Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar talað er um fall Rómaveldis er oftast miðað við árið 476 e.Kr. þegar síðasta vestrómverska keisaranum, Rómulusi Ágústusi, var steypt af stóli (sjá mynd til vinstri). Austrómverska keisaradæmið eða Býsans lifði öllu lengur, eða fram til ársins 1453.
Undanfari falls vestrómverska ríkisins var ekki glæsilegur. Þjóðflutningarnir miklu sem hófust um 300 f.Kr. leiddu til tíðra innrása germanskra þjóða. Áhrif innrásanna voru mikil, og má nefna að einn þjóðflokkurinn, Vandalar, þótti sýna svo mikla skemmdarfýsn að nafn hans varð að alþjóðlegu orði yfir skemmdarvarga. Rómverjar sem áður fyrr höfðu myndað eitt mesta herveldi jarðar gátu sér litla björg veitt gegn holskeflu þessara þjóðflokka. Að lokum varð Rómaveldi fátt annað en nafnið eitt, og því fólst í raun ekki mikil breyting í því að velta Rómúlusi Ágústusi úr sessi.
Ástæðan fyrir falli Rómaveldis er ein af stóru spurningunum sem sagnfræðingar hafa velt fyrir sér, og það hefur svo sannarlega ekki verið fátt um svör. Í bók sinni Der Fall Roms: Die Auflösung des römischen Reiches im Urteil der Nachwelt tók þýski sagnfræðingurinn Alexander Demandt saman 210 kenningar sem sagnfræðingar og aðrir hafa sett fram í gegnum aldirnar. Kenningarnar eru misgáfulegar og sumar æði skrautlegar; kommúnisma jafnt sem kapítalisma hefur verið kennt um, og einnig kvenfrelsisbaráttu og samkynhneigð! Þá hafa líka verið nefnd atriði eins og blýeitrun, hlutfallsleg aukning aldraðra í samfélaginu og jafnvel mataræði Rómverja. Það er þó erfitt að gefa eina einfalda skýringu á jafnviðamiklum atburði og falli Rómaveldis og því þarf líklega ekki að gefa mörgum af þessum 210 kenningum mikinn gaum.
Hugmyndir eru um að innrásir ýmissa þjóðflokka hafi verið upphafið að falli Rómaveldis. Menn eru þó alls ekki sammála um orsakirnar fyrir hnignun þessa mikla heimsveldis.
Þekktasti fræðimaðurinn sem fjallað hefur um fall Rómaveldis er eflaust 18. aldar sagnfræðingurinn Edward Gibbon (1737-1794; sjá mynd fyrir neðan til hægri), einn af frumkvöðlum nútímasagnfræði. Á árunum 1776-1788 gaf Gibbon út bókina History of the Decline and Fall of the Roman Empire í þremur bindum. Þar er rakin saga Rómaveldis frá dauða keisarans Markúsar Árelíusar árið 180 e.Kr. og allt til falls austrómverska keisaradæmisins. Bók Gibbons þykir enn prýðilega læsileg.
Kenning Gibbons er í stuttu máli sú að Rómverjar hafi glatað borgaralegu siðferði sínu; þeir hafi orðið of latir og feitir til að verja ríki sitt falli. Því til stuðnings bendir Gibbon á að varnir ríkisins voru í síauknum mæli faldar erlendum málaliðum og að þetta hafi skapað þeim greiða leið til að taka yfir veldið. Þá kenndi Gibbon kristnitöku Rómverja um, meðal annars vegna þess að trúin á betri heim að loknu þessu jarðlífi ylli því að Rómverjar misstu löngunina til að viðhalda veldi sínu.
Túlkun Gibbons á falli Rómaveldis er þó langt í frá sú eina. Hagfræðingurinn Ludwig Von Mises (1881-1973) gerði því skóna að efnahagur Rómverja hafi verið reistur á sandi og sumir af síðustu keisurunum hafi komið á óðaverðbólgu með hroðalegri hagstjórn sinni. Þá hefur verið talað um vítahring þar sem stöðugar innrásir barbara minnkuðu skatttekjur Rómverja, og þannig gert þeim sífellt erfiðara fyrir að greiða hermönnum sínum laun.
Nokkrir sagnfræðingar halda því fram að Rómaveldi hafi verið rotið inn að beini og því dæmt til að líða undir lok fyrr eða síðar. Að baki þessari túlkun er sú skoðun að rómverska hagkerfið byggðist á stöðugri útþenslu ríkisins. Þegar þeirri útþenslu lauk var lítil leið til að halda ríkinu við, þar sem útgjöld fóru sífellt hækkandi, ekki síst vegna stóðlífis keisaranna, en lítill peningur var til þess að greiða fyrir herlegheitin.
Þá eru sumir sem telja að rangt sé að nota orðin 'fall' og 'hnignun' og sömuleiðis að ekki eigi að miða upphaf miðalda við árið 476. Rómaveldi og rómversk menning hafi lifað áfram í ýmsum myndum þótt enginn væri keisarinn yfir vestrómverska ríkinu. Upphaf miðalda ætti frekar að miða við landvinninga Múhameðstrúarmanna á 8. öld e.Kr., en þá glataði evrópsk-rómversk menning ýmsum auðlindum, svo sem papýrusi og gullmynt, Belginn Henri Pirenne (1862-1935) var upphafsmaður þessarar kenningar.
Þegar allt kemur til alls þá er líklega engin ein skýring nógu góð til að útskýra að fullu fall Rómaveldis. Blanda af ytri þrýstingi germanskra þjóðflokka og innri hnignun er ef til vill sennilegasta orsökin, en þá þarf að hafa í huga að hvaða leyti þessir þættir tengdust hvor öðrum og hvor hafði meiri áhrif. Eitt er víst: Sagnfræðingar munu lengi enn velta þessum málum fyrir sér og setja fram fleiri kenningar en þær 210 sem áður var vikið að.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Aðrir spyrjendur eru: Hlöðver Ingi Gunnarsson, Einar S. Einarsson, Sveinn Ragnarsson, f. 1991, Hilmar Sigurjónsson, f. 1988 og Rúnar Friðriksson, f. 1991.
Stefán Gunnar Sveinsson. „Hvað getiði sagt mér um fall Rómaveldis?“ Vísindavefurinn, 19. júlí 2006, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6071.
Stefán Gunnar Sveinsson. (2006, 19. júlí). Hvað getiði sagt mér um fall Rómaveldis? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6071
Stefán Gunnar Sveinsson. „Hvað getiði sagt mér um fall Rómaveldis?“ Vísindavefurinn. 19. júl. 2006. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6071>.