Er það rétt að lungu reykingafólks hreinsast og verða eins og hjá fólki sem ekki hefur reykt ef það hættir að reykja?Stutta svarið Áhrif reykinga á lungun eru oft viðverandi ef reykt er lengi. Með því að hætta er þó alltaf hægt að bæta ástand lungnanna sem losna við óþarfa áreiti sem fylgir sígarettureyk. Munar þar mestu um krabbameinsvaldandi efni en einnig efnasambönd sem valda æðakölkun og sérstaklega lungnaþembu, sem getur valið mæði sem erfitt er að snúa ofan af. Þess vegna skiptir máli að hætta reykingum sem fyrst - og muna að aldrei er of seint að hætta að reykja. Lengra svar um skaðsemi reykinga Í sígarettureyk eru yfir 7.000 efnasambönd, þar á meðal um 70 sem geta stuðlað að krabbameini. Í reyknum er líka nikótín sem hefur ekki aðeins áhrif á heilann heldur einnig neikvæð áhrif á hjarta- og æðakerfi og reyndar öll líffæri líkamans. Nikótínið berst með reyknum til lungna við innöndun og áfram með blóði til heilans á innan við mínútu. Nokkrum mínútum síðar hækkar púls og blóðþrýstingur. Önnur efni í reyknum erta fljótlega öndunarfæraslímhúð og valda hósta og aukinni slímframleiðslu sem verður viðvarandi vandamál við langvarandi reykingar. Krabbameinsvaldandi áhrif sígarettureyks koma hins vegar mun síðar fram og þá sérstaklega eftir margra ára stöðugar reykingar, líkt og áhrif á æðakölkun og lungnaþembu. Flest krabbameinsvaldandi efnin í sígarettureyk berast með tjöru ofan í lungun og situr 70% hennar eftir í lungunum, en tjaran veldur einnig blettum á tönnum og nöglum reykingafólks. Í lungunum valda krabbameinsvaldandi efnin stökkbreytingum á erfðaefni þannig að frumur taka upp á því að skipta sér stjórnlaust. Einnig veikja þau ónæmiskerfið sem við það á erfiðara með að halda aftur af krabbameinsvexti.
- Yfirlitsmynd: Cigarette Buts on Brown Soil · Free Stock Photo. (Sótt 14.01.2025).
- Lungnakrabbamein: Fræðslurit fyrir heilbrigðisstarfsfólk og almenning (ritstjóri Tómas Guðbjartsson). Reykjavík 2024, bls. 40. Birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra.
Lengra svarið við spurningunni er að mestu fengið úr bæklingnum Hættu nú alveg (ritstjóri og útgefandi Tómas Guðbjartsson). Reykjavík 2024.