Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju geta Ísraelar og Palestínumenn ekki lifað saman í sátt og samlyndi?

Magnús Þorkell Bernharðsson

Í grófum dráttum snýst deila Palestínumanna og Ísraela um land. Annar aðilinn, Palestínumenn, sem eru Arabar, er að heyja sjálfstæðisbáráttu til að mynda eigið ríki á landi sem þeir telja að hafi verið tekið frá þeim með valdi af Ísraelsmönnum. Hinn aðilinn, Ísraelsríki, stofnsett af Gyðingum, vill halda sínum hlut enda álíta þeir að þeir eigi sögulegan og trúarlegan rétt á þessu umdeilda landi. Það sem gerir þessa deilu sérstæða er að hún er ekki einskorðuð við þessa tvo aðila. Landið, sem er oft nefnt „Landið helga”, er miðlægt í þremur mikilvægum trúarbrögðum, kristindómi, Islam og Gyðingdómi. Þar af leiðandi er fylgst með þessum átökum af meiri áhuga um allan heim en sambærilegum deilum annars staðar svo sem í Kasmír eða Súdan.

Orsakir bardaganna nú liggja fyrst og fremst í atburðum frá því í byrjun tuttugustu aldar. Þá tilheyrði þetta landsvæði Ottóman-veldinu sem er stundum kallað Tyrkjaveldi. Meginþorri íbúa þessa svæðis, um 85%, var Palestínu-Arabar, bæði kristnir og múslimar, og um 10% voru Gyðingar. Á þessum tíma voru Gyðingar dreifðir víða um lönd. Í lok nítjándu aldar hóf hópur evrópskra Gyðinga undir forystu Theodor Herzl að skilgreina sig og trú sína sem grundvöll að þjóð í anda svipaðra þjóðernishugrenninga og þá voru á lofti í Evrópu. Þessi umdeilda hugmyndafræði, zíonismi, leit til Palestínu sem framtíðarheimkynna Gyðinga. Gallinn við þessa hugmynd var sá að í Palestínu var takmarkað landrými og þar bjó fólk sem að miklum meirihluta var ekki Gyðingar og átti þar sínar rætur enda hafði það búið þar samfleytt í þúsund ár, ef ekki þúsundir ára.

Í lok nítjándu aldar hóf hópur evrópskra Gyðinga undir forystu Theodor Herzl að skilgreina sig og trú sína sem grundvöll að þjóð í anda svipaðra þjóðernishugrenninga og þá voru á lofti í Evrópu.

Fyrri heimsstyrjöldin olli straumhvörfum í baráttu zíonista og setti málefni Palestínu á oddinn sem illleysanlegt mál á alþjóðavettvangi. Í fyrri heimstyrjöldinni barðist Ottóman-veldið ásamt Þjóðverjum gegn bandamönnum. Meðan á stríðinu stóð óttuðust Bretar mjög um sinn hag og sóttust því eftir stuðningi hvaðanæva að til að styðja málstað sinn. Þeir gerðu ólíka og mótsagnarkennda samninga þar sem Palestínu bar á góma, við Araba (bréfaskrif Husayn-McMahon), zíonista (Balfour-yfirlýsingin) og Frakka (Sykes-Picot samkomulagið).

Í Balfour-yfirlýsingunni frá 1917 lofuðu þeir stuðningi við hugmyndir zíonista um að stofna „heimaland” (e. national home) í Palestínu svo fremi að það bitnaði ekki á þeim samfélögum sem fyrir voru í landinu. En eins og rithöfundurinn Arthur Koestler benti á, fól Balfour-yfirlýsingin í sér að ein þjóð gaf annarri þjóð land þeirrar þriðju.

