- gamli skopleikurinn (5. öld f.Kr.)
- miðskopleikurinn (400 – 323 f.Kr.)
- nýi skopleikurinn (323-263 f.Kr.)
Í gamla skopleiknum var gert grín að bæði mönnum og málefnum aðallega með útúrsnúningum. Gamli skopleikurinn er oft nefndur aristófanískur skopleikur af því að allir varðveittir skopleikir frá þessu tímabili eru eftir Aristófanes (um 445 – um 385 f.Kr.) að undanskildum brotum úr verkum annarra höfunda. Elsta varðveitta leikritið er Akkarníumenn frá 425 f.Kr. en auk þess eru varðveittir átta aðrir gamlir skopleikir, það er Riddararnir (424 f.Kr.), Skýin (423 f.Kr., 2. útg. varðveitt) Vespurnar (422 f.Kr.), Friður (421 f.Kr.), Fuglarnir (414 f.Kr.), Lýsistrata (411 f.Kr.), Konur á Þesmófóruhátíð (411 f.Kr.) og Froskarnir (405 f.Kr.). Auk þeirra skopleikja Aristófanesar sem nefndir hafa verið eru varðveittir tveir til viðbótar sem teljast til miðskopleiksins en það eru Þingkonurnar (392 f.Kr.) og Auður (382 f.Kr.). Nöfn fimmtíu annarra höfunda eru varðveitt en einungis brot úr verkum þeirra. Á tíma miðgamanleiksins urðu skopleikirnir almennari og misstu að nokkru leyti aþenskt yfirbragð sitt og smám saman hvarf stjórnmálaádeilan sem hafði einkennt gamla skopleikinn að miklu leyti. Í nýja skopleiknum var kórinn ekki eins mikilvægur og í gamla skopleiknum, stjórnmálaádeilur voru afar fátíðar og persónur urðu að ákveðnum staðalmyndum: heimski húsbóndinn, ástfangni unglingurinn, fégráðuga skækjan, uppátækjasami þrællinn, matgráðuga smeðjan og raupgjarni hermaðurinn. Söguflétturnar urðu einnig að verulegu leyti staðlaðar. Menandros (342 – um 292 f.Kr.) er mestur grískra höfunda þessa tímabils. Leikrit hans glötuðust öll á 7. og 8. öld en papýrusbrot hafa fundist á 20. öld og nú er varðveitt eitt leikrit í heilu lagi, Fýlupúkinn, auk brota úr allnokkrum til viðbótar. Að Menandrosi undanskildum var Fílemon (um 361 – um 263 f.Kr.) þekktasti gríski höfundur nýja skopleiksins. Svör um tengt efni á Vísindavefnum:
- Getið þið sagt mér frá grískum harmleikjum og harmleikjaskáldunum?
- Getið þið sagt mér frá uppbyggingu grískra leikhúsa til forna?
- Hvað felst í hugtakinu "kaþarsis" í leiklist?
- Hvar er best að finna heimildir um leiklist Forn-Grikkja?
- Aristóteles, Um skáldskaparlistina 2. útg. Kristján Árnason (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1997).
- Aristotle, Poetics. Richard Janko (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1987).