Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Cicero?

Geir Þ. Þórarinsson

Marcus Tullius Cicero var einn merkasti stjórnmálamaður, heimspekingur og rithöfundur Rómar á fyrstu öld fyrir Krist.


Frami

Cicero fæddist 3. janúar árið 106 f.Kr. í Arpinum á Ítalíu. Hann hlaut góða menntun í Aþenu og á Ródos bæði í mælskufræði og heimspeki. Cicero gerðist málafærslumaður og gat sér fljótt góðan orðstír. Hann varð fyrst þekktur eftir að hann tók að sér að verja leikarann Quintus Roscius Gallus árið 80 f.Kr. Tíu árum síðar flutti hann mál gegn Verresi en verjandi Verresar var Hortensius Hortales sem þá var talinn mestur ræðumaður í Róm. Cicero hafði betur og æ síðan var hann talinn einn mesti ræðusnillingur Rómar.

Um miðjan áttunda áratuginn f.Kr. var Cicero farinn að leita frama í stjórnmálum. Hann var svonefndur novus homo eða nýr maður en þannig voru þeir nefndir sem voru fyrstir í sinni ætt til þess að taka sæti í öldungaráðinu (senatinu). Cicero var af riddarastétt sem var auðug millistétt í Róm en henni tilheyrðu einkum landeigendur og verslunarmenn. Fæstir stjórnmálamenn af riddarastétt risu til æðstu metorða, en Cicero náði þeim árangri. Hann gegndi embætti gjaldkera eða questors árið 75 f.Kr. en gjaldkerar fengu sæti í öldungaráðinu ævilangt. Cicero var edíll árið 69 f.Kr., dómstjóri eða praetor árið 66 f.Kr. og ræðismaður eða consul árið 63 f.Kr. Embætti ræðismanns var æðsta og valdamesta embættið í rómverska lýðveldinu. Cicero var íhaldsmaður í stjórnmálum og var ætíð hliðhollur hugsjóninni um rómverska lýðveldið.

Cicero gegndi herþjónustu á yngri árum en einungis í stuttan tíma. Framabrautina fetaði hann ekki í gegnum hermennskuna eins og algengt var enda hafði hann óbeit á stríði og vopnaskaki.

Samsæri Catilinu

Árið 63 f.Kr., þegar Cicero var á hátindi stjórnmálaferils síns, hafði rómverskur yfirstéttarmaður að nafni Lucius Sergius Catilina (108-62 f.Kr.) uppi áform um að hrifsa völdin í sínar hendur. Cicero komst á snoðir um samsærið og hélt ræðu í þinginu þar sem hann ljóstraði öllu saman upp. Catilina flúði þá Róm og gerði uppreisn. Uppreisnin var bæld niður og 5. desember 63 f.Kr. fékk Cicero samþykki þingsins til þess að láta taka nokkra af uppreisnarmönnunum af lífi án dóms og laga. Þetta notuðu óvinir hans síðar gegn honum en Cicero hreykti sér af því að vera bjargvættur rómverska lýðveldisins.


Cicero talar gegn Catilinu. Mynd eftir Cesare Maccari.

Bona dea hneykslið og útlegðin

Árið 62 f.Kr. varð mikið hneyksli í kringum Bona dea hátíðina og átti það eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir Cicero. Bona dea eða gyðjan góða var frjósemisgyðja sem einkum var dýrkuð af rómverskum konum. Venjan var að hátíðarhöld til heiðurs henni færu fram 4. desember ár hvert á heimili þess sem fór með æðsta embætti trúmála, pontifex maximus, og einungis konur máttu taka þátt. Í desember árið 62 f.Kr. var hátíðin haldin á heimili Juliusar Caesars (102-44 f.Kr.) sem þá var pontifex maximus. Upp komst að maður hefði verið viðstaddur dulbúinn sem kona en hann komst undan án þess að borin væru kennsl á hann. Fljótlega komst á orðrómur um að dulbúni maðurinn hefði verið Publius Clodius Pulcher (92-52 f.Kr.) og að hann ætti í ástarsambandi við Pompeiu, eiginkonu Caesars. Þótt lítill vafi léki á því að Clodius hefði verið að verki voru alls engar sannanir um ástarsamband Clodiusar og Pompeiu. Caesar skildi þrátt fyrir það við Pompeiu og á að hafa sagt að kona Caesars yrði að vera hafin yfir allan vafa. Clodius var hins vegar kærður árið 61 f.Kr. Hann kvaðst hafa verið utanbæjar er atvikið átti sér stað en Cicero bar vitni gegn honum. Clodius var sýknaður, enda var talið að hann hefði mútað dómurunum, en Cicero hafði eignast öflugan óvin.

