Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nú er spurt um gullöld grískrar heimspeki. Hugtakið ‘blómatími’, eins og ‘gullöld’ og önnur áþekk hugtök, er fyrst og fremst merkimiði sem við höfum búið til og notum til þess að upphefja ákveðið tímabil sem okkur þykir af einhverjum ástæðum mikið til koma. Við köllum eitthvert tímabil í sögu heimspekinnar blómatíma ef við teljum að þá hafi heimspekin verið frjórri, frumlegri og betri en fyrr og síðar. Það sem við köllum blómatíma endurspeglar þess vegna að einhverju leyti viðhorf okkar og gildismat.
Gullöld grískrar heimspeki
Segja má að blómatími grískrar heimspeki hafi hafist á síðari hluta 5. aldar f.Kr., þegar Sókrates tók að stunda heimspeki sína á götum Aþenuborgar. Sókrates fæddist í Aþenu árið 469 f.Kr. Hann stundaði heimspeki sína í samræðum við aðra menn en skildi ekki eftir sig nein rit. Stundum var honum ruglað saman við sófistana eða fræðarana svonefndu en þeir voru nokkurs konar farandkennarar sem höfðu það að atvinnu að kenna hvers kyns fræði, svo sem mælskulist og heimspeki. En Sókrates neitaði því ætíð að hann kenndi, enda þótt ungir menn fylgdu honum svo að segja við hvert fótmál og námu spekina, og hann þáði aldrei borgun frá fylgjendum sínum.
Dauði Sókratesar (1787) eftir Jacques-Louis David.
Merkasti lærisveinn Sókratesar var Platon (427-347 f.Kr.) en Aristóteles (384-322 f.Kr.) var svo aftur merkastur nemenda Platons. Bæði Platon og Aristóteles höfðu gríðarleg áhrif á sögu heimspeki og vísinda sem og vestræna og kristna menningu almennt. Sú saga verður ekki rakin hér en fullyrða má að aðrir eins afreksmenn séu ekki auðfundnir í sögu heimspekinnar og ef til vill má segja að grísk heimspeki hafi náð hápunkti sínum með þeim.
Platon var gífurlega frumlegur hugsuður enda þótt hann sameinaði áhrif frá ýmsum forverum sínum, einkum Herakleitosi, Parmenídesi, pýþagóringum og síðast en ekki síst Sókratesi sem hann gerði ódauðlegan í ritum sínum. Nær öll rit Platons eru samræður þar sem Sókrates er meðal þátttakenda og ósjaldan í aðalhlutverki. Talið er að elstu samræðurnar endurspegli að einhverju leyti þá heimspeki sem Sókrates stundaði og aðferð hans; síðar fari að bera mun meira á eigin kenningum Platons enda þótt Platon hafi lengi lagt allt það helsta í munn Sókratesi. Þó verður að hafa í huga að allar samræðurnar eru tilbúningur Platons, líka þær elstu.
Hluti af málverkinu Aþenuskólinn (1510-11) eftir Rafael sem sýnir Platon vinstra megin og Aristóteles hægra megin.
