Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjir voru Neró, Cládíus og Calígúla og hvað gerðu þeir sér til frægðar?

Stefán Gunnar Sveinsson

Neró og Calígúla voru rómverskir keisarar sem unnu sér það helst til frægðar að þykja óhæfir sem stjórnendur þrátt fyrir ytri gjörvileika, enda biðu þeirra beggja voveifleg örlög á keisarastólnum. Cládíus, sem var keisari á eftir Calígúla en á undan Neró, var hins vegar talinn heimskur á fyrri árum sínum en reyndist svo einn hæfasti keisarinn af ætt Júlíusar Caesars.

Calígúla

Calígúla varð keisari eftir andlát Tíberíusar keisara árið 37 e.Kr. Í byrjun valdatíðar sinnar sóttist hann eftir góðum samskiptum við öldungaráð Rómar. Hins vegar fór hann fljótt að sýna merki geðveilu. Af valdatíð Calígúla fara ýmsar sögur, flestar slæmar. Frægust er ef til vill sagan af því að hann hafi útnefnt hest sinn sem ræðismann. Þá á hann að hafa fellt ástarhug til systra sinna og sóst eftir og fengið samneyti við þær. Þá fékk hann það orð á sig að hann væri blóðþyrstur og hefði unun af því að horfa á aftökur manna. Einnig heimtaði hann að litið væri á sig sem guð.


Calígúla er sagður hafa sængað með systrum sínum.

Calígúla var myrtur árið 41 af lífverði sínum sem hafði fengið nóg af hegðun keisarans. Tilræðismennirnir gerðu svo frænda hans, Cládíus, að keisara, en hann var talinn vanviti. Það var í fyrsta en ekki síðasta skiptið sem lífverðir keisarans skiptu sér af því hver settist á keisarastól.

Cládíus

Cládíus þótti ekki líklegt keisaraefni á sínum yngri árum; hann stamaði og var haltur, væntanlega eftir lömunarveiki eða annan áþekkan sjúkdóm sem herjaði á hann í æsku. Líklegt er að bæklun hans hafi bjargað honum frá því að vera myrtur á tímum Tíberíusar og Calígúla. Þegar honum var lyft á keisarastólinn var því talið líklegt að hann yrði þægur þjónn þeirra sem höfðu komið honum þangað. Það reyndist fjarri sanni.

Á stjórnarárum sínum sóttist Cládíus eftir að hrinda í framkvæmd ýmsum áætlunum sem Júlíus Caesar hafði á prjónunum áður en hann var myrtur. Þar á meðal var að byggja höfn fyrir Rómaborg í borginni Ostíu til að auðvelda innflutning á korni. Einnig lagði Cládíus Bretland undir Rómaveldi árið 47, en það hafði Caesar sjálfur reynt en mistekist. Þá mun Cládíus hafa styrkt embættismannakerfi Rómaveldis. Flóknara embættismannakerfi fylgdi hins vegar spilling og þykir það einn helsti ljóðurinn á stjórnartíð Cládíusar.

Kvennamálin reyndust Cládíusi erfið. Hann giftist fjórum sinnum en þriðja eiginkona hans, Messalína, er þekkt fyrir lauslæti. Cládíus kippti sér þó lítið upp við það, enda fékk hann þá sjálfur frelsi til að taka sér frillur. Árið 48 giftist hún öðrum manni, Silíusi að nafni, og ætlaði sér að koma honum á keisarastól. Cládíus brást hart við og lét drepa Silíus og aðra elskhuga Messalínu. Messalína sjálf var myrt að undirlagi Narsissusar, eins helsta ráðgjafa Cládíusar. Innan árs hafði Cládíus gifst aftur, í þetta sinn bróðurdóttur sinni, Agrippínu yngri. Hún hafði þann helstan metnað að koma syni sínum, Neró, á keisarastól.

Cládíus ríkti í þrettán ár við ágætan orðstír eða allt þar til hann var samkvæmt sumum heimildum myrtur árið 54 af Agrippínu, sem sögð er hafa borið fyrir hann eitraða sveppi. Við keisaratigninni tók Neró en hann var þá 17 ára gamall.

Neró

Hægt er að skipta valdatíma Nerós í tvennt. Fyrstu árin stjórnaði Agrippína móðir hans í raun fyrir hann, en einnig naut Neró hjálpar heimspekingsins Seneca sem hafði kennt honum á yngri árum. Fyrstu fimm ár stjórnartíðar Nerós hafa verið talin til eins farsælasta skeiðs í sögu Rómar. Hins vegar gramdist Neró með tíð og tíma vald móður sinnar og lét á endanum drepa hana. Þá var hann 22 ára og hafði heiminn í höndum sér. Neró var listhneigður mjög og var hrifinn af íþróttum, einkum kerruakstri. Þá var Neró mikill lífsnautnaseggur og fannst sumum nóg um.

