Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er eitthvað líkt með hegðun Kötlu núna og hegðun Eyjafjallajökuls fyrir eldgosið 2010?

Páll Einarsson

Stutta svarið

Nei.

Lengra svar

Hegðun þessara eldstöðva er mjög ólík. Katla hefur verið skjálftavirk í marga áratugi, nánast samfellt. Jarðskorpuhreyfingar hafa mælst umhverfis fjallið en þær eru litlar og samsvara engan veginn því rúmmáli kviku sem búast má við í venjulegu gosi. Eyjafjallajökull lét lítið á sér kræla fyrr en 1992. Þá jókst skjálftavirknin og því fylgdu þrjú kvikuinnskot, 1994, 1999, og 2009. Fjallið bólgnaði mikið fyrstu mánuði 2010, sem endaði í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. Þegar því lauk fann kvikan leið að kvikuhólfi undir toppi fjallsins og sprengdi það upp.

Langa svarið

Þótt Eyjafjallajökull og Katla séu næstu nágrannar þá eru þessi eldfjöll gerólík í hegðun sinni og gerð. Goshegðun þeirra er ólík, og virkni í þeim frá degi til dags er ólík. Þetta er í rauninni skrýtið því báðar eldstöðvarnar eru taldar tengjast framsækni eystra gosbeltisins og breytingum á flekaskilunum sem liggja í gegnum landið. Eystra gosbeltið lengist til suðvesturs og virku eldstöðvarnar þar, það er Katla, Eyjafjallajökull, Tindfjallajökull og Vestmannaeyjar, liggja því ofan á eldri jarðskorpu og eiga sér sameiginlegan uppruna. Þær eru þó allar merkilega ólíkar. Ef til vill eru þær á mismunandi þroskaskeiði.

Þótt Eyjafjallajökull og Katla séu næstu nágrannar þá eru þessi eldfjöll gerólík í hegðun sinni og gerð. Goshegðun þeirra er ólík, og virkni í þeim frá degi til dags er ólík. Myndin sýnir eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010.

Lítum fyrst á gossöguna. Katla er stórvirk eldstöð. Hún hefur gosið oft og mikið, bæði á sögulegum og forsögulegum tíma. Gosin eru af margvíslegum gerðum. Vitað er um hamfaragos í lok síðasta jökulskeiðs og Eldgjárgosið mikla á tíundu öld má rekja til Kötlu. Þá má nefna hin „hefðbundnu“ Kötlugos. Flest gos á sögulegum tíma hafa verið basaltgos innan öskju Kötlu og þeim hafa fylgt jökulhlaup niður á Mýrdalssand. Þessi gos hafa verið einu sinni til tvisvar á öld og hafa sum verið talsvert stór, til dæmis 1918 og 1755, en önnur minni. Svo má ekki gleyma því að gos í öflugum eldstöðvum geta stundum líka verið lítil. Flest bendir til þess að hlaup sem urðu 1955, 1999 og 2011 hafi orðið vegna gosa sem ekki náðu upp úr jöklinum. Önnur tegund gosa er tengd súrri kviku, sem marka má af hvítum öskulögum sem sjá má í jarðvegssniðum umhverfið Kötlu. Nokkur slík eru þekkt á síðustu 10.000 árum. Súrar gosmyndanir er einnig að finna víða umhverfis öskjurima Kötlu, svo sem í Kötlukollum, við Gvendarfell og í Entu. Þá eru ótalin gos sem orðið hafa seint á jökultímanum og sjá má leifar af í fjöllum Mýrdalsins. Þar eru stórir sprengigígar, svo sem Heiðardalur, Gæsavatn og Oddnýjartjörn. Einnig má nefna Dyrhóley og Reynisfjall. Eyjafjallajökull, hins vegar, er fremur máttlítið eldfjall. Hann hefur gosið í mesta lagi fjórum sinnum á sögulegum tíma og er gosið 2010 stærst. Ekkert bendir til að nokkru sinni hafi orðið hamfaragos í fjallinu í 800.000 ára sögu þess.

