Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Marcus Porcius Cato, sem kallaður er Kató gamli, var rómverskur stjórnmálamaður og ræðumaður, uppi milli 234 og 149 fyrir Krist.
Sem ungur maður barðist hann í öðru af þremur svokölluðum púnverskum stríðum sem Rómverjar háðu við Púnverja, íbúa borgarinnar Karþagó sem stóð í Norður-Afríku, ekki langt frá þeim stað þar sem borgin Túnis er nú. Nokkru eftir þetta, árið 204, hófst svo stjórnmálaferill hans, þegar hann varð fjárgæslumaður (quaestor) hjá rómverska ríkinu. Hann gegndi mörgum öðrum ábyrgðarstöðum, var meðal annars dómstjóri (praetor) á Sardiníu og árið 195 fyrir Krist var hann ásamt Luciusi Valeriusi Flaccusi annar af tveimur ræðismönnum (consules), æðstu embættismönnum ríkisins. Hann var um tíma landstjóri á Spáni og sat í öldungaráðinu til dauðadags eins og aðrir ráðsmenn. Árið 184 varð hann annar tveggja eftirlitsmanna (censores) sem störfuðu í fimm ár og höfðu eftirlit með manntölum og einnig embættisvörslu og siðgæði opinberra starfsmanna. Hann dó 85 ára að aldri árið 149 og lét eftir sig tvo syni.
Kató var þekktur fyrir íhaldssemi og strangar siðferðisskoðanir. Hann vildi halda í fornar rómverskar dygðir, lagðist gegn munaði og óhófi og kaus fábrotna, gróna siði fram yfir fágunina sem yfirstéttin vildi temja sér. Sérstaklega var honum í nöp við áhrif Grikkja á menningu þjóðar sinnar. Af þessu mótaðist stjórnmálastarf hans, hann lagði áherslu á opinbera uppbyggingu og baráttu gegn spillingu. Til að mynda var það undir hans forystu sem ræsi borgarinnar voru fullgerð og hann reif leiðslur þeirra sem tóku án heimildar vatn úr vatnsveitu almennings.
Fyrir þessa stefnu var hann vinsæll meðal ýmissa þjóðfélagshópa, til dæmis bænda, en öðrum þótti siðavendnin ganga út í öfgar. Það var kannski ekki að ástæðulausu: Sem eftirlitsmaður rak hann til dæmis mann að nafni Manilius í útlegð. Sök hans var sú að hafa kysst konuna sína á almannafæri!
Kató var prýðilega ritfær og brautryðjandi í ritun óbundins latnesks máls. Eftir hann lágu margvíslegar bækur sem báru hagsýni hans og siðastrangleik glöggt vitni. Hann gaf út stjórnmálaræður sínar, handbók um mælskulist, kvæði um rétta siði (Carmen De Moribus), bók um landbúnað (De Agri Cultura) og Rómarsögu í sjö bókum (Origines). Af þessu hefur nánast ekkert varðveist nema landbúnaðarritið.
Rústir borgarinnar Karþagó í Túnis.
Flestar þessara bóka munu vera skrifaðar handa syni Katós. Sá hefur þá ekki þurft að lesa grískar kennslubækur og það hefur líklega verið tilgangurinn. Kató taldi að grískar bókmenntir og heimspeki væru óholl fyrir trú og siðferði rómverskra unglinga. Áhersla Katós á einfaldleika mun hafa birst í ritstíl hans. Eftir honum er haft heilræði um það hvernig skrifa skuli góðan stíl: Rem tene, verba sequentur, það er: "Haltu þig við efnið, orðin fylgja á eftir." Samt er ekki laust við að hann beiti stílbrögðum að hætti grískra mælskufræðinga - en það er allt í miklu hófi.
Nú orðið er Kató sennilega frægastur fyrir einlæga andúð sína á hinum sigruðu Púnverjum. Eftir að stríðinu lauk reis samfélag þeirra upp og blómstraði innan þess þrönga ramma sem sigurvegararnir höfðu sett því. Þetta gramdist Kató, hvort sem það var af því að hann óttaðist um stórveldishagsmuni Rómverja eða af siðferðilegri vandlætingu á háttum Karþagóbúa. Sagt er að á þessum tíma hafi hann endað allar ræður sínar í öldungaráðinu á setningu sem oft er vitnað til síðan: Praeterea censeo Carthaginem esse delendam, það er: "Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði!"
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Ásgeir Hjartarson. Mannkynssaga, annað bindi, Mál og menning, Reykjavík 1948. bls. 169-172
Cary, M.; A.D. Nock; J.D. Denniston o.fl. The Oxford Classical Dictionary, Oxford University Press, Oxford 1957, undir greinunum Charthage, Punic Wars og Cato