Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getið þið sagt mér frá grískum harmleikjum og harmleikjaskáldunum?

Geir Þ. Þórarinsson

Öll varðveitt forngrísk leikrit eru frá Aþenu og nágrenni borgarinnar á Attíkuskaganum. Til voru þrjár gerðir leikrita: harmleikir, bukkaleikir eða satýrleikir, og skopleikir eða gamanleikir. Uppruni grískar leiklistar er ekki þekktur. Ef til vill varð leiklistin til um miðja 6. öld f.Kr. Heimspekingurinn Aristóteles taldi að uppruna harmleikja væri að finna í söng forsöngvara í blótsöngvum (diþyrambos), sem voru kórsöngvar sungnir til heiðurs Díonýsosi. Allt frá 4. áratug 6. aldar f.Kr. var keppt í leikritun í Aþenu á Díonýsosarhátíðinni í mars og síðar á Lenajuhátíðinni í janúar.

Pratínas frá Flíos á að hafa gert bukkaleikinn að sjálfstæðu bókmenntaformi snemma á 5. öld f.Kr. og er talinn hafa samið 37 bukkaleiki sjálfur. Bukkaleikir voru ærslafull leikrit sem áttu að hressa áhorfandann að harmleikjunum loknum. Í þeim var kórinn í líki satýra eða geitmenna og þaðan er nafnið komið. Á hinn bóginn eru engar haldbærar skýringar á nafni harmleikjanna (tragoídía frá tragos, geithafur).


Uppfærsla á Ödípúsi konungi frá árinu 1955. © Peter Smith.

Í leikritakeppnum lögðu skáldin fram verk sín en verk þriggja skálda voru valin úr til sýningar. Harmleikir voru settir á svið í þrennum (trilogíum) ásamt einum bukkaleik. Æðsti embættismaður borgarinnar, arkoninn, fékk hverju skáldi kór sem var kostaður af einhverjum auðmanni en borgin greiddi laun aðalleikarans sem var úthlutaður hverju skáldi með hlutkesti. Leikarar voru allir karlmenn og aþenskir borgarar. Í upphafi léku skáldin sjálf í leikritum sínum en síðar var þeirri venju hætt. Leikarar báru allir grímur. Fimm manna dómnefnd, sem valin var með hlutkesti, dæmdi keppnina. Sigurvegarinn fékk bergfléttusveig að launum og frá miðri 5. öld f.Kr. fékk besti leikarinn í aðalhlutverki einnig verðlaun.

Elsta varðveitta harmleikjaskáldið er Æskýlos (525 – 456 f.Kr.). Helstu skáldin á undan Æskýlosi voru Þespis, Frynikkos og Koírílos en engin verka þeirra eru varðveitt. Aristóteles segir að Þespis hafi fyrstur fundið upp á því að láta einn leikara svara kórnum en Æskýlos fjölgaði leikurunum í tvo. Elsti varðveitti harmleikurinn er Persarnir sem var settur á svið árið 472 f.Kr. Þá var harmleikurinn þegar mótað bókmenntaform. Æskýlos samdi á milli 80 og 90 leikrit en flest eru glötuð. Auk Persanna eru sex leikrit varðveitt en það eru:
  • Sjö gegn Þebu (467 f.Kr.)
  • Meyjar í nauðum (463 f.Kr.)
  • þríleikurinn Óresteia (458 f.Kr.) en í honum eru leikritin
    • Agamemnon
    • Dreypifórnfærendur eða Sáttarfórn
    • Refsinornir eða Hollvættir

  • Prómeþeifur bundinn

Margir fræðimenn telja nú um mundir að Prómeþeifur bundinn sé ranglega eignaður Æskýlosi og hafi verið saminn á síðari hluta 5. aldar f.Kr. Æskýlos bar sigur úr býtum í leikritakeppnum að minnsta kosti þrettán sinnum um ævina, fyrst árið 484 f.Kr.

Sófókles (496 – 405 f.Kr.) mun fyrstur hafa fjölgað leikurunum í þrjá. Um leið minnkaði hlutverk kórsins eilítið eins og það hafði áður gert er leikurum var fjölgað í tvo. Hann á að hafa samið 123 leikrit en einungis sjö eru varðveitt. Það eru:
  • Antígóna (442-441 f.Kr.)
  • Ajax
  • Trakynjur
  • Ödípús konungur (429-425 f.Kr.)
  • Elektra (420-410 f.Kr.)
  • Fíloktetes (409 f.Kr.)
  • Ödípús í Kólonos (406 f.Kr. en fyrst sett á svið 401 f.Kr.)