Árið 64 kom upp mikill bruni í Róm sem lagði stóran hluta borgarinnar í rúst. Illar tungur hermdu að Neró hefði sjálfur látið kveikja í borginni og er oft sagt að hann hafi spilað á fiðlu (eða öllu heldur hörpu, þar sem enn átti eftir að finna upp fiðluna á tímum Nerós) á meðan Rómaborg brann. Engin leið er til að sanna þá ávirðingu á hann, en þarna gafst Neró hins vegar kærkomið tækifæri til að endurbyggja Róm eins og hann langað til. Í kjölfar eldsins hóf Neró ofsóknir á hendur kristnum mönnum í Rómaveldi. Af þeirri ástæðu hefur Neró fengið hörð eftirmæli og verið líkt við And-Krist.


Forn mynt með myndum af Neró.

Einu til tveimur árum eftir brunann varð Neró fyrir þeirri ógæfu að seinni eiginkona hans, Poppæa, dó. Hegðun Nerós breyttist til hins verra við þetta áfall og hafði hann ekki þótt neinn kórdrengur fyrir. Gengu ýmsar sögur af gjálífi Nerós, til að mynda að hann hefði látið vana ungan mann sem líktist Poppæu og gifst honum. Einnig lét hann byggja gullhöll mikla sem þótti ósmekkleg í meira lagi.

Neró komst á snoðir um mikið samsæri gegn sér sem margir mikilsmetnir Rómverjar voru viðriðnir, þar á meðal kennarinn hans, Seneca. Samsærið var bælt niður með harðri hendi en mikil óánægja var nú með óstjórn Nerós. Árið 68 lýsti svo landstjóri Gallíu yfir sjálfstæði skattlands síns. Óx þá andstæðingum Nerós styrkur, sér í lagi þegar hershöfðinginn Galba gekk til liðs við uppreisnina. Öldungaráðið ákvað að útnefna Galba sem keisara og lýsti Neró óvin ríkisins. Neró flúði þá Róm og dvaldi um nóttina í kjallara kunningja síns. Þegar dagur rann heyrðist Neró sem að hermenn öldungaráðsins væru að koma, og ákvað hann að fyrirfara sér en veittist illa. Leysingi hans aðstoðaði hann þá og stakk Neró í hálsinn. Andlátsorð Nerós eiga að hafa verið: „Hvílíkur listamaður deyr með mér!“ Lauk þar valdatíð júlíönsku keisaranna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir

Höfundur

Útgáfudagur

15.9.2005

Spyrjandi

Óskar Ingi Magnússon, f. 1986
Rúnar Þór Friðriksson, f. 1991
Helga Hlín Bjarnadóttir

Tilvísun

Stefán Gunnar Sveinsson. „Hverjir voru Neró, Cládíus og Calígúla og hvað gerðu þeir sér til frægðar?“ Vísindavefurinn, 15. september 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5266.

Stefán Gunnar Sveinsson. (2005, 15. september). Hverjir voru Neró, Cládíus og Calígúla og hvað gerðu þeir sér til frægðar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5266

Stefán Gunnar Sveinsson. „Hverjir voru Neró, Cládíus og Calígúla og hvað gerðu þeir sér til frægðar?“ Vísindavefurinn. 15. sep. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5266>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjir voru Neró, Cládíus og Calígúla og hvað gerðu þeir sér til frægðar?
Neró og Calígúla voru rómverskir keisarar sem unnu sér það helst til frægðar að þykja óhæfir sem stjórnendur þrátt fyrir ytri gjörvileika, enda biðu þeirra beggja voveifleg örlög á keisarastólnum. Cládíus, sem var keisari á eftir Calígúla en á undan Neró, var hins vegar talinn heimskur á fyrri árum sínum en reyndist svo einn hæfasti keisarinn af ætt Júlíusar Caesars.

Calígúla

Calígúla varð keisari eftir andlát Tíberíusar keisara árið 37 e.Kr. Í byrjun valdatíðar sinnar sóttist hann eftir góðum samskiptum við öldungaráð Rómar. Hins vegar fór hann fljótt að sýna merki geðveilu. Af valdatíð Calígúla fara ýmsar sögur, flestar slæmar. Frægust er ef til vill sagan af því að hann hafi útnefnt hest sinn sem ræðismann. Þá á hann að hafa fellt ástarhug til systra sinna og sóst eftir og fengið samneyti við þær. Þá fékk hann það orð á sig að hann væri blóðþyrstur og hefði unun af því að horfa á aftökur manna. Einnig heimtaði hann að litið væri á sig sem guð.


Calígúla er sagður hafa sængað með systrum sínum.

Calígúla var myrtur árið 41 af lífverði sínum sem hafði fengið nóg af hegðun keisarans. Tilræðismennirnir gerðu svo frænda hans, Cládíus, að keisara, en hann var talinn vanviti. Það var í fyrsta en ekki síðasta skiptið sem lífverðir keisarans skiptu sér af því hver settist á keisarastól.

Cládíus

Cládíus þótti ekki líklegt keisaraefni á sínum yngri árum; hann stamaði og var haltur, væntanlega eftir lömunarveiki eða annan áþekkan sjúkdóm sem herjaði á hann í æsku. Líklegt er að bæklun hans hafi bjargað honum frá því að vera myrtur á tímum Tíberíusar og Calígúla. Þegar honum var lyft á keisarastólinn var því talið líklegt að hann yrði þægur þjónn þeirra sem höfðu komið honum þangað. Það reyndist fjarri sanni.