Clodius varð tribunus plebis eða lýðsstjóri árið 59 f.Kr. Í febrúar 58 f.Kr. lét hann setja afturvirk lög sem bönnuðu að hverjum þeim sem látið hefði taka af lífi rómverskan borgara án dóms og laga væri gefið vatn eða eldur innan vissra marka frá borginni. Þannig tókst honum að hrekja Cicero í útlegð frá Róm, og Cicero hélt til Makedóníu. Útlegðin reyndist Cicero afar þungbær og hann hugleiddi að svipta sig lífi.

Heimkoman og ævilok

Í Róm unnu vinir Ciceros hörðum höndum að því að fá hann kallaðan aftur heim. Það tókst þeim með lagasetningu 4. ágúst 57 f.Kr. Þann 4. september sama ár, eftir um það bil árs langa útlegð, kom Cicero aftur til Rómar og var honum fagnað mjög. Aftur á móti varð þáttur Ciceros í rómverskum stjórnmálum aldrei samur aftur. Hið svonefnda fyrra þremenningabandalag, sem var óformlegt hagsmunabandalag milli Caesars, Pompeiusar Magnusar (106-48 f.Kr.) og Crassusar Dives (um 112-55 f.Kr.) frá 60 f.Kr., tryggði þremenningunum töglin og haldirnar í rómverskum stjórnmálum. Cicero neyddist til þess að taka að sér landsstjórn í Kilikiu 51-50 f.Kr.

Cicero sneri aftur til Rómar árið 49 f.Kr. en þá hafði brotist út borgarastyrjöld. Julius Caesar stóð uppi sem sigurvegari eftir orrustuna við Farsalos árið 48 f.Kr., þar sem herir hans sigruðu heri Pompeiusar, og varð meira eða minna einvaldur í Róm að borgarastyrjöldinni lokinni þótt hann væri það ekki formlega. Cicero hafði tekið afstöðu með Pompeiusi og öldungaráðinu og gegn Caesari. Hann fékk samt sem áður náðun hjá Caesari eftir orrustuna við Farsalos.

Eftir að Caesar var ráðinn af dögum 15. mars 44 f.Kr. hélt Cicero margar ræður þar sem hann fagnaði morðinu. Einnig réðst hann harkalega á Marcus Antonius (um 82-30 f.Kr.), sem þá var ræðismaður og hafði verið helsti samverkamaður Caesars, og benti meðal annars á að morðingjar Caesar hefðu einnig átt að drepa Antonius. Þegar stofnað var til síðara þremenningabandalagsins milli Antoniusar, Marcusar Aemiliusar Lepidusar (89-12 f.Kr.) og Oktavianusar (63 f.Kr. - 14 e.Kr.) sem síðar hlaut nafnið Ágústus, fór Antonius fram á að Cicero yrði hafður á lista yfir þá sem ætti að ráða af dögum. Oktavianus og Lepidus féllust á það og Cicero var myrtur 7. desember árið 43 f.Kr.


Caesar myrtur. Mynd eftir Karl Theodore van Piloty.

Varðveitt ritverk

Cicero var gríðarlega afkastamikill höfundur. Megnið af vitneskju okkar um hann er fengið úr hans eigin skrifum, en einnig eru til aðrar heimildir um ævi hans og störf, svo sem ævisaga Ciceros eftir sagnaritarann Plútarkos (um 46-126 e.Kr.) og ýmsar heimildir um rómverska lýðveldið.

Alls eru varðveittar 58 ræður eftir Cicero, en margar aðrar hafa glatast. Ræðurnar eru ýmist stjórnmálaræður eða ræður frá málaferlum sem Cicero var viðriðinn, annaðhvort sem verjandi eða sækjandi.

Cicero samdi nokkur fræðileg verk um mælskulist. Helst eru Um ræðumanninn (De Oratore) frá 55 f.Kr., Brutus og Ræðumaðurinn (Orator) frá 46 f.Kr. Í Um ræðumanninn er fjallað um fyrirmyndarræðumanninn og menntun hans. Brutus fjallar að mestu um sögu ræðumennskunnar í Róm og Ræðumaðurinn fjallar um tæknilegri hliðar mælskulistarinnar.