Þegar stríðinu lauk með sigri Bandamanna fengu Bretar umsjón með stórum hluta Miðausturlanda, meðal annars Palestínu. Á millistríðsárunum fluttust æ fleiri Gyðingar þangað og spennan milli Palestínu-Araba og Gyðinga magnaðist frá ári til árs. Bretar stjórnuðu landinu í umboði Þjóðabandalagsins sem var fyrirrennari Sameinuðu þjóðanna. Þeir reyndu hvað þeir gátu til að miðla málum og gerðu misheppnaðar tilraunir til setja skorður á innflutning Gyðinga. En allt kom fyrir ekki. Gyðingar stofnuðu hryðjuverkasveitir, sem þeir kölluðu sjálfir frelsisbaráttusveitir, sem skipulögðu voðaverk gegn Aröbum og Bretum.

Fánar Ísraels (efri fáninn) og Palestínu (neðri fáninn).

Eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar gáfust Bretar upp á að stjórna þessu landsvæði og ákváðu að nota hinar nýstofnuðu Sameinuðu þjóðir sem vettvang til að ná fram sáttum. Árið 1947 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar tillögu, sérstaklega með hliðsjón af þeim hörmungum sem Gyðingar urðu að þola í stríðinu í Evrópu, um að skipta Palestínu í tvennt, eitt ríki handa Aröbum og annað fyrir Gyðinga. Þessi tillaga, sem mætti mikilli andstöðu frá ríkjum Araba, var Gyðingum í hag hvað varðar gæði og stærð landsins. Palestínumenn voru alfarið andvígir skiptingu landsins enda álitu þeir að þetta væri þeirra eigið land og vildu ekki þurfa að láta af hendi eigið land til að gjalda fyrir að Gyðingar hefðu þurft að þola helförina í Evrópu og orðið landflótta þaðan.

Þann 14. maí 1948, sama dag og Bretar yfirgáfu Palestínu, lýstu Gyðingar yfir stofnun nútímaríkisins Ísrael. Þessari yfirlýsingu var ekki vel tekið í nágrannaríkjunum og nokkur Arabaríki sendu hersveitir sínar til að berjast gegn þessu nýja ríki. Ísrael fékk mikla aðstoð erlendis frá og náðu því að verjast þessari árás á ótrúlegan hátt.

Í kjölfar þessa stríðs og annarra aðgerða Ísraelshers voru margir Palestínumenn, sennilega um 700.000 manns, hraktir frá heimilum sínum og urðu flóttamenn. Í stað þess að verða sjálfstætt ríki urðu Palestínumenn annaðhvort innlyksa í landi Gyðinga eða flóttamenn í öðrum ríkjum Araba svo sem í Jórdaníu eða Sýrlandi. Palestínumenn urðu því upp til hópa heimilislausir. Þeir höfðu aðeins að litlu leyti skapað þetta ástand sjálfir heldur voru þeir fórnarlömb ákvarðana alþjóðlegra stofnana og stórvelda á Vesturlöndum. Það er kannski ekki að ófyrirsynju sem Palestínumenn hafa allar götur síðan vantreyst alþjóðastofnunum, sem þeir telja hliðhollar Ísrael, og haft ótrú á öllum afskiptum Vesturlanda.

Á næstu áratugum háðu Ísraelar og Arabar stríð með reglulegu millibili (1956, 1967, 1973 og 1982). Í þessum átökum, þó sérstaklega í átökunum 1967 og 1973, unnu Ísraelar yfirburðasigur enda naut Ísrael verulegs fjárstuðnings og hernaðaraðstoðar frá Bandaríkjunum. Í stríðinu 1967 hernámu Ísraelar vesturbakka Jórdanárinnar – svæði sem áður tilheyrði Jórdaníu – en íbúar þess voru mestmegnis Palestínumenn. Við þetta hernám, sem átti að vera tímabundin aðgerð, lentu enn fleiri Palestínumenn undir stjórn Ísraelsríkis.