Sófókles sigraði alls 24 leikritakeppnir, þá fyrstu árið 468 f.Kr., og lenti aldrei neðar en í öðru sæti.

Evripídes (485 – 406 f.Kr.) er þriðja varðveitta harmleikjaskáldið. Lítið er vitað um ævi hans en hann mun hafa þekkt til heimspekinganna Anaxagórasar, Prótagórasar og Sókratesar. Evripídes tók fyrst þátt í leikritakeppni árið 455 f.Kr. Hann sigraði í fyrsta sinn árið 428 f.Kr. og einungis þrisvar að auki. Hann mun hafa samið 92 leikrit en einungis 19 þeirra eru varðveitt og titlar um 60 leikrita til viðbótar. Leikritin sem eru varðveitt eru:
  • Alkestis (438 f.Kr.)
  • Medea (431 f.Kr.)
  • Börn Heraklesar (um 430 f.Kr.)
  • Hippolýtos (428 f.Kr.)
  • Andromakka (um 426 f.Kr.)
  • Hekúba (um 424 f.Kr.)
  • Meyjar í nauðum (um 422 f.Kr.)
  • Elektra (um 417 f.Kr.)
  • Herakles (um 417 f.Kr.)
  • Trójudætur (415 f.Kr.)
  • Ifigeneia í Táris (um 414 f.Kr.)
  • Helena (412 f.Kr.)
  • Jötunninn (?412 f.Kr.)
  • Fönikíu-meyjar (412-408 f.Kr.)
  • Íon (um 410 f.Kr.)
  • Orestes (408 f.Kr.)
  • Ifigeneia í Ális (405 f.Kr.)
  • Bakkynjur (405 f.Kr.)
  • Resos (seinni hluta 5. aldar f.Kr.)

Þess má þó geta að Resos kann að vera ranglega eignað Evrípídesi. Einnig hafa á 20. öld fundist papýrusbrot, sæmilega stór sem slík, af nokkrum öðrum leikritum. Þau eru: Telefos, Krítverjar, Kresfontes, Erekþeifur, Fæþon, Alexander, Ödípús, Hypsipyle og Arkelás. Tíu þessara leikrita (Alkestis, Medea, Hippolýtos, Andromakka, Hekúba, Trójudætur, Fönikíumeyjar, Orestes, Bakkynjur, Resos) var að finna í úrvali úr verkum Evripídesar sem var tekið saman um árið 200 en handrit með safninu eru varðveitt frá 10. öld. Einnig var til heildarútgáfa af verkum Evripídesar þar sem verkin voru í stafrófsröð en brot er varðveitt úr þeirri útgáfu, nánar tiltekið E-K, í tveimur mjög skyldum handritum frá 14. öld. Kýklópurinn er eini bukkaleikurinn sem er varðveittur í heilu lagi.

Í leikritum Evripídesar fór hlutverk kórsins enn minnkandi og tengdist hann æ minna efni leikritsins, málfar bar keim af mælskulistinni og hlutverk persóna úr jaðarhópum samfélagsins jukust, til dæmis kvenna og þræla. Aristóteles sagði að Sófókles lýsti fólki eins og það ætti að vera en Evripídes eins og það væri í raun.

Einungis brot eru varðveitt úr verkum annarra höfunda en auk þeirra sem nefndir hafa verið má geta Íons frá Kíos og Krítíasar.

Svör um tengt efni á Vísindavefnum:

Frekari fróðleikur:
  • Aristóteles, Um skáldskaparlistina 2. útg. Kristján Árnason (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1997).
  • Aristotle, Poetics. Richard Janko (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1987).
  • Kitto, H.D.F., Greek Tragedy (London: Routledge, 1961).

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

30.11.2007

Spyrjandi

Guðrún Helga

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Getið þið sagt mér frá grískum harmleikjum og harmleikjaskáldunum?“ Vísindavefurinn, 30. nóvember 2007, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6936.