Heimspekiverk Ciceros eru allnokkur en þykja ekki ýkja frumleg. Cicero átti samt sem áður mikinn þátt í að breiða út þekkingu á grískri heimspeki í Róm og auka vinsældir hennar. Hann studdist við ýmis rit eftir gríska höfunda sem nú eru glötuð og er því mikilvæg heimild um suma þætti grískrar heimspeki. Helstu verkin eru:

  • Ríkið (De Republica) frá 54-51 f.Kr.
  • Lögin (De Legibus) frá 52-51 f.Kr.
  • Akademían (Academica) frá 45 f.Kr.
  • Um endimörk góðs og ills (De Finibus Bonorum et Malorum) frá 45 f.Kr.
  • Samræður í Tusculum (Tusculanae Disputationes) frá 45 f.Kr.
  • Um eðli guðanna (De Natura Deorum) frá 45 f.Kr.
  • Cato eldri um ellina (Cato Maior de Senectute) frá 44 f.Kr.
  • Um örlögin (De Fato) frá 44 f.Kr.
  • Lælius um vináttuna (Laelius de Amicitia) frá 44 f.Kr.
  • Almæli (Topica) frá 44 f.Kr.
  • Um skyldur (De Officiis) frá 44 f.Kr.

Varðveitt eru um það bil 900 bréf sem Cicero skrifaði Atticusi vini sínum, Quintusi bróður sínum og öðrum vinum og kunningjum. Bréfin eru einkabréf sem voru ekki ætluð útgáfu. Þau veita einstaka innsýn í líf þessa merka manns sem fyrir vikið er sennilega sá fornmaður sem við þekkjum best.

Að lokum eru varðveitt brot úr ljóðum eftir Cicero, en þau þykja ekki ýkja merkileg.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og frekara lesefni:
  • Á netinu
    • Cicero. The Internet Encyclopedia of Philosophy.

  • Rit

    • Cicero, Marcus Tullius, Um ellina. Kjartan Ragnars (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1982).
    • Cicero, Marcus Tullius, Um vináttuna. Margrét Oddsdóttir (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1993).
    • Everitt, Anthony, Cicero: The Life and Times og Rome’s Greatest Politician (New York: Random House, 2001).

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

29.9.2005

Spyrjandi

Sólveig Albertsdóttir

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Cicero?“ Vísindavefurinn, 29. september 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5298.

Geir Þ. Þórarinsson. (2005, 29. september). Hver var Cicero? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5298

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Cicero?“ Vísindavefurinn. 29. sep. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5298>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Cicero?
Marcus Tullius Cicero var einn merkasti stjórnmálamaður, heimspekingur og rithöfundur Rómar á fyrstu öld fyrir Krist.


Frami

Cicero fæddist 3. janúar árið 106 f.Kr. í Arpinum á Ítalíu. Hann hlaut góða menntun í Aþenu og á Ródos bæði í mælskufræði og heimspeki. Cicero gerðist málafærslumaður og gat sér fljótt góðan orðstír. Hann varð fyrst þekktur eftir að hann tók að sér að verja leikarann Quintus Roscius Gallus árið 80 f.Kr. Tíu árum síðar flutti hann mál gegn Verresi en verjandi Verresar var Hortensius Hortales sem þá var talinn mestur ræðumaður í Róm. Cicero hafði betur og æ síðan var hann talinn einn mesti ræðusnillingur Rómar.

Um miðjan áttunda áratuginn f.Kr. var Cicero farinn að leita frama í stjórnmálum. Hann var svonefndur novus homo eða nýr maður en þannig voru þeir nefndir sem voru fyrstir í sinni ætt til þess að taka sæti í öldungaráðinu (senatinu). Cicero var af riddarastétt sem var auðug millistétt í Róm en henni tilheyrðu einkum landeigendur og verslunarmenn. Fæstir stjórnmálamenn af riddarastétt risu til æðstu metorða, en Cicero náði þeim árangri. Hann gegndi embætti gjaldkera eða questors árið 75 f.Kr. en gjaldkerar fengu sæti í öldungaráðinu ævilangt. Cicero var edíll árið 69 f.Kr., dómstjóri eða praetor árið 66 f.Kr. og ræðismaður eða consul árið 63 f.Kr. Embætti ræðismanns var æðsta og valdamesta embættið í rómverska lýðveldinu. Cicero var íhaldsmaður í stjórnmálum og var ætíð hliðhollur hugsjóninni um rómverska lýðveldið.

Cicero gegndi herþjónustu á yngri árum en einungis í stuttan tíma. Framabrautina fetaði hann ekki í gegnum hermennskuna eins og algengt var enda hafði hann óbeit á stríði og vopnaskaki.

