Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hver stjórnaði morðinu á Sesari? (Brynjar Björnsson, f. 1987)
Hvenær var Sesar drepinn og hvað var hann gamall? (Andrés Gunnarsson)
Hver var það sem drap Sesar? (Guðjón Magnússon)
Hver drap Júlíus Sesar? (Arnór Kristmundsson)
Hér er einnig svarað eftirfarandi spurningum:
Hver voru síðustu orð Sesars? (Þórður Sigurðsson)
Var Júlíus Sesar einhvern tímann keisari Rómverja? (Hlöðver Gunnarsson, f. 1985)
Árið 44 f. Kr. stóð Júlíus Sesar á hátindi ferils síns. Hann hafði borið sigurorð af fyrrum vini sínum Pompeiusi mikla í einu af mörgum borgarastríðum sem plöguðu Róm og réði því sem hann vildi þar. Sesar sankaði að sér hinum ýmsu titlum og embættum sem Rómverjum stóðu til boða. Meðal annars var búið að gera hann að alræðismanni til lífstíðar. Gjörðir hans vöktu ugg meðal ýmissa mikilsmetinna Rómverja og öldungaráðsmanna. Þeir óttuðust að hann hygðist binda enda á lýðveldið og taka sér konungsnafnbót en slíkt var sem eitur í beinum Rómverja. Rekja má ástæðurnar fyrir því til stofnunar lýðveldis Rómar árið 510 f. Kr. þegar síðasta konungi Rómaveldis, Tarkíníusi Superbus, var steypt af stóli en hann þótti óhæfur stjórnandi svo ekki sé meira sagt.
Ekki leið á löngu áður en ýmsir tóku sig saman og skipulögðu samsæri gegn Sesari. Höfuðpaurarnir voru þeir Gaius Kassíus Longinus, oftast bara nefndur Kassíus, og Markús Júníus Brútus. Forfaðir Brútusar var einn af þeim sem höfðu hrint Tarkíníusi Superbus af stalli og má því segja að honum hafið runnið blóðið til skyldunnar að koma í veg fyrir að Sesar tæki sér konungsnafn. Báðir höfðu þeir stutt Pompeius í borgarastríðinu en gengið Sesari á hönd. Sesar hafði veitt þeim embætti og gert vel við þá báða, þó einkum Brútus. Illar tungur hermdu að Brútus væri launsonur Sesars en ekkert mun hæft í þeim ásökunum. Aðrir komu að samsærinu, og áttu þeir flestir það sammerkt að Sesar hafði náðað þá eða á annan hátt gert vel við þá þrátt fyrir að þeir hafi stutt Pompeius.
Sesar myrtur. Mynd eftir Karl Theodore van Piloty
Sesar hafði í hyggju að herja á Parþíu (þar sem nú er Írak og Íran) og ætlaði sér að hefja þá frægðarför í aprílmánuði. Þar sem fornar spásagnir hermdu að einungis konungur gæti lagt Parþa að velli fékk hann leyfi til að bera kórónu hvar sem var í Rómaveldi utan Rómaborgar. Við þessi tíðindi ákváðu samsærismennirnir að láta til skarar skríða því engin leið yrði að vega Sesar eftir að hann legði af stað.
Sesar kallaði öldungaráðið saman til fundar og skyldi það hittast hinn 15. mars (lat. Ides Martii). Vegna viðgerða á húsi öldungaráðsins kom það saman í leikhúsi sem kennt var við Pompeius mikla. Sagnir herma að spámaður einn hafi varað Sesar við þessum degi. Þegar 15. mars rann upp á Sesar að hafa hitt spámanninn og mælt að 15. mars væri kominn án skaða. Spámaðurinn svaraði: „15. mars er runninn upp, en ekki liðinn.“
Þegar Sesar settist í sæti sitt í öldungaráðinu umkringdu tilræðismennirnir hann og einn þeirra, Metellus Cimber, greip um hendur hans undir því yfirskini að biðja hann bónar. Þegar gripið var í skikkju Sesars hrópaði hann „Þetta er ofbeldi!“ Sesar var stunginn mörgum sinnum af tilræðismönnum sínum og hlaut að minnsta kosti 23 stungusár (sumir segja 35). Þegar Brútus lagði til hans mælti Sesar á grísku: „Kai su teknon“ („Þú líka, barnið mitt“) og hætti að verja sig. Dró hann þá skikkju sína yfir höfuð sér og á hann að hafa fallið niður við styttu af andstæðingi sínum, fyrrum vini og tengdasyni, Pompeiusi. Flestir kannast við andlátsorðin á latínu eins og þau eru í leikriti Williams Shakespeare: „Et tu, Brute“ („Og þú líka, Brútus?“).
Brútus og öldungarnir stinga Sesar. Hluti myndar eftir James Gitlin.
Tilræðismennirnir vildu bjarga lýðveldinu með því að myrða Sesar en í raun ráku þeir síðasta naglann í líkkistu þess, því að morðið hrinti af stað atburðarás sem leiddi á endanum til þess að Oktavían, kjörsonur Sesars, gerðist fyrsti keisari Rómaveldis. Í kjölfar morðsins komu þeir Markús Antoníus og Oktavían á fót seinna þrístjóraveldinu (lat. triumvirat) ásamt Lepidusi sem var einfaldlega ýtt til hliðar af hinum tveimur. Þeir eltu Kassíus og Brútus og lenti herjum þeirra saman við Filippí í Makedóníu árið 42 f. Kr. Féllu þar þeir Kassíus og Brútus. Ekki leið á löngu þar til Oktavían og Markús Antoníus hófu að deila um völdin í Róm og lauk þeirri deilu með sigri Oktavíans árið 30 f.Kr. Fékk hann heiðursnafnið Ágústus og varð fyrsti keisari Rómaveldis.
Leikrit Williams Shakespeares um morðið á Sesari er hægt að finna á íslensku í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Leikritið hefur verið fært í kvikmyndabúning oftar en einu sinni; frægasta útgáfan er frá árinu 1953 og skartar stórleikurunum Marlon Brando, John Gielgud og James Mason í aðalhlutverkum. Hafa ber þó í huga að í leikriti Shakespeares hefur ýmislegt verið fært í stílinn og þarf því að taka því með fyrirvara sem kemur þar fram.
Skoðanir manna á morðinu hafa verið æði misjafnar, allt frá fordæmingu á ódæðinu til aðdáunar á þeim sem frömdu það. Það fer allt eftir afstöðu manna til gjörða Sesars, hvort hann hafi ætlað sér að gerast harðstjóri og einvaldur yfir Rómaveldi eða hvort þær breytingar sem hann ætlaði sér að koma á hefðu verið nauðsynlegar til að stýra Rómaveldi. Þegar þarna var komið sögu (á 1. öld f. Kr.) var lýðveldið varla svipur hjá sjón, allt logaði í illdeilum og borgarastríðum. Á endanum eyddi það sjálfu sér og Ágústus kom á stjórnfestu og friði.
Frekara lesefni og mynd
Will Durant, Rómaveldi. Fyrra bindi. Reykjavík 1993, bls. 199-235.
Stefán Gunnar Sveinsson. „Hver stjórnaði morðinu á Júlíusi Sesari? Hver drap hann?“ Vísindavefurinn, 18. janúar 2006, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5572.
Stefán Gunnar Sveinsson. (2006, 18. janúar). Hver stjórnaði morðinu á Júlíusi Sesari? Hver drap hann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5572
Stefán Gunnar Sveinsson. „Hver stjórnaði morðinu á Júlíusi Sesari? Hver drap hann?“ Vísindavefurinn. 18. jan. 2006. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5572>.