Fram til 1993 vildu Palestínumenn ekki viðurkenna tilvist Ísrael og Ísraelar vildu ekki setjast niður við samningaborðið með Yasser Arafat, leiðtoga Frelsissamtaka Palestínumanna, sem þeir kölluðu hryðjuverkamann en Palestínumenn sáu sem frelsishetju. En í upphafi níunda áratugarins hófust leynilegar samningaviðræður milli þessara aðila í Noregi og víðar sem náðu hámarki með hinu fræga handabandi Arafats og Yitzhaks Rabin forsætisráðherra Ísrael eftir að þeir skrifuðu undir hinn svokallaða Oslóarsáttmála við Hvíta húsið árið 1993. Þessu handabandi tveggja fjandmanna var fagnað víða í hinum vestræna heimi sem upphafi að eðlilegum og friðsælum samskiptum. Hins vegar voru margir Palestínumenn og Ísraelar óánægðir.

Í upphafi níunda áratugarins hófust leynilegar samningaviðræður milli Ísraels og Frelsissamtaka Palestínu í Noregi og víðar sem náðu hámarki með hinu fræga handabandi Yussuf Arafats (til hægri) og Yitzhaks Rabin (til vinstri) eftir að þeir skrifuðu undir hinn svokallaða Oslóarsáttmála við Hvíta húsið árið 1993.

Oslóarsáttmálinn gerði ráð fyrir að Ísraelar myndu yfirgefa viss svæði á Vesturbakkanum og að Palestínumenn fengju þar sjálfstjórn með ákveðnum takmörkunum. Margir Palestínumenn urðu ævareiðir því þeir töldu að sáttmálinn væri ekki nægilega vænlegur grundvöllur að sjálfstæðu ríki. Sömuleiðis voru margir Ísraelar, sérstaklega strangtrúaðir Gyðingar, mótfallnir samkomulaginu því að það gerði ráð fyrir að Ísrael léti af hendi land sem þeir töldu að væri andstætt boðum Guðs og gæfi auk þess hættulegt fordæmi. Enn fremur væri þessi ráðagerð ógnun við öryggi Ísraels. Þessir aðilar töldu að Rabin hefði svikið málstað Ísraels enda leið ekki á löngu þar til Rabin var skotinn til bana af Ísraela, Yigal Amir, sem var andstæðingur Oslóarsáttmálans.

Andláti Rabins var fylgt eftir af palestínsku samtökunum Hamas sem einnig voru andvíg sáttmálanum og stóðu fyrir voðaverkum gegn Ísrael. Í þessu óvissuástandi náði Benjamin Netanyahu kjöri sem forsætisráðherra Ísraels árið 1996 en í hans tíð versnaði ástandið til muna. Hann beitti sér fyrir því að hægt var á friðarferlinu, seinkaði til muna tímaáætlun Óslóarsáttmálans og hóf að byggja fleiri landnemabyggðir Gyðinga á hernumdu svæðunum þvert gegn alþjóðasamþykktum.

Árið 1999 náði Ehud Barak kjöri og einblíndi á að ná fram friði. Sumarið 2000 hitti hann Arafat í Camp David í Bandaríkjunum þar sem þeir náðu ekki að komast að samkomulagi um framtíðarskipan svæðisins. Þá um haustið hófust harðir bardagar, sérstaklega í kjölfar heimsóknar Ariel Sharon, sem nú er forsætisráðherra Ísrael, til hinna helgu staða í Jerúsalem. Palestínumenn túlkuðu heimsókn Sharons, harðlínumanns sem hefur verið ötull í baráttunni gegn málstað Palestínumanna, sem ögrun og yfirlýsingu um að Ísraelar ætluðu sér einum yfirráð yfir Jerúsalem. Palestínumenn hafa einmitt litið til Jerúsalem sem framtíðarhöfuðborgar í hinu sjálfstæða ríki Palestínu. Frá haustinu 2000 hefur verið þrálátt stríðsástand á þessum slóðum þar sem yfir 700 manns hafa látið lífið, flestir Palestínumenn.