Geir Þ. Þórarinsson. (2007, 30. nóvember). Getið þið sagt mér frá grískum harmleikjum og harmleikjaskáldunum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6936

Geir Þ. Þórarinsson. „Getið þið sagt mér frá grískum harmleikjum og harmleikjaskáldunum?“ Vísindavefurinn. 30. nóv. 2007. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6936>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér frá grískum harmleikjum og harmleikjaskáldunum?
Öll varðveitt forngrísk leikrit eru frá Aþenu og nágrenni borgarinnar á Attíkuskaganum. Til voru þrjár gerðir leikrita: harmleikir, bukkaleikir eða satýrleikir, og skopleikir eða gamanleikir. Uppruni grískar leiklistar er ekki þekktur. Ef til vill varð leiklistin til um miðja 6. öld f.Kr. Heimspekingurinn Aristóteles taldi að uppruna harmleikja væri að finna í söng forsöngvara í blótsöngvum (diþyrambos), sem voru kórsöngvar sungnir til heiðurs Díonýsosi. Allt frá 4. áratug 6. aldar f.Kr. var keppt í leikritun í Aþenu á Díonýsosarhátíðinni í mars og síðar á Lenajuhátíðinni í janúar.

Pratínas frá Flíos á að hafa gert bukkaleikinn að sjálfstæðu bókmenntaformi snemma á 5. öld f.Kr. og er talinn hafa samið 37 bukkaleiki sjálfur. Bukkaleikir voru ærslafull leikrit sem áttu að hressa áhorfandann að harmleikjunum loknum. Í þeim var kórinn í líki satýra eða geitmenna og þaðan er nafnið komið. Á hinn bóginn eru engar haldbærar skýringar á nafni harmleikjanna (tragoídía frá tragos, geithafur).


Uppfærsla á Ödípúsi konungi frá árinu 1955. © Peter Smith.

Í leikritakeppnum lögðu skáldin fram verk sín en verk þriggja skálda voru valin úr til sýningar. Harmleikir voru settir á svið í þrennum (trilogíum) ásamt einum bukkaleik. Æðsti embættismaður borgarinnar, arkoninn, fékk hverju skáldi kór sem var kostaður af einhverjum auðmanni en borgin greiddi laun aðalleikarans sem var úthlutaður hverju skáldi með hlutkesti. Leikarar voru allir karlmenn og aþenskir borgarar. Í upphafi léku skáldin sjálf í leikritum sínum en síðar var þeirri venju hætt. Leikarar báru allir grímur. Fimm manna dómnefnd, sem valin var með hlutkesti, dæmdi keppnina. Sigurvegarinn fékk bergfléttusveig að launum og frá miðri 5. öld f.Kr. fékk besti leikarinn í aðalhlutverki einnig verðlaun.

Elsta varðveitta harmleikjaskáldið er Æskýlos (525 – 456 f.Kr.). Helstu skáldin á undan Æskýlosi voru Þespis, Frynikkos og Koírílos en engin verka þeirra eru varðveitt. Aristóteles segir að Þespis hafi fyrstur fundið upp á því að láta einn leikara svara kórnum en Æskýlos fjölgaði leikurunum í tvo. Elsti varðveitti harmleikurinn er Persarnir sem var settur á svið árið 472 f.Kr. Þá var harmleikurinn þegar mótað bókmenntaform. Æskýlos samdi á milli 80 og 90 leikrit en flest eru glötuð. Auk Persanna eru sex leikrit varðveitt en það eru:
  • Sjö gegn Þebu (467 f.Kr.)
  • Meyjar í nauðum (463 f.Kr.)
  • þríleikurinn Óresteia (458 f.Kr.) en í honum eru leikritin
    • Agamemnon
    • Dreypifórnfærendur eða Sáttarfórn
    • Refsinornir eða Hollvættir

  • Prómeþeifur bundinn

Margir fræðimenn telja nú um mundir að Prómeþeifur bundinn sé ranglega eignaður Æskýlosi og hafi verið saminn á síðari hluta 5. aldar f.Kr. Æskýlos bar sigur úr býtum í leikritakeppnum að minnsta kosti þrettán sinnum um ævina, fyrst árið 484 f.Kr.