Hegðun fjallanna tveggja frá degi til dags, ári til árs, áratug til áratugs, er einnig ólík. Varla hefur liðið sá dagur síðan mælingar hófust að ekki hafi mælst skjálfti með upptök í Kötlu. Skjálftavirknin vex og minnkar, en er alltaf til staðar. Sum ár er hún meiri en vant er. Sérstaklega skera sig úr árin 1967, 1976-1977, 2000-2004, 2011 og 2016. Stærsti skjálfti sem mælst hefur í Kötlu varð í júní 1977, 5,1 að stærð. Tímabilin 2000-2004 og 2011 koma í kjölfarið á hugsanlegum smágosum 1999 og 2011, hin tímabilin virðast ótengd gosum.

Aðdragandi gosanna í Eyjafjallajökli 2010 var allt öðruvísi. Fyrir 1992 voru skjálftar nánast óþekktir undir eldfjallinu. Virknin jókst lítillega þangað til 1994 en þá brast á skjálftahrina. Mælingar á aflögun bentu til þess að þá hafi orðið kvikuinnskot undir fjallinu. Aftur gerðist svipaður atburður 1999. Tíu árum síðar, sumarið 2009, bentu aflögunarmælingar enn til lítils háttar innskots undir fjallinu. Þegar leið að jólum það ár fór aftur að bera á landrisi og aukningu í skjálftavirkni og ágerðust hreyfingarnar mjög fyrstu mánuði ársins 2010. Var þá ljóst að hverju stefndi. Kvikuinnskotið braust í átt til yfirborðs og hófst gos á Fimmvörðuhálsi 20. mars. Gosið var lítið, en rúmum sólarhring eftir að því lauk braust út annað eldgos úr toppgíg fjallsins 14. apríl. Telja má víst að kvikan sem fóðraði gosið á Fimmvörðuhálsi hafi fundið sér leið að kvikuhleif undir toppi fjallsins og kynt undir honum þangað til úr honum gaus. Eyjafjallajökulsgosin áttu sér sem sagt 18 ára aðdraganda og snemma á þeim tíma lágu fyrir nokkuð réttar hugmyndir um hvað væri á seyði.

Meðfylgjandi mynd sýnir þversnið í gegnum eldstöðvarnar tvær frá vestri til austurs og gefur yfirlit um niðurstöður jarðeðlisfræðilegra mælinga um innviði þeirra. Sjá má kvikuinnskotin frá 1994, 1999 og 2009 undir Eyjafjallajökli, ásamt ganginum sem fóðraði gosið á Fimmvörðuhálsi. Undir öskju Kötlu má sjá grunnstætt kvikuhólf, smáganga sem náð hafa yfirborði í litlum gosum, súra hraungúla (e. lava domes) utan við öskjurimana, og hugsanlegan leynigúl (e. cryptodome) sem ekki hefur enn náð yfirborði. Á myndinni kemur skýrt fram hversu ólíkar eldstöðvarnar eru að allri gerð. Nánar má lesa um þetta í grein Páls Einarssonar og Ástu Rutar Hjartardóttur í tímaritinu Jökli frá 2015.

Myndir:
  • Mynd af gosi í Eyjafjallajökli: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 16.02.2017).
  • Skýringarmynd er úr eftirfarandi grein: Páll Einarsson and Ásta Rut Hjartardóttir. 2015. Structure and tectonic position of the Eyjafjallajökull volcano, S-Iceland. Jökull, 65, 1-16.).

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Er hægt að sjá eitthvað líkt með hegðun Kötlu núna og hegðun Eyjafjallajökuls fyrir eldgosið 2010?

Höfundur

Páll Einarsson

prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

20.2.2017

Spyrjandi

Sigurður Sigurjónsson

Tilvísun

Páll Einarsson. „Er eitthvað líkt með hegðun Kötlu núna og hegðun Eyjafjallajökuls fyrir eldgosið 2010?“ Vísindavefurinn, 20. febrúar 2017, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73363.