Bardagarnir sem geisa nú stafa af sömu ástæðum og bardagar fyrri áratuga. Það sem tekist er á um er fyrst og fremst hvort, eða hvenær, Palestínumenn fái að stofna fullvalda sjálfstætt ríki, hvernig landamæri þess eigi að líta út, hver sé staða Jerúsalem (en báðir aðilar vilja fá hana fyrir höfuðborg sína), og hvort og hvernig palestínskir flóttamenn í nágrannalöndunum megi snúa aftur til heimkynna sinna.

Palestínumenn líta á sig sem hernumda þjóð sem hefur þurft að þola mikið óréttlæti. Rétt eins og allar aðrar þjóðir vilja þeir geta stjórnað sínum eigin málum og lifað eðlilegu og friðsælu lífi. Þar sem þeir eru undirokaðir af Ísrael telja þeir sig eiga fárra annarra kosta völ en að heyja sjálfstæðisbaráttu jafnvel þótt það feli í sér örvæntingarfullar aðgerðir svo sem ofbeldisverk. Þeir benda á að efnahags- og hernaðarlegir yfirburðir Ísraela ógni friði milli þjóðanna.

Á hinn bóginn telja Ísraelar að þeir eigi rétt á þessu landi því að rætur þeirra þar nái mörg þúsund ár aftur í tímann eins og kemur skýrt fram í Biblíunni. Þeir álíta einnig að stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna yrði hálfgildings dauðadómur yfir Ísrael. Enn fremur telja Ísraelar að þar sem Palestínumenn höfðu yfirgefið sitt eigið land árið 1948 fyrir tilstuðlan annarra Arabaríkja ættu Palestínumenn að setjast að þar, til dæmis í Líbanon eða Sýrlandi, frekar en í Ísrael.

Í dag hefur hvorugur aðili nægan friðarvilja til að bera til að búast megi við að þessar þjóðir geti lifað í sátt og samlyndi í nánustu framtíð. Hjá báðum aðilum eru hópar þröngsýns öfgafólks sem berst ötullega gegn eðlilegum samskiptum við hinn aðilann. Þessir hópar eru svo fjölmennir og áhrifamiklir að verulega mikið þarf að breytast áður en búast má við að deilurnar verði leystar á friðsamlegan hátt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Rit:
  • Shlomo Avineri, The Making of Modern Zionism (New York, 1981)
  • Noam Chomsky, The Fateful Triangle. The United States, Israel and the Palestinians (Cambridge, 1999)
  • Yoram Hazony, The Jewish State. The Struggle for Israel´s Soul (New York, 2000)
  • Efraim Karsh, Fabricating Israeli History: The “New Historians” (London, 1997)
  • Ian S. Lustick, Arabs in the Jewish State. Israel´s Control of a National Minority (Austin, 1980)
  • Benny Morris, The Birth of the Palestinian Refugee Problem, 1947-9 (New York, 1988)
  • Glen Robinson, Building a Palestinian State. The Incomplete Revolution (Bloomington, 1997)
  • Nadav Safran, Israel, the Embattled Ally (Cambridge, 1981)
  • Edward Said, The End of the Peace Process (New York, 2000)
  • Charles Smith, Palestine and the Arab-Israeli Conflict (New York, 1996)
  • Tom Segev, One Palestine Complete (New York, 2000)
  • Amos Elon, The Israelis (New York, 1971)
  • Rashid Khalidi, Palestinian Identity: The Construction of Modern National Consciousness (New York, 1997)

Vefslóðir:

Myndir:

Hér er einnig svarað spurningum svipaðs efnis frá Huldu Pétursdóttur, Hermanni Helgasyni og Kristni Bjarnasyni.

Höfundur

Magnús Þorkell Bernharðsson

prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams College, Massachussets

Útgáfudagur

6.8.2001

Síðast uppfært

23.5.2019

Spyrjandi

Garðar Valbjörnsson

Efnisorð

Tilvísun

Magnús Þorkell Bernharðsson. „Af hverju geta Ísraelar og Palestínumenn ekki lifað saman í sátt og samlyndi?“ Vísindavefurinn, 6. ágúst 2001, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1828.

