Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í grófum dráttum er hringrás blóðs eins og hér er lýst. Hefjum ferðina í hægri gátt hjartans, sem er efra hólf þess í hægri helmingnum. Inn í hægri gáttina kemur blóð frá öllum vefjum líkamans um tvær stórar bláæðar sem heita efri og neðri holæð. Bláæðar eru æðar sem flytja blóð til hjartans. Í holæðunum er blóðið súrefnissnautt, enda vefirnir búnir að taka til sín súrefni sem barst til þeirra. Í staðinn inniheldur þetta blóð mikið af koltvíoxíði sem er úrgangsefni sem myndast við efnaskipti allra vefja líkamans.
Hringrás blóðsins.
Úr hægri gátt rennur blóðið ofan í neðra hjartahólfið sem heitir hægri slegill. Þaðan er blóðinu síðan dælt út í hægri og vinstri lungnaslagæðar sem fara með það til lungna. Í lungunum greinast lungnaslagæðarnar í sífellt smærri æðar þar til þær mynda háræðanet utan um lungnablöðrur. Loftskipti fara fram milli blóðs og lungnablaðra. Í því felst að koltvíoxíð berst úr blóðinu í lungnablöðrur og út úr þeim síðan við útöndun, en í staðinn berst í blóðið súrefni sem kom ofan í lungun við innöndun.
Blóðið heldur nú ferð sinni áfram en hefur breyst úr súrefnissnauðu í súrefnisríkt blóð. Það berst þannig úr háræðunum sem eru utan um lungnablöðrurnar í litlar bláæðar sem sameinast í sífellt stærri og færri bláæðar. Að lokum er allt þetta súrefnisríka blóð komið í fjórar stórar lungnabláæðar sem flytja það í vinstri gátt hjartans. Úr henni rennur blóðið ofan í vinstri slegil og þaðan er því dælt út í eina stóra slagæð, ósæðina.
Slagæðar eru æðar sem flytja blóð frá hjartanu. Í þeim er æðasláttur eða púls og af því er nafn þeirra dregið. Ósæðin greinist í nokkrar minni slagæðar sem greinast áfram í sífellt minni slagæðar. Þær minnstu, slagæðlingarnir, flytja blóðið að lokum í háræðanet þar sem það kemst í námunda við vefi líkamans.
Allar frumur líkamans eru nálægt háræðaneti. Í háræðunum fara fram loftskipti á ný, nú í öfuga átt við það sem gerist í lungunum, það er að segja súrefni fer úr blóði til vefja en koltvíoxíð úr vefjum í blóð. Þetta blóð er nú orðið súrefnissnautt og berst úr háræðum í smáar bláæðar (bláæðlinga) sem sameinast í stærri og færri bláæðar þar til það er komið í tvær stærstu bláæðar líkamans, efri og neðri holæð.
Þá er hringrásinni lokið, blóðið búið að fara einn hring um blóðrásarkerfi líkamans sem samanstendur af hjarta og þrenns konar æðum - bláæðum, háræðum og slagæðum.
Heimild og mynd:
Gerard J. Tortora (1997): Introduction to the Human Body - The Essentials of Anatomy and Physiology. Menlo Park, California: Benjamin Cummings.
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig er hringrás blóðsins?“ Vísindavefurinn, 14. október 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2782.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2002, 14. október). Hvernig er hringrás blóðsins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2782