En hver er þessi tala $x$ sem Hippasus sannaði að væri óræð? Við sjáum að $x$ er jákvæð rauntala sem hefur þann eiginleika að $x^2 = 2$ og hún er þess vegna einmitt sú rauntala sem yfirleitt er kölluð kvaðratrótin af tveimur og er táknuð með $\sqrt2$. Kvaðratrótin af tveimur er sagnfræðilega merkileg fyrir þær sakir að hún var líklega fyrsta dæmið um óræða tölu sem mennirnir uppgötvuðu. Kvaðratrótin af tveimur er þó ekki eina óræða talan sem þekkt er nú til dags. Fleiri dæmi um vel þekktar óræðar tölur eru $\pi$, hlutfallið milli ummáls og þvermáls hrings, og $e$, grunntala náttúrlega lograns. Einnig er sérhver kvaðratrót af náttúrulegri tölu, sem ekki er ferningstala (ferningstala er annað veldi heillrar tölu), óræð tala. Þannig eru til dæmis $\sqrt3$, $\sqrt5$ og $\sqrt{12}$ allt óræðar tölur. Óræðu tölurnar sem við þekkjum getum við síðan notað til að smíða nýjar óræðar tölur á ýmsa vegu. Til dæmis er summa ræðrar og óræðrar tölu alltaf óræð tala og sama gildir um margfeldi ræðrar og óræðrar tölu. Því eru $2 + \sqrt2$, $\frac{128}{13} + \pi$ og $\frac43 \cdot \sqrt 5$ allt óræðar tölur. Óræðu tölurnar eru reyndar svo margar að í skilningi stærðfræðinnar eru þær miklu fleiri en ræðu tölurnar. Allar rauntölur má setja fram sem tugabrot og líklega er einfaldasta leiðin til að sjá fyrir sér muninn á ræðum og óræðum tölum að skoða tugabrotsframsetningu þeirra. Ræðu tölurnar eru lotubundnar, sem þýðir að þegar þær eru skrifaðar sem tugabrot endurtekur sama tölustafarunan sig aftur og aftur í aukastöfum þeirra. Til dæmis má rita $\frac13 = 0{,}3333\ldots$ (tölustafurinn 3 endurtekur sig aftur og aftur) og $\frac{21}{37} = 0{,}567567567\ldots$ (runan 567 endurtekur sig aftur og aftur). Ræðar tölur eins og $\frac14 = 0{,}25$ og $\frac{12}5 = 2{,}4$, sem hafa endanlega marga aukastafi, eru einnig lotubundnar því þær má rita sem $\frac14 = 0{,}25000\ldots$ og $\frac{12}5 = 2{,}4000\ldots$ (tölustafurinn 0 endurtekur sig aftur og aftur). Óræðu tölurnar eru hins vegar þær rauntölur sem eru ekki lotubundnar, það er þær hafa óendanlega marga aukastafi og engin runa endurtekur sig aftur og aftur í aukastöfunum. Með öllum aukastöfum sem venjulegur vasareiknir sýnir má til dæmis nálga töluna $\sqrt2$ sem 1,414213562. Mun fleiri aukastafir $\sqrt2$ eru þó þekktir og til dæmis má finna vefsíður sem sýna að minnsta kosti fyrstu tíu milljónir aukastafa hennar. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað eru náttúrlegar tölur? eftir Gunnar Þór Magnússon
- Hvað eru heilar og ræðar tölur? eftir Gunnar Þór Magnússon
- Hvað eru rauntölur? eftir Gunnar Þór Magnússon
- Hvað eru til margar torræðar tölur? eftir Gunnar Þór Magnússon
- Hvað eru fullkomnar tölur? eftir Gunnar Þór Magnússon
- Hver fann upp tölurnar? eftir Kristínu Bjarnadóttur
- Eru tvinntölurnar til í raun og veru? eftir Gunnar Þór Magnússon og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvað eru vináttutölur? eftir Kristínu Bjarnadóttur
Hver er kvaðratrótin af 2?