Magnús Þorkell Bernharðsson. (2001, 6. ágúst). Af hverju geta Ísraelar og Palestínumenn ekki lifað saman í sátt og samlyndi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1828

Magnús Þorkell Bernharðsson. „Af hverju geta Ísraelar og Palestínumenn ekki lifað saman í sátt og samlyndi?“ Vísindavefurinn. 6. ágú. 2001. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1828>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju geta Ísraelar og Palestínumenn ekki lifað saman í sátt og samlyndi?
Í grófum dráttum snýst deila Palestínumanna og Ísraela um land. Annar aðilinn, Palestínumenn, sem eru Arabar, er að heyja sjálfstæðisbáráttu til að mynda eigið ríki á landi sem þeir telja að hafi verið tekið frá þeim með valdi af Ísraelsmönnum. Hinn aðilinn, Ísraelsríki, stofnsett af Gyðingum, vill halda sínum hlut enda álíta þeir að þeir eigi sögulegan og trúarlegan rétt á þessu umdeilda landi. Það sem gerir þessa deilu sérstæða er að hún er ekki einskorðuð við þessa tvo aðila. Landið, sem er oft nefnt „Landið helga”, er miðlægt í þremur mikilvægum trúarbrögðum, kristindómi, Islam og Gyðingdómi. Þar af leiðandi er fylgst með þessum átökum af meiri áhuga um allan heim en sambærilegum deilum annars staðar svo sem í Kasmír eða Súdan.

Orsakir bardaganna nú liggja fyrst og fremst í atburðum frá því í byrjun tuttugustu aldar. Þá tilheyrði þetta landsvæði Ottóman-veldinu sem er stundum kallað Tyrkjaveldi. Meginþorri íbúa þessa svæðis, um 85%, var Palestínu-Arabar, bæði kristnir og múslimar, og um 10% voru Gyðingar. Á þessum tíma voru Gyðingar dreifðir víða um lönd. Í lok nítjándu aldar hóf hópur evrópskra Gyðinga undir forystu Theodor Herzl að skilgreina sig og trú sína sem grundvöll að þjóð í anda svipaðra þjóðernishugrenninga og þá voru á lofti í Evrópu. Þessi umdeilda hugmyndafræði, zíonismi, leit til Palestínu sem framtíðarheimkynna Gyðinga. Gallinn við þessa hugmynd var sá að í Palestínu var takmarkað landrými og þar bjó fólk sem að miklum meirihluta var ekki Gyðingar og átti þar sínar rætur enda hafði það búið þar samfleytt í þúsund ár, ef ekki þúsundir ára.

Í lok nítjándu aldar hóf hópur evrópskra Gyðinga undir forystu Theodor Herzl að skilgreina sig og trú sína sem grundvöll að þjóð í anda svipaðra þjóðernishugrenninga og þá voru á lofti í Evrópu.

Fyrri heimsstyrjöldin olli straumhvörfum í baráttu zíonista og setti málefni Palestínu á oddinn sem illleysanlegt mál á alþjóðavettvangi. Í fyrri heimstyrjöldinni barðist Ottóman-veldið ásamt Þjóðverjum gegn bandamönnum. Meðan á stríðinu stóð óttuðust Bretar mjög um sinn hag og sóttust því eftir stuðningi hvaðanæva að til að styðja málstað sinn. Þeir gerðu ólíka og mótsagnarkennda samninga þar sem Palestínu bar á góma, við Araba (bréfaskrif Husayn-McMahon), zíonista (Balfour-yfirlýsingin) og Frakka (Sykes-Picot samkomulagið).

Í Balfour-yfirlýsingunni frá 1917 lofuðu þeir stuðningi við hugmyndir zíonista um að stofna „heimaland” (e. national home) í Palestínu svo fremi að það bitnaði ekki á þeim samfélögum sem fyrir voru í landinu. En eins og rithöfundurinn Arthur Koestler benti á, fól Balfour-yfirlýsingin í sér að ein þjóð gaf annarri þjóð land þeirrar þriðju.

