið hafi úr væntingum til Obama skömmu áður en hann varð forseti, þá hefur hann gengið harðar fram gegn Ísraelsríki á sinni skömmu forsetatíð en forverar hans í embætti. Enn eimir þó eftir af þeim vana Bandaríkjanna að halda hlífiskildi yfir Ísrael á alþjóðavettvangi, eins og niðurstaða fundar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 31. maí og 1. júní 2010 gefur til kynna. Svarið við spurningunni hvort eitthvað hafi breyst í stefnu Bandaríkjanna gagnvart Ísrael frá því Obama varð forseti er því já, en ekki er um grundvallarstefnubreytingu að ræða. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvers vegna hafa Bandaríkin stutt Ísrael eins og raun ber vitni, meðan mörg önnur ríki fordæma brot Ísraels á alþjóðasamþykktum? eftir Hannes Hólmstein Gissurarson
- Af hverju geta Ísraelar og Palestínumenn ekki lifað saman í sátt og samlyndi? eftir Magnús Þorkel Bernharðsson
- Af hverju gerir NATO ekkert stórtækt varðandi stríðið milli Ísraels og Palestínu? eftir Stefaníu Óskarsdóttur
- Hvaða yfirráðarétt hefur Ísrael á hernumdum svæðum Palestínu? Hvernig hefur alþjóðasamfélagið tjáð sig um þessi yfirráð? eftir Jón Orm Halldórsson
- Hefur eitthvað breyst í heilbrigðismálum Bandaríkjanna síðan Barack Obama varð forseti? eftir Silju Báru Ómarsdóttur
- Öryggisráð SÞ - yfirlýsing forseta ráðsins.
- msnbc.com - Obama under fire for comment on Palestinians.
- Mother Jones - Obama at AIPAC.
- The Huffington Post - Obama Egypt Speech.
- Mynd: The Christian Science Monitor. Carolyn Kaster/AP. Sótt 07.12.2010.