Samsæri Catilinu

Árið 63 f.Kr., þegar Cicero var á hátindi stjórnmálaferils síns, hafði rómverskur yfirstéttarmaður að nafni Lucius Sergius Catilina (108-62 f.Kr.) uppi áform um að hrifsa völdin í sínar hendur. Cicero komst á snoðir um samsærið og hélt ræðu í þinginu þar sem hann ljóstraði öllu saman upp. Catilina flúði þá Róm og gerði uppreisn. Uppreisnin var bæld niður og 5. desember 63 f.Kr. fékk Cicero samþykki þingsins til þess að láta taka nokkra af uppreisnarmönnunum af lífi án dóms og laga. Þetta notuðu óvinir hans síðar gegn honum en Cicero hreykti sér af því að vera bjargvættur rómverska lýðveldisins.


Cicero talar gegn Catilinu. Mynd eftir Cesare Maccari.

Bona dea hneykslið og útlegðin

Árið 62 f.Kr. varð mikið hneyksli í kringum Bona dea hátíðina og átti það eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir Cicero. Bona dea eða gyðjan góða var frjósemisgyðja sem einkum var dýrkuð af rómverskum konum. Venjan var að hátíðarhöld til heiðurs henni færu fram 4. desember ár hvert á heimili þess sem fór með æðsta embætti trúmála, pontifex maximus, og einungis konur máttu taka þátt. Í desember árið 62 f.Kr. var hátíðin haldin á heimili Juliusar Caesars (102-44 f.Kr.) sem þá var pontifex maximus. Upp komst að maður hefði verið viðstaddur dulbúinn sem kona en hann komst undan án þess að borin væru kennsl á hann. Fljótlega komst á orðrómur um að dulbúni maðurinn hefði verið Publius Clodius Pulcher (92-52 f.Kr.) og að hann ætti í ástarsambandi við Pompeiu, eiginkonu Caesars. Þótt lítill vafi léki á því að Clodius hefði verið að verki voru alls engar sannanir um ástarsamband Clodiusar og Pompeiu. Caesar skildi þrátt fyrir það við Pompeiu og á að hafa sagt að kona Caesars yrði að vera hafin yfir allan vafa. Clodius var hins vegar kærður árið 61 f.Kr. Hann kvaðst hafa verið utanbæjar er atvikið átti sér stað en Cicero bar vitni gegn honum. Clodius var sýknaður, enda var talið að hann hefði mútað dómurunum, en Cicero hafði eignast öflugan óvin.

Clodius varð tribunus plebis eða lýðsstjóri árið 59 f.Kr. Í febrúar 58 f.Kr. lét hann setja afturvirk lög sem bönnuðu að hverjum þeim sem látið hefði taka af lífi rómverskan borgara án dóms og laga væri gefið vatn eða eldur innan vissra marka frá borginni. Þannig tókst honum að hrekja Cicero í útlegð frá Róm, og Cicero hélt til Makedóníu. Útlegðin reyndist Cicero afar þungbær og hann hugleiddi að svipta sig lífi.

Heimkoman og ævilok

Í Róm unnu vinir Ciceros hörðum höndum að því að fá hann kallaðan aftur heim. Það tókst þeim með lagasetningu 4. ágúst 57 f.Kr. Þann 4. september sama ár, eftir um það bil árs langa útlegð, kom Cicero aftur til Rómar og var honum fagnað mjög. Aftur á móti varð þáttur Ciceros í rómverskum stjórnmálum aldrei samur aftur. Hið svonefnda fyrra þremenningabandalag, sem var óformlegt hagsmunabandalag milli Caesars, Pompeiusar Magnusar (106-48 f.Kr.) og Crassusar Dives (um 112-55 f.Kr.) frá 60 f.Kr., tryggði þremenningunum töglin og haldirnar í rómverskum stjórnmálum. Cicero neyddist til þess að taka að sér landsstjórn í Kilikiu 51-50 f.Kr.

Cicero sneri aftur til Rómar árið 49 f.Kr. en þá hafði brotist út borgarastyrjöld. Julius Caesar stóð uppi sem sigurvegari eftir orrustuna við Farsalos árið 48 f.Kr., þar sem herir hans sigruðu heri Pompeiusar, og varð meira eða minna einvaldur í Róm að borgarastyrjöldinni lokinni þótt hann væri það ekki formlega. Cicero hafði tekið afstöðu með Pompeiusi og öldungaráðinu og gegn Caesari. Hann fékk samt sem áður náðun hjá Caesari eftir orrustuna við Farsalos.