Þegar stríðinu lauk með sigri Bandamanna fengu Bretar umsjón með stórum hluta Miðausturlanda, meðal annars Palestínu. Á millistríðsárunum fluttust æ fleiri Gyðingar þangað og spennan milli Palestínu-Araba og Gyðinga magnaðist frá ári til árs. Bretar stjórnuðu landinu í umboði Þjóðabandalagsins sem var fyrirrennari Sameinuðu þjóðanna. Þeir reyndu hvað þeir gátu til að miðla málum og gerðu misheppnaðar tilraunir til setja skorður á innflutning Gyðinga. En allt kom fyrir ekki. Gyðingar stofnuðu hryðjuverkasveitir, sem þeir kölluðu sjálfir frelsisbaráttusveitir, sem skipulögðu voðaverk gegn Aröbum og Bretum.

Fánar Ísraels (efri fáninn) og Palestínu (neðri fáninn).

Eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar gáfust Bretar upp á að stjórna þessu landsvæði og ákváðu að nota hinar nýstofnuðu Sameinuðu þjóðir sem vettvang til að ná fram sáttum. Árið 1947 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar tillögu, sérstaklega með hliðsjón af þeim hörmungum sem Gyðingar urðu að þola í stríðinu í Evrópu, um að skipta Palestínu í tvennt, eitt ríki handa Aröbum og annað fyrir Gyðinga. Þessi tillaga, sem mætti mikilli andstöðu frá ríkjum Araba, var Gyðingum í hag hvað varðar gæði og stærð landsins. Palestínumenn voru alfarið andvígir skiptingu landsins enda álitu þeir að þetta væri þeirra eigið land og vildu ekki þurfa að láta af hendi eigið land til að gjalda fyrir að Gyðingar hefðu þurft að þola helförina í Evrópu og orðið landflótta þaðan.

Þann 14. maí 1948, sama dag og Bretar yfirgáfu Palestínu, lýstu Gyðingar yfir stofnun nútímaríkisins Ísrael. Þessari yfirlýsingu var ekki vel tekið í nágrannaríkjunum og nokkur Arabaríki sendu hersveitir sínar til að berjast gegn þessu nýja ríki. Ísrael fékk mikla aðstoð erlendis frá og náðu því að verjast þessari árás á ótrúlegan hátt.

Í kjölfar þessa stríðs og annarra aðgerða Ísraelshers voru margir Palestínumenn, sennilega um 700.000 manns, hraktir frá heimilum sínum og urðu flóttamenn. Í stað þess að verða sjálfstætt ríki urðu Palestínumenn annaðhvort innlyksa í landi Gyðinga eða flóttamenn í öðrum ríkjum Araba svo sem í Jórdaníu eða Sýrlandi. Palestínumenn urðu því upp til hópa heimilislausir. Þeir höfðu aðeins að litlu leyti skapað þetta ástand sjálfir heldur voru þeir fórnarlömb ákvarðana alþjóðlegra stofnana og stórvelda á Vesturlöndum. Það er kannski ekki að ófyrirsynju sem Palestínumenn hafa allar götur síðan vantreyst alþjóðastofnunum, sem þeir telja hliðhollar Ísrael, og haft ótrú á öllum afskiptum Vesturlanda.

Á næstu áratugum háðu Ísraelar og Arabar stríð með reglulegu millibili (1956, 1967, 1973 og 1982). Í þessum átökum, þó sérstaklega í átökunum 1967 og 1973, unnu Ísraelar yfirburðasigur enda naut Ísrael verulegs fjárstuðnings og hernaðaraðstoðar frá Bandaríkjunum. Í stríðinu 1967 hernámu Ísraelar vesturbakka Jórdanárinnar – svæði sem áður tilheyrði Jórdaníu – en íbúar þess voru mestmegnis Palestínumenn. Við þetta hernám, sem átti að vera tímabundin aðgerð, lentu enn fleiri Palestínumenn undir stjórn Ísraelsríkis.