Sófókles (496 – 405 f.Kr.) mun fyrstur hafa fjölgað leikurunum í þrjá. Um leið minnkaði hlutverk kórsins eilítið eins og það hafði áður gert er leikurum var fjölgað í tvo. Hann á að hafa samið 123 leikrit en einungis sjö eru varðveitt. Það eru:
  • Antígóna (442-441 f.Kr.)
  • Ajax
  • Trakynjur
  • Ödípús konungur (429-425 f.Kr.)
  • Elektra (420-410 f.Kr.)
  • Fíloktetes (409 f.Kr.)
  • Ödípús í Kólonos (406 f.Kr. en fyrst sett á svið 401 f.Kr.)

Sófókles sigraði alls 24 leikritakeppnir, þá fyrstu árið 468 f.Kr., og lenti aldrei neðar en í öðru sæti.

Evripídes (485 – 406 f.Kr.) er þriðja varðveitta harmleikjaskáldið. Lítið er vitað um ævi hans en hann mun hafa þekkt til heimspekinganna Anaxagórasar, Prótagórasar og Sókratesar. Evripídes tók fyrst þátt í leikritakeppni árið 455 f.Kr. Hann sigraði í fyrsta sinn árið 428 f.Kr. og einungis þrisvar að auki. Hann mun hafa samið 92 leikrit en einungis 19 þeirra eru varðveitt og titlar um 60 leikrita til viðbótar. Leikritin sem eru varðveitt eru:
  • Alkestis (438 f.Kr.)
  • Medea (431 f.Kr.)
  • Börn Heraklesar (um 430 f.Kr.)
  • Hippolýtos (428 f.Kr.)
  • Andromakka (um 426 f.Kr.)
  • Hekúba (um 424 f.Kr.)
  • Meyjar í nauðum (um 422 f.Kr.)
  • Elektra (um 417 f.Kr.)
  • Herakles (um 417 f.Kr.)
  • Trójudætur (415 f.Kr.)
  • Ifigeneia í Táris (um 414 f.Kr.)
  • Helena (412 f.Kr.)
  • Jötunninn (?412 f.Kr.)
  • Fönikíu-meyjar (412-408 f.Kr.)
  • Íon (um 410 f.Kr.)
  • Orestes (408 f.Kr.)
  • Ifigeneia í Ális (405 f.Kr.)
  • Bakkynjur (405 f.Kr.)
  • Resos (seinni hluta 5. aldar f.Kr.)

Þess má þó geta að Resos kann að vera ranglega eignað Evrípídesi. Einnig hafa á 20. öld fundist papýrusbrot, sæmilega stór sem slík, af nokkrum öðrum leikritum. Þau eru: Telefos, Krítverjar, Kresfontes, Erekþeifur, Fæþon, Alexander, Ödípús, Hypsipyle og Arkelás. Tíu þessara leikrita (Alkestis, Medea, Hippolýtos, Andromakka, Hekúba, Trójudætur, Fönikíumeyjar, Orestes, Bakkynjur, Resos) var að finna í úrvali úr verkum Evripídesar sem var tekið saman um árið 200 en handrit með safninu eru varðveitt frá 10. öld. Einnig var til heildarútgáfa af verkum Evripídesar þar sem verkin voru í stafrófsröð en brot er varðveitt úr þeirri útgáfu, nánar tiltekið E-K, í tveimur mjög skyldum handritum frá 14. öld. Kýklópurinn er eini bukkaleikurinn sem er varðveittur í heilu lagi.

Í leikritum Evripídesar fór hlutverk kórsins enn minnkandi og tengdist hann æ minna efni leikritsins, málfar bar keim af mælskulistinni og hlutverk persóna úr jaðarhópum samfélagsins jukust, til dæmis kvenna og þræla. Aristóteles sagði að Sófókles lýsti fólki eins og það ætti að vera en Evripídes eins og það væri í raun.

Einungis brot eru varðveitt úr verkum annarra höfunda en auk þeirra sem nefndir hafa verið má geta Íons frá Kíos og Krítíasar.

Svör um tengt efni á Vísindavefnum:

Frekari fróðleikur:
  • Aristóteles, Um skáldskaparlistina 2. útg. Kristján Árnason (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1997).
  • Aristotle, Poetics. Richard Janko (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1987).
  • Kitto, H.D.F., Greek Tragedy (London: Routledge, 1961).

Mynd: