Allt frá tímum Forngrikkja þekktu menn að þó ræðu tölurnar dugi til flestra verka, þá eru einnig til aðrar tölur. Í kringum 500 f.Kr. uppgötvaði Hippasus frá Metapontum að kvaðratrótin af 2 er ekki ræð tala og eyðilagði hann þar með heimsmynd Pýþagórasarreglunnar sem fól í sér að allar tölur mætti tákna með ræðum tölum. Stærðfræðingar nefndu þessar nýju tölur óræðar tölur. Með tímanum uppgötvuðu menn fleiri og fleiri óræðar tölur; til dæmis er rótin af n óræð tala ef n er ekki ferningstala, og bæði tölurnar e og pí (\(\pi\)) eru óræðar. Ræðu og óræðu tölurnar eru óendanlega margar, en í vissum skilningi eru til fleiri óræðar tölur en ræðar. Óformlega má lýsa óræðu tölunum sem þeim tölum sem hafa tugabrotaframsetningu sem fylgir engu mynstri; til dæmis er engin regla á aukastöfum pí:
\(\pi\) = 3,1415926535897932384...Þegar við bætum óræðu tölunum við mengi ræðra talna fáum við rauntölurnar, sem við táknum með R. Rauntölunum má raða eftir stærð, þær má leggja saman og margfalda, hægt er að draga þær hverja frá annarri og deila þeim hverri í aðra, og það má taka kvaðratrót af jákvæðri rauntölu; útkoman verður alltaf önnur rauntala.
Einn mikilvægasti eiginleiki rauntalnanna er að ef runa þeirra hefur markgildi, þá er markgildið rauntala. Óformlega þýðir það að ef við höfum safn af rauntölum sem fara eins nálægt gefinni tölu og við viljum, þá er sú tala rauntala. Þetta gildir ekki um ræðu tölurnar, því finna má runu þeirra sem stefnir á rótina af 2, en eins og áður kom fram er hún ekki ræð tala. Þessi eiginleiki gerir okkur kleift að stunda stærðfræðigreiningu, en hún byggir á markgildishugtakinu. Mikilvægi stærðfræðigreiningar er ein af aðalástæðunum fyrir því að við kynnum rauntölurnar til leiks. Rauntölurnar skiptast semsagt í ræðar og óræðar tölur en þeim má einnig skipta í algebrulegar og torræðar tölur: Við segjum að rauntala sé algebruleg ef hún er rót margliðu með heiltalnastuðla, og við segjum að rauntala sé torræð ef hún er ekki algebruleg. Allar ræðu tölurnar eru algebrulegar, og rótin af 2 er algebruleg, en pí og e eru torræðar. Hægt er að finna enn almennari tegundir talna sem rauntölurnar eru hlutmengi í, svo sem tvinntölurnar, varplínuna eða ofurrauntölurnar. Hins vegar tapast mismunandi eiginleikar rauntalnanna við þessar útvíkkanir; það er ekki til eðlileg röðun á tvinntölunum, og meðal ofurrauntalnanna er að finna óendanlega stórar tölur. Tvinntölurnar eru þó mikið notaðar í eðlis- og stærðfræði vegna þess að ýmsir útreikningar og útleiðslur verða einfaldari þegar þeim er beitt en ella. Tengt efni á Vísindavefum:
- Til hvers notum við frumtölur? eftir Rögnvald G. Möller.
- Hvort eru fleiri mínus- eða plústölur í talnakerfi okkar? eftir Stefán Inga Valdimarsson og Ögmund Jónsson.
- Er mengi rauntalna hlutmengi í mengi tvinntalna? eftir Þorstein Vilhjálmsson og Ögmund Jónsson.
- Er hægt að sanna að mengi rauntalna, R, taki enda? eftir Ritstjórn.
- Hvað eru til margar torræðar tölur? eftir Gunnar Þór Magnússon.
- N. Bourbaki. Éléments d'histoire des mathématiques. 1984. Masson, París.
- Náttúrlegar tölur á heimasíðu Mathworld.
- Tölur á Wikipedia.
- Hvað er tala? á vefsíðu Cut the knot.
- Myndin af reiknistokknum var fengin af Flickr, og er birt undir Creative Commons skírteini.
Engilbert Svavarsson, Guðrún Helgadóttir, Gunnar Ásgeirsson, Halla Káradóttir, Kristrún Sigurðardóttir, Svanlaug Einarsdóttir, Sóley Jóhannesdóttir.