Aristóteles fæddist í borginni Stagíru en 17 ára gamall fluttist hann til Aþenu og gerðist nemandi Platons við Akademíuna – skólann sem Platon hafði stofnað – og síðar samstarfsmaður hans þar. Hann gerðist seinna einkakennari Alexanders mikla en sneri síðar aftur til Aþenu og stofnaði eigin skóla, Lykeion. Eftir andlát Alexanders mikla taldi Aristóteles að sér væri ekki lengur vært í Aþenu enda höfðu margir verið andsnúnir yfirráðum Alexanders og Aristóteles óttaðist um sig sökum vinskapar síns við hann. Aristóteles yfirgaf þess vegna Aþenu en lést úr veikindum ári seinna, 62 ára að aldri. Lesa má nánar um ævi og störf Aristótelesar í svari Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni Hver var Aristóteles?Hellenísk heimspeki
Eftir andlát Aristótelesar tekur við hellenísk heimspeki, heimspeki helleníska tímans. Helleníski tíminn er sagður hefjast eftir dauða Alexanders mikla árið 323 f.Kr. og vara fram til ársins 27 f.Kr. en segja má að þá hafi keisaratíminn hafist í sögu Rómar. Hellenísk heimspeki var lengi talin annars flokks heimspeki og var ekki lesin jafnákaft og heimspeki Platons og Aristótelesar. Fyrir þremur áratugum síðan hefðu margir sett síðari mörk blómatíma grískrar heimspeki við andlát Aristótelesar. Síðastliðna þrjá áratugi hafa fræðimenn sýnt þessu tímabili í sögu grískrar heimspeki aukinn áhuga og um leið hafa menn öðlast meiri virðingu fyrir hellenískri heimspeki. Því miður eru heimildir okkar um hana mjög brotakenndar og af skornum skammti líkt og heimildir okkar um frumherja grískrar heimspeki. Þó þykir ljóst að hellenísk heimspeki hafi áður verið gróflega vanmetin og nú myndu langflestir fræðimenn telja helleníska heimspeki til blómatíma grískrar heimspeki.
Á hellenískum tíma urðu til nýjar og áhrifamiklar heimspekistefnur. Þeirra frægastar eru stóuspekin, epikúrisminn og efahyggjan. Epikúrismi var heimspeki Epikúrosar (341-270 f.Kr.) og byggði að einhverju leyti á heimspeki Demókrítosar (460-371 f.Kr.). Heimspeki Epikúrosar náði þónokkrum vinsældum bæði í Grikklandi og Róm en rómverska skáldið Lúkretíus (um 95-54 f.Kr.) samdi mikið kvæði á latínu, De rerum natura eða Um eðli hlutanna, þar sem hann setur fram heimspeki Epikúrosar. Aftur á móti var epikúrisminn ekki lengur lifandi heimspeki eftir andlát Epikúrosar sjálfs. Blómaskeið epikúrismans sem frjórrar heimspekistefnu nær því ekki lengur en fram á miðja 3. öld f.Kr. þótt epikúrismi hafi áfram notið töluverðra vinsælda.
Súlnagöngin Stoa Poikile.
Stóuspekin náði mun meiri vinsældum en epikúrisminn og var vinsælasta heimspekistefnan á hellenískum tíma og fram á miðja þriðju öld e.Kr. en þá hafði stóuspekin orðið að nokkurs konar tískutrúarbrögðum meðal rómverskra yfirstétta. Upphafsmaður stóuspekinnar var Zenon frá Kitíon (um 332-265 f.Kr.) en hann kenndi í súlnagöngunum Stoa Poikile í Aþenu og þaðan dregur stefnan nafn sitt. Ólíkt epikúrismanum var stóuspeki lengi frjó heimspeki og tók hún ýmsum breytingum í tímans rás. Ekki verður fjallað nánar um þær hér. Stóuspekin hafði þónokkur áhrif snemma á nýöld og að einhverju leyti á kristni.
Þriðja mikilvægasta stefnan á hellenískum tíma var efahyggjan. Orðið efahyggja er raunar haft um tvær ólíkar en náskyldar stefnur í fornöld, pyrrhonisma annars vegar og svokallaða akademíska heimspeki hins vegar. Um miðja 3. öld f.Kr. varð Arkesilás frá Pítane (um 315-240 f.Kr.) skólastjóri Akademíunnar og breyttust þá áherslur skólans; Akademían varð efahyggjuskóli. Efahyggja akademíumanna virtist fyrst og fremst sækja innblástur sinn til Sókratesar. Sókrates var iðinn við að spyrja menn spjörunum úr og oftar en ekki endaði sá spurningaleikur án nokkurrar niðurstöðu. Þannig enda flestar af elstu samræðum Platons og þannig endar einnig ein glæsilegasta samræðan hans, Þeætetos, sem er þó yngri samræða, en hún fjallar einmitt um það hvað þekking sé. Sókrates er venjulega ekki talinn hafa verið efahyggjumaður en þannig túlkuðu samt akademísku heimspekingarnir hann. Heimildir okkar um akademísku efahyggjuna eru einkum ritið Academica eftir rómverska stjórnmálamanninn og heimspekinginn Marcus Tullius Cicero (106-43 f.Kr., sjá mynd til vinstri).
