Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar talað er um Bakkus er átt við áfengi, áfengisdrykkju eða ölvun. Í raun réttri er þetta sérnafn og vísar til grísk-rómversks guðs sem hét Dionysos (DionusoV) á forn-grísku en Bacchus á latínu. Hann var goð jurtagróðurs en einkum og sér í lagi goð vínsins.
Goðsagnir Grikkja herma að Dionysos hafi verið sonur æðsta guðsins, Seifs og Persefone, gyðju undirheimanna. Hera sem var eiginkona (eða öllu heldur eigingyðja) Seifs varð bálreið yfir þessu, sem vonlegt var, og kom því í kring að tröllsleg goð sem nefndust Títanar, og voru einni kynslóð eldri en hún og Seifur, hlutuðu krakkann í sundur og átu hann. Sagan segir að nokkru síðar hafi kynslóðabilið í goðafjölskyldunni leitt af sér miklar fjölskylduerjur (les: grimmdarlegt stríð) og sumir Títana hafi barist gegn Seifi. Af ösku þeirra látinna hafi svo mennirnir sprottið, búnir bæði guðdómsanda Dionysosar og rangsnúnu eðli Títananna.
Aðrar sagnir herma að Seifur hafi átt annan son með þessu nafni, í þetta sinn með Semele, dóttur Kadmosar Þebukonungs. Enn sem fyrr hafi Hera verið ósátt (og skyldi engan undra) og hafi með brögðum valdið því að Seifur birtist Semele án þess að dylja tign sína og mátt. Án mennsks gervis reyndist návist Seifs svo yfirþyrmandi að Semele brann upp til agna. Það stóð tæpt að hægt væri að bjarga ófæddum syni þeirra en það tókst nú samt með guðlegri læknislist: Seifur saumaði son sinn inn í lend sér og geymdi hann þar það sem eftir lifði "meðgöngunnar". Dionysos litli ólst svo upp með satýrnum Sílenosi þangað til hann fór að láta til sín taka sem goð víns og gleðskapar.
Dýrkun Dionysosar var upprunin í Þrakíu og þaðan breiddist hún út um menningarheim fornaldar. Hátíðir til að tigna guðinn kölluðust orgia (orgia) Þær fóru þannig fram að dýrkendur æddu um að næturþeli við háværan hljóðfæraslátt og mikla drykkju, réðust á dýr sem voru helguð goðinu þeirra, rifu þau í sig og drukku blóðið. Með þessum hætti töldu áhangendur guðsins sig komast í yfirnáttúrulegt samband við hann, verða eitt með honum. Það er kannski ekki að undra að merking orðsins skuli síðar hafa breyst í 'svallveisla'. Með tímanum varð dýrkunin þó rólegri og siðsamlegri, sérlega tóku dýrkunarsiðir Aþenubúa á sig fágaðar myndir. Ein af rótum leiklistarinnar er í helgiathöfnum sem þeir héldu guðinum til heiðurs.
Í nútímaíslensku er hið rómverska nafn Dionysosar, Bakkus notað í margvíslegu samhengi, en alltaf til að vísa til drykkjuskapar. Sem dæmi mætti nefna orðalag eins og: að blóta Bakkus 'drekka áfengi' (ótæpilega), Bakkus var með í för (um drykkjuskap á ferðalögum, eða undir stýri) og fleira. Þessi orðasambönd eru ekki föst, og í sjálfu sér er lítill endir á því hvernig hægt er að beita þessu orði um vín og vínneyslu. Stundum eru svona setningar sagðar í heldur neikvæðum tón, líkt og Bakkus sé skrauthvörf fyrir eitthvað slæmt. Menn skyldu þó muna þau spakmæli Sigurðar Baldurssonar að: "Bakkus hefur aldrei gert neinum mein af fyrra bragði!"
Heimildir:
Jón Gíslason. Goðafræði Grikkja og Rómverja, Ísafoldarprentsmiðja hf. Reykjavík, 1944
Stefán Jónsson. „Hvað er átt við þegar talað er um Bakkus, hvaðan kemur þetta orð?“ Vísindavefurinn, 9. júlí 2002, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2577.
Stefán Jónsson. (2002, 9. júlí). Hvað er átt við þegar talað er um Bakkus, hvaðan kemur þetta orð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2577
Stefán Jónsson. „Hvað er átt við þegar talað er um Bakkus, hvaðan kemur þetta orð?“ Vísindavefurinn. 9. júl. 2002. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2577>.