Fram til 1993 vildu Palestínumenn ekki viðurkenna tilvist Ísrael og Ísraelar vildu ekki setjast niður við samningaborðið með Yasser Arafat, leiðtoga Frelsissamtaka Palestínumanna, sem þeir kölluðu hryðjuverkamann en Palestínumenn sáu sem frelsishetju. En í upphafi níunda áratugarins hófust leynilegar samningaviðræður milli þessara aðila í Noregi og víðar sem náðu hámarki með hinu fræga handabandi Arafats og Yitzhaks Rabin forsætisráðherra Ísrael eftir að þeir skrifuðu undir hinn svokallaða Oslóarsáttmála við Hvíta húsið árið 1993. Þessu handabandi tveggja fjandmanna var fagnað víða í hinum vestræna heimi sem upphafi að eðlilegum og friðsælum samskiptum. Hins vegar voru margir Palestínumenn og Ísraelar óánægðir.

Í upphafi níunda áratugarins hófust leynilegar samningaviðræður milli Ísraels og Frelsissamtaka Palestínu í Noregi og víðar sem náðu hámarki með hinu fræga handabandi Yussuf Arafats (til hægri) og Yitzhaks Rabin (til vinstri) eftir að þeir skrifuðu undir hinn svokallaða Oslóarsáttmála við Hvíta húsið árið 1993.

Oslóarsáttmálinn gerði ráð fyrir að Ísraelar myndu yfirgefa viss svæði á Vesturbakkanum og að Palestínumenn fengju þar sjálfstjórn með ákveðnum takmörkunum. Margir Palestínumenn urðu ævareiðir því þeir töldu að sáttmálinn væri ekki nægilega vænlegur grundvöllur að sjálfstæðu ríki. Sömuleiðis voru margir Ísraelar, sérstaklega strangtrúaðir Gyðingar, mótfallnir samkomulaginu því að það gerði ráð fyrir að Ísrael léti af hendi land sem þeir töldu að væri andstætt boðum Guðs og gæfi auk þess hættulegt fordæmi. Enn fremur væri þessi ráðagerð ógnun við öryggi Ísraels. Þessir aðilar töldu að Rabin hefði svikið málstað Ísraels enda leið ekki á löngu þar til Rabin var skotinn til bana af Ísraela, Yigal Amir, sem var andstæðingur Oslóarsáttmálans.

Andláti Rabins var fylgt eftir af palestínsku samtökunum Hamas sem einnig voru andvíg sáttmálanum og stóðu fyrir voðaverkum gegn Ísrael. Í þessu óvissuástandi náði Benjamin Netanyahu kjöri sem forsætisráðherra Ísraels árið 1996 en í hans tíð versnaði ástandið til muna. Hann beitti sér fyrir því að hægt var á friðarferlinu, seinkaði til muna tímaáætlun Óslóarsáttmálans og hóf að byggja fleiri landnemabyggðir Gyðinga á hernumdu svæðunum þvert gegn alþjóðasamþykktum.

Árið 1999 náði Ehud Barak kjöri og einblíndi á að ná fram friði. Sumarið 2000 hitti hann Arafat í Camp David í Bandaríkjunum þar sem þeir náðu ekki að komast að samkomulagi um framtíðarskipan svæðisins. Þá um haustið hófust harðir bardagar, sérstaklega í kjölfar heimsóknar Ariel Sharon, sem nú er forsætisráðherra Ísrael, til hinna helgu staða í Jerúsalem. Palestínumenn túlkuðu heimsókn Sharons, harðlínumanns sem hefur verið ötull í baráttunni gegn málstað Palestínumanna, sem ögrun og yfirlýsingu um að Ísraelar ætluðu sér einum yfirráð yfir Jerúsalem. Palestínumenn hafa einmitt litið til Jerúsalem sem framtíðarhöfuðborgar í hinu sjálfstæða ríki Palestínu. Frá haustinu 2000 hefur verið þrálátt stríðsástand á þessum slóðum þar sem yfir 700 manns hafa látið lífið, flestir Palestínumenn.