Þegar akademíska efahyggjan mildaðist á 1. öld f.Kr. leituðu óánægðir efahyggjumenn innblásturs til Pyrrhons (365-275 f.Kr.) sem hafði haldið því fram að ekkert væri hægt að vita. Í stað þess að leita þekkingar ættum við frekar að leitast við að vera skoðanalaus og þannig myndum við öðlast sálarró. Sú efahyggja sem nefnd er pyrrhonismi er óskilgetið afkvæmi heimspeki Pyrrhons (sem var strangt tekið ekki efahyggjumaður) og upprunalegu akademísku efahyggjunnar. Hana er einkum að finna í ritum Sextosar Empeirikosar (uppi á 3. öld) en pyrrhonisminn hafði þónokkur áhrif á endurreisnartímanum, meðal annars á hugsuði eins og Michel de Montaigne (1533-1592).
Síðfornöld
Áður kom fram að langflestir fræðimenn myndu í dag teygja blómatímann að minnsta kosti fram á miðja aðra öld f.Kr. þannig að helstu skólar hellenískrar heimspeki væru með. Aðrir myndu ganga lengra og lengja blómatímann fram í síðfornöld.
Mikilvægasta heimspekistefnan í síðfornöld var hinn svonefndi nýplatonismi. Hugtakið nýplatonismi varð raunar ekki til fyrr en seint á 18. öld og var þá notað til að greina skoðanir platonista í síðfornöld að frá skoðunum Platons sjálfs og nánustu fylgismanna hans. Nýplatonistarnir sjálfir töldu sig einungis vera fylgismenn Platons. Þó urðu mikilvægar breytingar á platonismanum í meðhöndlun þeirra á kenningum Platons.
Nýplatonisminn var hin ríkjandi heimspeki frá miðri 3. öld fram á 6. öld. Upphafsmaður nýplatonismans var Plótínos (205-270, sjá mynd til hægri) en mikilvægustu eftirmenn hans voru Porfyríos (232-309), Jamblikkos frá Kalkis (250-325) og Próklos (412-485). Plótínos sameinar áhrif frá Platoni og (í minna mæli) Aristótelesi. Heimspeki hans hafði gríðarleg áhrif á kirkjufeðurna, á kristna og íslamska heimspeki, á miðaldaheimspeki og á heimspeki endurreisnartímans.
Sumir fræðimenn myndu skilgreina blómatímann þannig að nýplatonisminn kæmist þar fyrir en sennilega eru þeir þó fleiri sem myndu draga mörkin um miðja aðra öld f.Kr.
Lesendum er að lokum bent á að kynna sér svör höfundar við spurningunum Hvenær varð grísk heimspeki til? og Hver er saga grískrar heimspeki?, en í hinu síðarnefnda er meðal annars að finna ítarlegan lista yfir frekara áhugavert lesefni um gríska heimspeki.
Myndir
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvenær var blómatími grískrar heimspeki og hvenær lauk honum?“ Vísindavefurinn, 18. ágúst 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5205.
Geir Þ. Þórarinsson. (2005, 18. ágúst). Hvenær var blómatími grískrar heimspeki og hvenær lauk honum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5205
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvenær var blómatími grískrar heimspeki og hvenær lauk honum?“ Vísindavefurinn. 18. ágú. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5205>.