Eftir að Caesar var ráðinn af dögum 15. mars 44 f.Kr. hélt Cicero margar ræður þar sem hann fagnaði morðinu. Einnig réðst hann harkalega á Marcus Antonius (um 82-30 f.Kr.), sem þá var ræðismaður og hafði verið helsti samverkamaður Caesars, og benti meðal annars á að morðingjar Caesar hefðu einnig átt að drepa Antonius. Þegar stofnað var til síðara þremenningabandalagsins milli Antoniusar, Marcusar Aemiliusar Lepidusar (89-12 f.Kr.) og Oktavianusar (63 f.Kr. - 14 e.Kr.) sem síðar hlaut nafnið Ágústus, fór Antonius fram á að Cicero yrði hafður á lista yfir þá sem ætti að ráða af dögum. Oktavianus og Lepidus féllust á það og Cicero var myrtur 7. desember árið 43 f.Kr.


Caesar myrtur. Mynd eftir Karl Theodore van Piloty.

Varðveitt ritverk

Cicero var gríðarlega afkastamikill höfundur. Megnið af vitneskju okkar um hann er fengið úr hans eigin skrifum, en einnig eru til aðrar heimildir um ævi hans og störf, svo sem ævisaga Ciceros eftir sagnaritarann Plútarkos (um 46-126 e.Kr.) og ýmsar heimildir um rómverska lýðveldið.

Alls eru varðveittar 58 ræður eftir Cicero, en margar aðrar hafa glatast. Ræðurnar eru ýmist stjórnmálaræður eða ræður frá málaferlum sem Cicero var viðriðinn, annaðhvort sem verjandi eða sækjandi.

Cicero samdi nokkur fræðileg verk um mælskulist. Helst eru Um ræðumanninn (De Oratore) frá 55 f.Kr., Brutus og Ræðumaðurinn (Orator) frá 46 f.Kr. Í Um ræðumanninn er fjallað um fyrirmyndarræðumanninn og menntun hans. Brutus fjallar að mestu um sögu ræðumennskunnar í Róm og Ræðumaðurinn fjallar um tæknilegri hliðar mælskulistarinnar.

Heimspekiverk Ciceros eru allnokkur en þykja ekki ýkja frumleg. Cicero átti samt sem áður mikinn þátt í að breiða út þekkingu á grískri heimspeki í Róm og auka vinsældir hennar. Hann studdist við ýmis rit eftir gríska höfunda sem nú eru glötuð og er því mikilvæg heimild um suma þætti grískrar heimspeki. Helstu verkin eru:

  • Ríkið (De Republica) frá 54-51 f.Kr.
  • Lögin (De Legibus) frá 52-51 f.Kr.
  • Akademían (Academica) frá 45 f.Kr.
  • Um endimörk góðs og ills (De Finibus Bonorum et Malorum) frá 45 f.Kr.
  • Samræður í Tusculum (Tusculanae Disputationes) frá 45 f.Kr.
  • Um eðli guðanna (De Natura Deorum) frá 45 f.Kr.
  • Cato eldri um ellina (Cato Maior de Senectute) frá 44 f.Kr.
  • Um örlögin (De Fato) frá 44 f.Kr.
  • Lælius um vináttuna (Laelius de Amicitia) frá 44 f.Kr.
  • Almæli (Topica) frá 44 f.Kr.
  • Um skyldur (De Officiis) frá 44 f.Kr.

Varðveitt eru um það bil 900 bréf sem Cicero skrifaði Atticusi vini sínum, Quintusi bróður sínum og öðrum vinum og kunningjum. Bréfin eru einkabréf sem voru ekki ætluð útgáfu. Þau veita einstaka innsýn í líf þessa merka manns sem fyrir vikið er sennilega sá fornmaður sem við þekkjum best.

Að lokum eru varðveitt brot úr ljóðum eftir Cicero, en þau þykja ekki ýkja merkileg.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og frekara lesefni:
  • Á netinu
    • Cicero. The Internet Encyclopedia of Philosophy.

  • Rit

    • Cicero, Marcus Tullius, Um ellina. Kjartan Ragnars (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1982).
    • Cicero, Marcus Tullius, Um vináttuna. Margrét Oddsdóttir (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1993).
    • Everitt, Anthony, Cicero: The Life and Times og Rome’s Greatest Politician (New York: Random House, 2001).

Myndir:

...