Bardagarnir sem geisa nú stafa af sömu ástæðum og bardagar fyrri áratuga. Það sem tekist er á um er fyrst og fremst hvort, eða hvenær, Palestínumenn fái að stofna fullvalda sjálfstætt ríki, hvernig landamæri þess eigi að líta út, hver sé staða Jerúsalem (en báðir aðilar vilja fá hana fyrir höfuðborg sína), og hvort og hvernig palestínskir flóttamenn í nágrannalöndunum megi snúa aftur til heimkynna sinna.

Palestínumenn líta á sig sem hernumda þjóð sem hefur þurft að þola mikið óréttlæti. Rétt eins og allar aðrar þjóðir vilja þeir geta stjórnað sínum eigin málum og lifað eðlilegu og friðsælu lífi. Þar sem þeir eru undirokaðir af Ísrael telja þeir sig eiga fárra annarra kosta völ en að heyja sjálfstæðisbaráttu jafnvel þótt það feli í sér örvæntingarfullar aðgerðir svo sem ofbeldisverk. Þeir benda á að efnahags- og hernaðarlegir yfirburðir Ísraela ógni friði milli þjóðanna.

Á hinn bóginn telja Ísraelar að þeir eigi rétt á þessu landi því að rætur þeirra þar nái mörg þúsund ár aftur í tímann eins og kemur skýrt fram í Biblíunni. Þeir álíta einnig að stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna yrði hálfgildings dauðadómur yfir Ísrael. Enn fremur telja Ísraelar að þar sem Palestínumenn höfðu yfirgefið sitt eigið land árið 1948 fyrir tilstuðlan annarra Arabaríkja ættu Palestínumenn að setjast að þar, til dæmis í Líbanon eða Sýrlandi, frekar en í Ísrael.

Í dag hefur hvorugur aðili nægan friðarvilja til að bera til að búast megi við að þessar þjóðir geti lifað í sátt og samlyndi í nánustu framtíð. Hjá báðum aðilum eru hópar þröngsýns öfgafólks sem berst ötullega gegn eðlilegum samskiptum við hinn aðilann. Þessir hópar eru svo fjölmennir og áhrifamiklir að verulega mikið þarf að breytast áður en búast má við að deilurnar verði leystar á friðsamlegan hátt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Rit:
  • Shlomo Avineri, The Making of Modern Zionism (New York, 1981)
  • Noam Chomsky, The Fateful Triangle. The United States, Israel and the Palestinians (Cambridge, 1999)
  • Yoram Hazony, The Jewish State. The Struggle for Israel´s Soul (New York, 2000)
  • Efraim Karsh, Fabricating Israeli History: The “New Historians” (London, 1997)
  • Ian S. Lustick, Arabs in the Jewish State. Israel´s Control of a National Minority (Austin, 1980)
  • Benny Morris, The Birth of the Palestinian Refugee Problem, 1947-9 (New York, 1988)
  • Glen Robinson, Building a Palestinian State. The Incomplete Revolution (Bloomington, 1997)
  • Nadav Safran, Israel, the Embattled Ally (Cambridge, 1981)
  • Edward Said, The End of the Peace Process (New York, 2000)
  • Charles Smith, Palestine and the Arab-Israeli Conflict (New York, 1996)
  • Tom Segev, One Palestine Complete (New York, 2000)
  • Amos Elon, The Israelis (New York, 1971)
  • Rashid Khalidi, Palestinian Identity: The Construction of Modern National Consciousness (New York, 1997)

Vefslóðir:

Myndir:

Hér er einnig svarað spurningum svipaðs efnis frá Huldu Pétursdóttur, Hermanni Helgasyni og Kristni Bjarnasyni.
...