Munntóbak er hlaðið sykri til bragðauka, hækkar því sýrustigið í munninum og eykur þar með líkur á tannskemmdum. Oft verður tannholdið bólgið og það hörfar upp á rót tannarinnar. Óbragð og ólykt fylgir bólgum í tannholdi, einnig minnkar bragð og lyktarskyn þeirra sem nota munntóbak. Auk þess er það mikið lýti að sjá fólk með útbólgna vör undan tóbaki. Talið er að í munntóbaki séu að minnsta kosti 28 krabbameinsvaldandi efni og sum í meira mæli en í reyktóbaki. Slímhúð þykknar og langvarandi notkun eykur líkur á krabbameini í munnholi og munnvatnskirtlum, einnig í vélinda og ofanverðum meltingarvegi þar sem einhverju af munntóbakssafa er kyngt; tóbakið er líka talið geta valdið krabbameini í brisi. Sá sem notar 10 grömm af munntóbaki á dag fær í sig þrefalt meira af krabbameinsvaldandi efnum en sá sem reykir 1 pakka af sígarettum á dag. Talið er að við notkun munntóbaks aukist hættan á því að fólk fái munnkrabbamein verulega. Um 37% þeirra sem fá krabbamein í munnhol eftir notkun munntóbaks eru enn á lífi fimm árum síðar. Íþróttir og munntóbak eiga ekki vel saman frekar en íþróttir og reykingar. Við notkun á munntóbaki þrengjast æðarnar í líkamanum og blóðflæði til vöðva minnkar. Þar af leiðandi tekur það mun lengri tíma að byggja upp vöðva hjá þeim einstaklingum sem nota munntóbak en hjá þeim sem gera það ekki. Það er meiri hætta á meiðslum og fólk er líka lengur að ná sér eftir meiðsli ef það notar munntóbak. Notkunin veldur greinilegri hækkun á blóðþrýstingi. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hversu margir Íslendingar fá krabbamein í nef, munn, háls, vélinda eða maga vegna reyklauss tóbaks? eftir Agnesi Smáradóttur
- Hefur neftóbak skaðleg áhrif á líkamann? eftir Magnús Jóhannsson
- Eru sígarettur skaðlegri en vindlar, pípa eða munntóbak? eftir Öldu Ásgeirsdóttur og Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Á hvaða forsendum var munntóbak bannað hér um árið? eftir Halldór Gunnar Haraldsson
- The B.S. Report. Sótt 1.7.2010.