Páll Einarsson. (2017, 20. febrúar). Er eitthvað líkt með hegðun Kötlu núna og hegðun Eyjafjallajökuls fyrir eldgosið 2010? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73363

Páll Einarsson. „Er eitthvað líkt með hegðun Kötlu núna og hegðun Eyjafjallajökuls fyrir eldgosið 2010?“ Vísindavefurinn. 20. feb. 2017. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73363>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er eitthvað líkt með hegðun Kötlu núna og hegðun Eyjafjallajökuls fyrir eldgosið 2010?

Stutta svarið

Nei.

Lengra svar

Hegðun þessara eldstöðva er mjög ólík. Katla hefur verið skjálftavirk í marga áratugi, nánast samfellt. Jarðskorpuhreyfingar hafa mælst umhverfis fjallið en þær eru litlar og samsvara engan veginn því rúmmáli kviku sem búast má við í venjulegu gosi. Eyjafjallajökull lét lítið á sér kræla fyrr en 1992. Þá jókst skjálftavirknin og því fylgdu þrjú kvikuinnskot, 1994, 1999, og 2009. Fjallið bólgnaði mikið fyrstu mánuði 2010, sem endaði í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. Þegar því lauk fann kvikan leið að kvikuhólfi undir toppi fjallsins og sprengdi það upp.

Langa svarið

Þótt Eyjafjallajökull og Katla séu næstu nágrannar þá eru þessi eldfjöll gerólík í hegðun sinni og gerð. Goshegðun þeirra er ólík, og virkni í þeim frá degi til dags er ólík. Þetta er í rauninni skrýtið því báðar eldstöðvarnar eru taldar tengjast framsækni eystra gosbeltisins og breytingum á flekaskilunum sem liggja í gegnum landið. Eystra gosbeltið lengist til suðvesturs og virku eldstöðvarnar þar, það er Katla, Eyjafjallajökull, Tindfjallajökull og Vestmannaeyjar, liggja því ofan á eldri jarðskorpu og eiga sér sameiginlegan uppruna. Þær eru þó allar merkilega ólíkar. Ef til vill eru þær á mismunandi þroskaskeiði.

Þótt Eyjafjallajökull og Katla séu næstu nágrannar þá eru þessi eldfjöll gerólík í hegðun sinni og gerð. Goshegðun þeirra er ólík, og virkni í þeim frá degi til dags er ólík. Myndin sýnir eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010.

Lítum fyrst á gossöguna. Katla er stórvirk eldstöð. Hún hefur gosið oft og mikið, bæði á sögulegum og forsögulegum tíma. Gosin eru af margvíslegum gerðum. Vitað er um hamfaragos í lok síðasta jökulskeiðs og Eldgjárgosið mikla á tíundu öld má rekja til Kötlu. Þá má nefna hin „hefðbundnu“ Kötlugos. Flest gos á sögulegum tíma hafa verið basaltgos innan öskju Kötlu og þeim hafa fylgt jökulhlaup niður á Mýrdalssand. Þessi gos hafa verið einu sinni til tvisvar á öld og hafa sum verið talsvert stór, til dæmis 1918 og 1755, en önnur minni. Svo má ekki gleyma því að gos í öflugum eldstöðvum geta stundum líka verið lítil. Flest bendir til þess að hlaup sem urðu 1955, 1999 og 2011 hafi orðið vegna gosa sem ekki náðu upp úr jöklinum. Önnur tegund gosa er tengd súrri kviku, sem marka má af hvítum öskulögum sem sjá má í jarðvegssniðum umhverfið Kötlu. Nokkur slík eru þekkt á síðustu 10.000 árum. Súrar gosmyndanir er einnig að finna víða umhverfis öskjurima Kötlu, svo sem í Kötlukollum, við Gvendarfell og í Entu. Þá eru ótalin gos sem orðið hafa seint á jökultímanum og sjá má leifar af í fjöllum Mýrdalsins. Þar eru stórir sprengigígar, svo sem Heiðardalur, Gæsavatn og Oddnýjartjörn. Einnig má nefna Dyrhóley og Reynisfjall. Eyjafjallajökull, hins vegar, er fremur máttlítið eldfjall. Hann hefur gosið í mesta lagi fjórum sinnum á sögulegum tíma og er gosið 2010 stærst. Ekkert bendir til að nokkru sinni hafi orðið hamfaragos í fjallinu í 800.000 ára sögu þess.

