Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Yfirborð jarðar er í stöðugri mótun og óvíða eru þau ferli hraðari en hér á landi. Við mótun landsins takast á innræn öfl og útræn: eldgos bæta jarðmyndunum ofan á þær sem fyrir voru, en roföflin rjúfa yfirborðið og bera jarðefnin til sjávar, auk þess sem brimaldan mótar ströndina án afláts. Hvorum vegnar betur á hverjum tíma, hinum innrænu eða útrænu öflum, fer eftir loftslagi, og hér á landi eru það jöklar ísaldar sem áhrifamestir hafa verið við mótun þess Íslands sem við þekkjum. Enda má skipta jarðsögu Íslands í þrjú mislöng skeið, ísöldina og skeiðin fyrir og eftir ísöld.
1. mynd. Blágrýtismyndunin einkennist af reglulegum berglagasyrpum – hraunum sem breiðst hafa yfir víðáttumikið, jafnlent svæði. Horft til NA yfir Breiðdalsvík.
Elsta berg á Íslandi er um 16 milljón ára, og þar til ísöld hófst fyrir tæpum 3 milljónum ára má segja að uppbyggingaröflin hafi verið ráðandi. Víðáttumikil blágrýtishraun dreifðust frá gossprungum rekbeltanna yfir fremur flatt og hallalítið land sem litið hefur út líkt og risavaxinn skjöldur, hæstur um miðbik landsins. Upp úr hraunsléttunni hafa gnæft eldkeilur hugsanlega jökulkrýndar líkt og Snæfellsjökull og Öræfajökull þegar að ísöld leið. Frá þessu elsta skeiði er blágrýtismyndunin á Austfjörðum (1. mynd) og á norðvestanverðu landinu, frá Akrafjalli norður og austur að Bárðardal. Milli hraunlaga blágrýtismyndunarinnar eru millilög úr seti og gosösku, samanpressaður og bakaður gróður og jarðvegur þess tíma.
Í ljós hefur komið að milli aðlægra hraunlaga er iðulega 6.000 til 10.000 ára aldursbil –– nánast jafnlangur tími og liðinn er frá lokum síðasta kuldaskeiðs. Þessi mikli aldursmunur milli hraunlaga skýrist af því að einungis mjög stór hraun, sem runnu langt út úr gosbeltunum, koma fram á yfirborði, en minni hraun sem ekki náðu út úr gosbeltunum, grófust undir yngri myndunum. Sums staðar í þessum millilögum finnast steingervingar sem gefa til kynna að fyrir 10 milljón árum hafi loftslag hér verið líkast því sem nú er í SA-hluta Bandaríkjanna – myndarlegir laufskógar sem gætu hafa vaxið hátt upp í hlíðar. Fyrir ísöld hefur vafalaust verið hér fjölbreytt spendýrafána, enda lá landbrú um Ísland milli Ameríku og Evrópu í milljónir ára eftir að Norður-Atlantshaf tók að opnast. Þegar Ísland varð eyja, ef til vill fyrir um 40 milljónum ára, héldu dýrin áfram að lifa hér góðu lífi þar til ísöld gekk í garð. Eitt bein úr hjartardýri hefur fundist milli fornra blágrýtislaga.
Þótt reglulegar og oft tilbreytingarlausar hraunasyrpur og jurtasteingervingar blágrýtismyndunarinnar segi skýra sögu um landslag og loftslag fyrir ísöld, er sjón sögu ríkari. Þess vegna fylgir hér mynd frá eynni Kaujai í Hawaii-eyjaklasanum sem hlaðin er upp úr basalthraunum (2. mynd). Þarna voru aldrei jöklar og hin útrænu öfl hafa jafnan verið vindur og vatn sem með öldugangi og úrkomu skópu sandfjörur, sjávarhamra og V-laga árfarvegi.
2. mynd. Eyjan Kauai er fjórða stærsta eyja Hawaii. Þar hafa vatn og vindur verið ríkjandi þættir í mótun landslagsins.
Þegar síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10.000 árum var landslag á Íslandi allt annað og stórskornara en fyrir ísöld, því þá var hvorki djúpum, jökulsorfnum dölum né móbergsfjöllum og –hryggjum til að dreifa. En þeir stórskornu drættir áttu sér lengri rætur en það 100.000 ára kuldaskeið sem síðast gekk yfir, tíu sinnum lengra en hlýskeiðið næst á undan (og eftir?). Því nú er vitað, byggt á Mílankóvits-sveiflunni og staðfest með borkjörnum úr jökulbreiðu Suðurskautslandsins, að sennilega alla ísöldina, 2,58 milljónir ára (hin alþjóðlega viðurkennda tala), hafa skipst á stutt hlýskeið og 10 sinnum lengri kuldaskeið — hver sveifla um 100.000 ár. Þannig juku jöklar hvers kuldaskeiðs við verk fyrri kuldaskeiða við að slípa klappir, grafa út dali og aka grjóti og mylsnu út í hafsauga. Jafnframt hélt hafaldan uppi án afláts „sínu heimsins langa stríði“ við að grafa undan standbjörgum við strendur blágrýtismyndunarinnar.
Myndir:
Sigurður Steinþórsson. „Hvernig var landslag á Íslandi fyrir ísöld?“ Vísindavefurinn, 6. janúar 2023, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=83430.
Sigurður Steinþórsson. (2023, 6. janúar). Hvernig var landslag á Íslandi fyrir ísöld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=83430
Sigurður Steinþórsson. „Hvernig var landslag á Íslandi fyrir ísöld?“ Vísindavefurinn. 6. jan. 2023. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=83430>.