Á stjórnarárum sínum sóttist Cládíus eftir að hrinda í framkvæmd ýmsum áætlunum sem Júlíus Caesar hafði á prjónunum áður en hann var myrtur. Þar á meðal var að byggja höfn fyrir Rómaborg í borginni Ostíu til að auðvelda innflutning á korni. Einnig lagði Cládíus Bretland undir Rómaveldi árið 47, en það hafði Caesar sjálfur reynt en mistekist. Þá mun Cládíus hafa styrkt embættismannakerfi Rómaveldis. Flóknara embættismannakerfi fylgdi hins vegar spilling og þykir það einn helsti ljóðurinn á stjórnartíð Cládíusar.

Kvennamálin reyndust Cládíusi erfið. Hann giftist fjórum sinnum en þriðja eiginkona hans, Messalína, er þekkt fyrir lauslæti. Cládíus kippti sér þó lítið upp við það, enda fékk hann þá sjálfur frelsi til að taka sér frillur. Árið 48 giftist hún öðrum manni, Silíusi að nafni, og ætlaði sér að koma honum á keisarastól. Cládíus brást hart við og lét drepa Silíus og aðra elskhuga Messalínu. Messalína sjálf var myrt að undirlagi Narsissusar, eins helsta ráðgjafa Cládíusar. Innan árs hafði Cládíus gifst aftur, í þetta sinn bróðurdóttur sinni, Agrippínu yngri. Hún hafði þann helstan metnað að koma syni sínum, Neró, á keisarastól.

Cládíus ríkti í þrettán ár við ágætan orðstír eða allt þar til hann var samkvæmt sumum heimildum myrtur árið 54 af Agrippínu, sem sögð er hafa borið fyrir hann eitraða sveppi. Við keisaratigninni tók Neró en hann var þá 17 ára gamall.

Neró

Hægt er að skipta valdatíma Nerós í tvennt. Fyrstu árin stjórnaði Agrippína móðir hans í raun fyrir hann, en einnig naut Neró hjálpar heimspekingsins Seneca sem hafði kennt honum á yngri árum. Fyrstu fimm ár stjórnartíðar Nerós hafa verið talin til eins farsælasta skeiðs í sögu Rómar. Hins vegar gramdist Neró með tíð og tíma vald móður sinnar og lét á endanum drepa hana. Þá var hann 22 ára og hafði heiminn í höndum sér. Neró var listhneigður mjög og var hrifinn af íþróttum, einkum kerruakstri. Þá var Neró mikill lífsnautnaseggur og fannst sumum nóg um.

Árið 64 kom upp mikill bruni í Róm sem lagði stóran hluta borgarinnar í rúst. Illar tungur hermdu að Neró hefði sjálfur látið kveikja í borginni og er oft sagt að hann hafi spilað á fiðlu (eða öllu heldur hörpu, þar sem enn átti eftir að finna upp fiðluna á tímum Nerós) á meðan Rómaborg brann. Engin leið er til að sanna þá ávirðingu á hann, en þarna gafst Neró hins vegar kærkomið tækifæri til að endurbyggja Róm eins og hann langað til. Í kjölfar eldsins hóf Neró ofsóknir á hendur kristnum mönnum í Rómaveldi. Af þeirri ástæðu hefur Neró fengið hörð eftirmæli og verið líkt við And-Krist.


Forn mynt með myndum af Neró.

Einu til tveimur árum eftir brunann varð Neró fyrir þeirri ógæfu að seinni eiginkona hans, Poppæa, dó. Hegðun Nerós breyttist til hins verra við þetta áfall og hafði hann ekki þótt neinn kórdrengur fyrir. Gengu ýmsar sögur af gjálífi Nerós, til að mynda að hann hefði látið vana ungan mann sem líktist Poppæu og gifst honum. Einnig lét hann byggja gullhöll mikla sem þótti ósmekkleg í meira lagi.

Neró komst á snoðir um mikið samsæri gegn sér sem margir mikilsmetnir Rómverjar voru viðriðnir, þar á meðal kennarinn hans, Seneca. Samsærið var bælt niður með harðri hendi en mikil óánægja var nú með óstjórn Nerós. Árið 68 lýsti svo landstjóri Gallíu yfir sjálfstæði skattlands síns. Óx þá andstæðingum Nerós styrkur, sér í lagi þegar hershöfðinginn Galba gekk til liðs við uppreisnina. Öldungaráðið ákvað að útnefna Galba sem keisara og lýsti Neró óvin ríkisins. Neró flúði þá Róm og dvaldi um nóttina í kjallara kunningja síns. Þegar dagur rann heyrðist Neró sem að hermenn öldungaráðsins væru að koma, og ákvað hann að fyrirfara sér en veittist illa. Leysingi hans aðstoðaði hann þá og stakk Neró í hálsinn. Andlátsorð Nerós eiga að hafa verið: „Hvílíkur listamaður deyr með mér!“ Lauk þar valdatíð júlíönsku keisaranna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir...