Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fyrstu niðurstöður rannsókna á beinaleifunum úr Burstarfelli í Vopnafirði birtust í stuttri grein í Náttúrufræðingnum árið 1990, 59. árg., bls.189-195. Þar var því haldið fram að um væri að ræða bein úr einhverju hjartardýri eða dýri af hjartarætt, Cervidae.
Stærsta beinið er að því er virðist hluti úr hægra herðablaði, scapula, en næststærsta beinið er með smáhluta af liðkúlu og líklega úr útlimagrind. Þrjú minni bein sem fundust eru svo illa farin að ekki er mögulegt að greina þau.
Því miður hefur frekari leit að beinum í Burstarfelli ekki borið árangur. Steingervingafræðingarnir Ella Hoch í Kaupmannahöfn og Leonard Ginsburg í París eru sammála um að beinaleifarnar séu úr einhverju litlu og ungu hjartardýri. En frekari greiningar meðal annars með efnafræðilegum aðferðum, til dæmis með DNA-greiningu, hafa ekki enn borið árangur. Mögulegt er að greining eftir beinagerð, það er munstri opa og beinbjálka í beinunum, geti leitt til frekari ákvörðunar, ef til vill til ættkvíslar og jafnvel tegundar. Þetta er hins vegar mikil nákvæmnisvinna, ekki síst þar sem um er að ræða bein úr ungu dýri.
Frakkinn Leonard Ginsburg hefur lengi unnið að gerð greiningarlykils, sem byggir á beinamunstri allra núlifandi og útdauðra hjartardýra, og vonandi tekst einhvern tíma að ljúka því verki. Þá verður ef til vill unnt að greina betur hjartardýrið sem fannst í Burstarfelli.
Hvort sem okkur tekst að greina beinaleifarnar enn frekar eða ekki, þá eru þær vitnisburður um að landspendýr lifðu hér á landi fyrir 3-3,5 milljón árum, í lok tertíertímabils áður en ísöld gekk í garð. Þau hafa að öllum líkindum verið afkomendur spendýra, sem urðu innlyksa á landinu þegar það varð eyja einhvern tíma um miðbik tertíertímans.
Mynd af hjartardýrinu virginíuhirti, Odocoileus virginianus, e. whitetail, whitetailed deer: Wendy Webster og Terry Webster, Online Animal Catalog
Leifur A. Símonarson. „Hvað kom út úr rannsóknum á steingervingum sem fundust í Burstarfellsfjalli í Vopnafirði og voru taldir vera af hjartardýri?“ Vísindavefurinn, 9. nóvember 2001, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1943.
Leifur A. Símonarson. (2001, 9. nóvember). Hvað kom út úr rannsóknum á steingervingum sem fundust í Burstarfellsfjalli í Vopnafirði og voru taldir vera af hjartardýri? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1943
Leifur A. Símonarson. „Hvað kom út úr rannsóknum á steingervingum sem fundust í Burstarfellsfjalli í Vopnafirði og voru taldir vera af hjartardýri?“ Vísindavefurinn. 9. nóv. 2001. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1943>.