Litlum fyrirtækjum og fólki sem vill kaupa sína eigin tryggingu verður gert kleift að kaupa í „potti“ með fleirum í staðinn fyrir að reyna að fá afslátt fyrir fáa í einu. Lítil fyrirtæki fá skattaafslátt fyrir að bjóða starfsmönnum upp á tryggingar. Niðurgreiðsla verður í boði fyrir fólk með takmörkuð fjárráð og miðað verður við fjórföld fátæktarmörk. Þak verður sett á greiðslur á hverju ári. Þeir sem ekki kaupa tryggingar verða sektaðir við skattframtal. Afleiðingarnar af þessu er að 32 milljónir manna, sem eru ótryggðar í dag, fá sjúkratryggingar og 92% þeirra sem ekki fá tryggingar vegna aldurs verða þá tryggð. Fyrirtæki með fleiri en 50 starfsmenn verða skylduð til að bjóða upp á tryggingar. Litlar breytingar verða annars á tryggingum fyrir þá sem nú þegar njóta slíks aðgangs. Aðrar umbætur á tryggingamarkaði fela í sér að bjóða verður upp á fyrirbyggjandi læknisskoðanir. Þá geta börn verið á tryggingu foreldra til 26 ára aldurs í stað þess að detta út af henni við útskrift úr háskóla. Ekki verður hægt að segja upp tryggingu eftir að fólk veikist eða takmarka hámarkssjúkrakostnað yfir ævina. Að lokum þurfa tryggingafyrirtæki að nota 80-85% af iðgjöldum í heilbrigðisþjónustu, en í dag geta þau tekið meira til sín í rekstur. Helstu breytingar fyrir eldri borgara, sem margir hverjir þurfa að eyða háum upphæðum í lyf, er að þeir fá endurgreiðslu á þeim kostnaði þar til tryggingarnar fara að greiða allan kostnað árið 2020. Heildarkostnaður við frumvarpið er 943 milljarðar bandaríkjadollara til tíu ára. Þessi upphæð fer aðallega í niðurgreiðslur til að fólk geti keypt sér tryggingar en lækkar væntanlega fjárlagahallann um 138 milljarða á sama tíma. Kostnaðurinn er einkum greiddur með gjaldlagningu á lyfjafyrirtæki og annan iðnað sem hagnast á auknu aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Bandaríkin eyða nú þegar 2,5 billjónum dollara í heilbrigðiskerfið á ári hverju. Það er mikil breyting að allur almenningur í Bandaríkjunum hafi aðgang að sjúkratryggingum. En lögin voru dýru verði keypt og gera enga grundvallarbreytingu á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna því enn hefur ekki verið stofnað opinbert heilbrigðiskerfi. Þá eru enn 23 milljónir sem ekki hafa aðgang að tryggingum, þar af sjö milljónir óskráðra innflytjenda. Ríkið veitir ekki tryggingar eins og vonir stóðu upphaflega til. 219 þingmenn demókrata í fulltrúadeildinni studdu frumvarpið. Enginn repúblikani studdi frumvarpið og þeir hafa hótað því að fella lögin úr gildi nái þeir meirihluta í þinginu. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hefur eitthvað breyst í stefnu Bandaríkjanna til Ísraels frá því Obama varð forseti? eftir Silju Báru Ómarsdóttur
- Salon.com - The healthcare bill.
- PolitiFact.com - Top 10 facts to know about health care reform.
- USA Today - Average family health insurance policy.
- NPR.com - Health Care For All Leaves 23 Million Uninsured.
- NYDailyNews.com. Sótt 21.6.2010.