Hegðun fjallanna tveggja frá degi til dags, ári til árs, áratug til áratugs, er einnig ólík. Varla hefur liðið sá dagur síðan mælingar hófust að ekki hafi mælst skjálfti með upptök í Kötlu. Skjálftavirknin vex og minnkar, en er alltaf til staðar. Sum ár er hún meiri en vant er. Sérstaklega skera sig úr árin 1967, 1976-1977, 2000-2004, 2011 og 2016. Stærsti skjálfti sem mælst hefur í Kötlu varð í júní 1977, 5,1 að stærð. Tímabilin 2000-2004 og 2011 koma í kjölfarið á hugsanlegum smágosum 1999 og 2011, hin tímabilin virðast ótengd gosum.

Aðdragandi gosanna í Eyjafjallajökli 2010 var allt öðruvísi. Fyrir 1992 voru skjálftar nánast óþekktir undir eldfjallinu. Virknin jókst lítillega þangað til 1994 en þá brast á skjálftahrina. Mælingar á aflögun bentu til þess að þá hafi orðið kvikuinnskot undir fjallinu. Aftur gerðist svipaður atburður 1999. Tíu árum síðar, sumarið 2009, bentu aflögunarmælingar enn til lítils háttar innskots undir fjallinu. Þegar leið að jólum það ár fór aftur að bera á landrisi og aukningu í skjálftavirkni og ágerðust hreyfingarnar mjög fyrstu mánuði ársins 2010. Var þá ljóst að hverju stefndi. Kvikuinnskotið braust í átt til yfirborðs og hófst gos á Fimmvörðuhálsi 20. mars. Gosið var lítið, en rúmum sólarhring eftir að því lauk braust út annað eldgos úr toppgíg fjallsins 14. apríl. Telja má víst að kvikan sem fóðraði gosið á Fimmvörðuhálsi hafi fundið sér leið að kvikuhleif undir toppi fjallsins og kynt undir honum þangað til úr honum gaus. Eyjafjallajökulsgosin áttu sér sem sagt 18 ára aðdraganda og snemma á þeim tíma lágu fyrir nokkuð réttar hugmyndir um hvað væri á seyði.

Meðfylgjandi mynd sýnir þversnið í gegnum eldstöðvarnar tvær frá vestri til austurs og gefur yfirlit um niðurstöður jarðeðlisfræðilegra mælinga um innviði þeirra. Sjá má kvikuinnskotin frá 1994, 1999 og 2009 undir Eyjafjallajökli, ásamt ganginum sem fóðraði gosið á Fimmvörðuhálsi. Undir öskju Kötlu má sjá grunnstætt kvikuhólf, smáganga sem náð hafa yfirborði í litlum gosum, súra hraungúla (e. lava domes) utan við öskjurimana, og hugsanlegan leynigúl (e. cryptodome) sem ekki hefur enn náð yfirborði. Á myndinni kemur skýrt fram hversu ólíkar eldstöðvarnar eru að allri gerð. Nánar má lesa um þetta í grein Páls Einarssonar og Ástu Rutar Hjartardóttur í tímaritinu Jökli frá 2015.

Myndir:
  • Mynd af gosi í Eyjafjallajökli: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 16.02.2017).
  • Skýringarmynd er úr eftirfarandi grein: Páll Einarsson and Ásta Rut Hjartardóttir. 2015. Structure and tectonic position of the Eyjafjallajökull volcano, S-Iceland. Jökull, 65, 1-16.).

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Er hægt að sjá eitthvað líkt með hegðun Kötlu núna og hegðun Eyjafjallajökuls fyrir eldgosið 2010?

...