Þegar lífverur deyja taka eyðingaröflin við. Lífrænir vefir rotna en skeljar og bein leysast upp. Yfirleitt þarf mjög sérstakar aðstæður, tilviljunum háðar, til að steingervingar myndist og geymist. Sögu lífsins á jörðinni, eins og hún er skráð í steingervingum, má líkja við 600 blaðsíðna bók, þar sem hver blaðsíða innihélt milljón ára sögu, en bókin er orðin svo eydd af tímans tönn að einungis eru eftir fáeinar blaðsíður og á hverri þeirra einn eða fáeinir bókstafir eða í mesta lagi setningabrot. Steingervingar myndast helst í vatni þar sem lífveran grefst snarlega undir seti. Síðan er algengast að steinefni úr grunnvatninu komi í stað hins lífræna vefjar, eða fylli upp í holrúm ef lífveran var rotnuð, samanber skelina frá Tjörnesi. Í surtarbrandi — steingerðum viði — kemur kísill (kalsedón) stundum í stað mjúka vefjarins en frumuveggirnir eru kol (grafít) þannig að viðarbyggingin heldur sér.
Laufblöðin á Brjánslæk hafa borist út í tjörn og grafist í fíngerðu seti – þar er ekkert eftir nema grafít-afsteypur. Slíkar afsteypur af fornum fiskum og öðrum dýrum má sjá á söfnum erlendis, þar sem jafnvel frumubyggingin hefur haldið sér þótt ekkert sé eftir af lífverunni nema formið. Algengustu steinefni steingervinga eru kalk (CaCO3) og kísill (SiO2). Ennþá sérstæðari og óalgengari eru smádýr í rafi (forn trjákvoða) eða tjöru — dýrin festust og lokuðust inni í mjúkri trjákvoðu eða tjöru sem síðan harðnaði. Loks má nefna frosna mammúta í freðmýrum Síberíu: dýrin drukknuðu í dýjum fyrir 10.000 árum og geymdust þannig frosin – svo vel að á heimsþingi jarðfræðinga í Leningrad árið 1943 var mammútakjöt á borðum! Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað kom út úr rannsóknum á steingervingum sem fundust í Burstarfellsfjalli í Vopnafirði og voru taldir vera af hjartardýri?
- Finnast steingerðir ammonítar hér við land?
- Blaðfar og kalkfyllt skel: Þorleifur Einarsson: Myndun og mótun lands — Jarðfræði. Mál og menning, Reykjavík. 1991.
- Myndun steingervinga - teikning: David Webster 2002: Understanding Geology. Oliver & Boyd. Sótt á vefinn: Jarðfræðiglósur GK 18. 6. 2009.