Grikkir fundu upp leiklist og leikritun. Gríski heimspekingurinn Aristóteles hélt því raunar fram að „eftirhermur [væru] manninum eðlilegar frá blautu barnsbeini, og menn eru frábrugðnir öðrum lífverum að því leyti, að þeir hafa mesta hermihvöt“ (Um skáldskaparlistina 1448b 5-7, þýð. Kristjáns Árnasonar). Ef Aristóteles hefur á réttu að standa, þá er hermihvötin sammannleg og einkenndi ekki Grikki öðrum fremur. Hins vegar má rekja þróun leiklistar og leikritunar, að minnsta kosti vestrænnar leiklistar og leikritunar, aftur til Grikkja. Uppruni grískar leiklistar er að vísu á huldu en sennilega varð leiklistin til um miðja 6. öld f.Kr. Leikrit Grikkja voru af þrennu tagi: harmleikir, bukkaleikir (eða satýrleikir) og skopleikir. Aristóteles taldi að uppruna harmleikja væri að finna í söng forsöngvara í blótsöngvum (diþyrambos), sem voru kórsöngvar sungnir til heiðurs Díonýsosi. Á hinn bóginn taldi hann að uppruna skopleikja mætti rekja til söngva þeirra sem fóru fyrir svokölluðum völsasöngvum en það voru söngvar sungnir í eins konar skrúðgöngu á eftir eftirlíkingu af stórum getnaðarlimi til heiðurs Díonýsosi. Í Aþenu var keppt í leikritun á Díonýsosarhátíðinni í mars og síðar á Lenajuhátíðinni í janúar. Um grísk leikhús má lesa í svari undirritaðs við spurningunni Getið þið sagt mér frá uppbyggingu grískra leikhúsa til forna?
Grikkir fundu einnig upp sagnfræðina. Sagnfræðin varð til upp úr ákveðinni hefð heimildaskráningar snemma á 5. öld f.Kr. Ýmsir höfðu ritað um erlendar þjóðir, landafræði, ættfræði og sögu einstakra borga. Meðal annarra voru höfundar á borð við Hekatajos frá Míletos, Karon frá Lampsakos og Díonýsíos frá Míletos en engin rita þeirra eru varðveitt nema í brotum. Oftast er það Heródótos frá Halikarnassos sem er talinn faðir grískrar sagnfræði – „pater historiae“ eins og rómverski stjórnmálamaðurinn og ræðusnillingurinn Marcus Tullius Cicero nefndi hann. Heródótos gekk mun lengra en aðrir höfðu gert til þess að flétta saman ólíkar atburðarásir í heildstæðan söguþráð; hann hafði rannsóknarspurningu sem frásögnin átti að svara – hverjar voru ástæður þess að stríð braust út milli Grikkja og Persa? – og hann var gagnrýnni á heimildir sínar en fyrirrennarar hans en sjálfur segir hann: „Mér ber að greina frá því sem sagt er en mér ber alls ekki að trúa því.“ (Heródótos 7.152). Ef til vill var þó aþenski sagnfræðingurinn Þúkýdídes enn merkari en fyrirrennari hans Heródótos. Hann er af mörgum talinn mestur og áreiðanlegastur allra sagnfræðinga fornaldar. Þúkýdídes ritaði um sögu Pelópsskagastríðsins sem var samtímaviðburður. Hann þrengdi mjög viðfangsefni sagnfræðinnar svo að frásögn hans inniheldur nær einungis stjórnmála- og styrjaldarsögu en ekki hvers kyns útúrdúra um til að mynda þjóðhætti og landafræði líkt og rit Heródótosar. Efnistök Þúkýdídesar höfðu varanleg áhrif á ástundum sagnfræðinnar. Annað framlag Grikkja var heimspekin. Gríski heimspekingurinn Platon sagði að heimspekin ætti upphaf sitt í undrun. Vitaskuld voru Grikkir ekki fyrstir til þess að undrast. Hins vegar varð til meðal þeirra ákveðin rökræðuhefð sem sem þeir nefndu fílósófía (orðrétt: „ást á visku“); þessi hefð á sér órofa sögu til þessa dags þannig að það sem á Vesturlöndum kallast heimspeki (philosophy á ensku, philosophie á frönsku og þýsku, filosofi á norsku, sænsku og dönsku o.s.frv.) er skilgetið afkvæmi þessarar grísku hefðar: Vestræn heimspeki rekur upphaf sitt til Grikkja. Fyrsti gríski heimspekingurinn er venjulega talinn vera Þales frá Míletos (fæddur um 625 f.Kr.) Um sögu grískrar heimspeki má lesa í svari undirritaðs við spurningunum Hver er saga grískrar heimspeki? og Hvenær var blómatími grískrar heimspeki og hvenær lauk honum?
Ein af undirgreinum heimspekinnar, rökfræðin, er beinlínis uppfinning eins heimspekings, Aristótelesar. Hann reyndi fyrstur að gera grein fyrir því á kerfisbundinn hátt hvenær eina fullyrðingu leiðir af annarri. Það gerir hann einkum í ritunum Fyrri rökgreiningum og Síðari rökgreiningum en einnig í Um túlkun og í ritinu Spekirök þar sem hann tekur saman allar helstu rökvillurnar. Stóumenn fitjuðu upp á ýmiss konar nýjungum í rökfræði en rökfræði þeirra gleymdist á miðöldum og uppgötvaðist ekki aftur fyrr en mörgum öldum síðar. Í skólaspeki miðalda voru einhverjar nýjungar kynntar til sögunnar en rökfræði skólaspekinganna byggði þó að langmestu leyti á aristótelískri rökfræði. Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant (1724-1804) taldi að Aristóteles hefði þegar uppgötvað allt sem vert væri að uppgötva í rökfræði. Í raun varð ekki alger bylting í rökfræði fyrr en seint á 19. öld þegar nútímarökfræði varð til í skrifum þýska heimspekingsins Gottlobs Frege (1848-1925). Málfræði er líka grísk uppfinning. Gríski heimspekingurinn Prótagóras er sagður hafa fyrstur greint á milli kynja orða. Platon og Aristóteles byrjuðu á að greina milli ólíkra orðflokka – í fyrstu voru þeir aðeins tveir, sagnir og nöfn, en síðar bættust fleiri orðflokkar í hópinn – og þannig urðu málfræðihugtökin okkar til jafnt og þétt ásamt því sem greiningin varð æ nákvæmari. Stóumenn lögðu einnig sitt af mörkum en málfræðingarnir Díonýsíos Þrax og Apollóníos Dyskolos merkastir eru þó merkastir grískra málfræðinga. Rómverskir málfræðingar tóku upp gríska málfræði og löguðu að þörfum latínunnar en frá þeim eru komin málfræðihugtökin sem enn eru kennd í dag. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað getið þið sagt mér um uppfinningamenn og uppfinningar Forngrikkja? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvernig var daglegt líf og venjur Forngrikkja? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Youth Concern. Sótt 24.3.2010.