Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Millilögin í tertíera jarðlagastaflanum eru jarðvegur sem myndast hafði á mislöngum tíma áður en næsta hraunlag rann yfir hann. Lögin eru af ýmsu tagi, rautt eða gult „laterít“ (myndað við efnaveðrun), surtarbrandur, leir, og gjóska (gosaska).
Fyrir um 3 milljónum ára, þegar ísöld gekk í garð, breyttist ásýnd bergsins og millilögin einkennast af jökulbergi og árframburði.
Jarðvegur er blanda af lífrænu efni (rotnandi jurtaleifum) og steinefni, sem hér á landi er gosaska og áfok. Hver þykkt hans og samsetning var þegar hann grófst undir heitu hrauni fer eftir ýmsu, einkum tímalengd myndunar og loftslagi.
Kortlagning hefur sýnt að millilögin hafa að meðaltali tekið 10.000 ár að myndast (um 100 hraun á milljón árum í hverju sniði), en það jafngildir tímanum frá því jökla ísaldar leysti. Sum þessara millilaga geyma því jarðsögu jafnlanga nútíma (hólósen) – og önnur ýmist lengri sögu eða skemmri.
Rauð millilög má meðal annars sjá við Hengifoss í Fljótsdal.
Tertíeri hraunastaflinn á Íslandi spannar tímann frá 16 til 3ja milljóna ára og á þeim tíma breyttist loftslag umtalsvert. Byggt á nýlegum rannsóknum á plöntusteingervingum (Friðgeir Grímsson, 2007) var meðalhiti á Ísland sem hér segir á tertíer, en hiti hlýjasta mánaðar um 12°C hærri:
Aldur (milljón ár)
Meðalhiti (°C) ± frávik
15
9,9 ± 0,6
12
13,5 ±1,1
10
11,7 ± 1,8
8
10,3 ± 2,2
6
7,4 ± 2,0
Til samanburðar er meðalhiti á Íslandi (Stykkishólmur) núna um 4,3°C. Þegar hlýjast var á tertíer hefur loftslag verið líkt því sem nú er í SA-ríkjum Bandaríkjanna og eyjum Karíbahafs þar sem einmitt eru laterít-námur.
Laterít nefnist rauður jarðvegur sem myndast við efnaveðrun í hlýju og röku loftslagi. Þá leysast ýmis efni upp og berast burt með vatni, en eftir sitja „staðföst efni“, einkum ál- og járnhýdröt. Báxítið sem ál er brætt úr hér á landi er einmitt laterít.
Helstu rannsókn hingað til á íslenskum millilögum gerði norskur jarðfræðingur, Elen Roaldset (Jökull 1983). Þar kemur fram að ólífrænn hluti millilaganna er í aðalatriðum gosaska, mismikið ummynduð. Roaldset efnagreindi rauð millilög og hraunin undir og ofan á:
Óshlíð (14 m.á.)
Hvítársíða (3,4 m.á.)
Al/Mg+Ca+Na
H2O (%*)
Al/Mg+Ca+Na
H2O (%)
Efra basalt
0,95
0,8
0,75
0,3
Rautt millilag
10,12
10,7
2,61
9,2
Neðra basalt
1,09
3,69
0,82
1,3
*Vatnið er í þungaprósentum.
Á töflunni sést að í lítt ummynduðu basalti er hlutfallið Al2O3 / (MgO + CaO + Na2O) nálægt einum, en hækkar í millilögunum við það að magnesín, kalsín og natrín skolast burt en vatn kemur í staðinn. Þetta á einkum við um eldra lagið (Óshlíð), sem myndaðist í hlýrra loftslagi. Hátt vatn í millilögunum er bundið í leirsteindum, til dæmis halloysíti (Al2O3 2SiO2 2H2O) og beidellíti (Al2O3 3SiO2 nH2O), en rauði liturinn stafar hins vegar af myndlausu (ókristölluðu) járnhýdrati, Fe(OH)3. Líklegast er að rauði liturinn sé afleiðing efnaveðrunar (laterít-myndunar) þótt fleiri þættir geti komið við sögu, svo sem bökun af völdum hraunsins ofan á. Loks ber að geta þess að ummyndun millilaganna hér á landi, jafnvel hinna elstu, nálgast það hvergi að úr verði raunverulegt laterít. Til þess er efnaveðrunin allt of stutt gengin.
Heimildir og mynd:
Sigurður Steinþórsson. „Hvernig myndast rauð millilög?“ Vísindavefurinn, 7. janúar 2010, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=49397.
Sigurður Steinþórsson. (2010, 7. janúar). Hvernig myndast rauð millilög? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=49397
Sigurður Steinþórsson. „Hvernig myndast rauð millilög?“ Vísindavefurinn. 7. jan. 2010. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=49397>.