Hver eru einkenni blóðtappa í fæti?Áður hefur verið fjallað um blóðtappa í hægra og vinstra heilahveli í svari Þuríðar Þorbjarnardóttur við spurningunni Hvað er blóðtappi? Í blóðinu eru efni og ferlar sem stjórna því að blóð storknar þegar á þarf að halda, til dæmis til að loka sári og til að hindra útbreiðslu sýkingar. Blóð getur þó einnig storknað við vissar aðstæður þegar þess er ekki þörf og leitt til myndunar blóðsega og blóðtappa sem geta haft alvarlegar afleiðingar. Blóðtappar geta myndast á mismunandi stöðum í líkamanum og fara einkenni og afleiðingar eftir því. Blóðtappar í bláæðum, sem sjá um að dæla súrefnissnauðu blóði aftur til hjartans, geta myndast vegna hreyfingarleysis þar sem vöðvapumpa sem nauðsynleg er til þess að hjálpa við að dæla blóðinu til hjartans er ekki nógu virk. Þegar blóðið staðnar í æðinni myndar það litla kekki meðfram veggjum æða sem geta stækkað og stíflað viðkomandi æð algjörlega eða að hluta og hindrað þannig blóðflæði aftur til hjartans. Blóðtappar af þessari gerð eru ekki mjög skaðlegir en ef þeir losna kallast það blóðrek (e. embolism) sem getur borist til hægri hliðar hjartans og þaðan til lungnaslagæðar en það getur verið banvænt. Í slagæðum, sem dæla súrefnisríku blóði til líkamans, geta fituúrfellingar eða svokölluð hörsl (e. plaque) safnast saman í veggi æða. Ef þessar fituúrfellingar losna getur blóðtappi myndast og stíflað blóðflæði í æðinni alveg eða að hluta. Þetta getur leitt til hjartaáfalls, heilablóðfalls eða annarra æðasjúkdóma eftir staðsetningu blóðtappans. Blóðtappar geta einnig myndast í hjarta í kjölfar gáttaflökts (e. arterial fibrillation) eða hjartaáfalls, auk þess sem þeir geta valdið fleiri sjúkdómum, til dæmis ef blóðtappi myndast í þvagi og veldur því að þvagblaðran nær ekki að tæmast. Í fótum geta blóðtappar myndast bæði í slagæðum og bláæðum. Blóðtappar í bláæðum myndast oftast í fótum eða handleggjum og einkenni vegna þeirra eru meðal annars bólga, hiti, roði og sársauki, en þessi einkenni líkjast oft einkennum sýkingar og netjubólgu (e. cellulitis). Ef blóðtappi myndast í slagæð í fæti verður ekki nægt blóðflæði til útlimsins. Við það tapast tilfinning og hreyfigeta í fæti, fóturinn hvítnar og verður aumur og sjúklingur getur orðið mjög kvalinn.
Á löngum ferðalögum getur orðið blóðtappamyndun í bláæðum. Ágætt er að standa upp öðru hverju og liðka sig, til dæmis þegar flugferðir eru í lengri kantinum.
- Blood Clots Symptoms, Causes, Treatment - What are the symptoms of blood clots? on MedicineNet. (Skoðað 24.7.2012).
- Venous thrombosis - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 24.7.2012).
- Fyrri mynd: Healthline. Eigandi myndar er James Heilman. (Sótt 15.1.2019).
- Seinni mynd: Airliner - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 24.7.2012).