Sólin Sólin Rís 10:19 • sest 17:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:12 • Sest 13:43 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:52 • Síðdegis: 18:09 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 12:11 • Síðdegis: 24:13 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:19 • sest 17:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:12 • Sest 13:43 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:52 • Síðdegis: 18:09 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 12:11 • Síðdegis: 24:13 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða hlutverki gegnir brisið í líkamanum?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Briskirtillinn eða brisið er svolítið sérstakur kirtill þar sem hann er bæði útkirtill og innkirtill. Útkirtilshluti brissins eru kirtilblöðrur sem mynda brissafa og seyta honum út í brisgöng sem bera hann ofan í skeifugörnina. Á leiðinni í skeifugörnina sameinast brisgöng gallgöngum frá lifur.

Brissafinn er glær, litlaus vökvi sem inniheldur mestmegnis vatn, natríumbíkarbónat og meltingarensím. Natríumbíkarbónatið gerir brissafann örlítið basískan, sem gerir það að verkum að þegar hann blandast súrum magasafanum í skeifugörninni verður magasafaensímið pepsín óvirkt en sýrustigið verður heppilegt fyrir starfsemi hinna meltingarensímanna í skeifugörninni.

Meltingarensím brissafans sjá um að melta allar helstu stóru fæðusameindirnar. Þetta eru amýlasi sem meltir fjölsykruna mjölva í glúkósa, lípasi sem meltir fitusameindir í glýseról og fitusýrur, þrenns konar prótínmeltiensím (trypsín, kýmótrypsín og karboxýpeptíðasi) og tveir núkleasar sem kljúfa kjarnsýrur í grunneiningar sínar. Prótínmeltiensímunum er seytt á óvirku formi til að þau melti ekki briskirtilinn sjálfan, en verða virk þegar þau komast í snertingu við vökvann í smáþörmunum (sjá nánar í svari sama höfundar við spurningunni Af hverju melta meltingarfærin ekki sjálf sig um leið og þau melta fæðu?)



Eins og áður sagði er briskirtillinn einnig innkirtill. Það er sá hluti hans sem hefur með sykurstjórnun líkamans að gera. Í briskirtli má finna svokallaðar briseyjar sem eru litlir frumuklasar með nokkrum mismunandi gerðum innkirtilfrumna. Mikilvægastar eru alfa-frumur sem mynda hormónið glúkagon og beta-frumur sem mynda hormónið insúlín. Þessi tvö hormón eru mótvirk, sem þýðir að þau hafa andstæðar verkanir. Þau koma bæði við sögu sykurstjórnunar og er seyti þeirra gott dæmi um neikvæða afturverkun sem stuðlar að mjög nákvæmri stjórnun.

Ef blóðsykur fellur niður fyrir eðlileg mörk eru sérstakir efnanemar í alfa-frumunum sem skynja það og bregðast við með því að örva glúkagonseyti í blóðið. Glúkagon berst með blóðrásinni til markfrumna sinna í lifur. Þar fær það lifrarfrumurnar til að:
  • örva umbreytingu fjölsykrunnar glýkógens (forðasykur líkamans) í glúkósa
  • örva ummyndun annarra næringarefna, svo sem amínósýra og mjólkursýru, í glúkósa
  • örva losun glúkósa úr lifur í blóðið.

Allt þetta stuðlar að hækkun blóðsykurs og þegar eðlilegum mörkum er náð eru alfa-frumurnar ekki lengur áreittar og draga þá úr myndun glúkagons.

Beta-frumur taka til sinna ráða þegar gagnstætt ástand kemur upp. Ef blóðsykur hækkar upp fyrir eðlileg mörk, til dæmis stuttu eftir máltíð, verða efnanemar varir við það og bregðast við með því að örva insúlínseyti. Insúlín hefur eftirfarandi áhrif:
  • hraðar flutningi glúkósa úr blóðinu og inn í frumur, einkum rákóttar vöðvafrumur
  • örvar umbreytingu glúkósa í glýkógen og fitusýrur
  • hraðar flutningi amínósýra úr blóði í frumur þar sem þær eru notaðar til prótínmyndunar
  • hægir á umbreytingu glýkógens í glúkósa í lifrinni
  • hægir á ummyndun amínósýra og mjólkursýru í glúkósa

Allt þetta stuðlar að lækkun blóðsykurs og þegar hann hefur náð eðlilegum mörkum á ný eru beta-frumur ekki lengur áreittar og insúlínmyndun minnkar.



Þegar briskirtillinn starfar ekki eðlilega fara afleiðingarnar eftir því hvaða starfsemi truflast. Oftast er rætt um truflun á innkirtilstarfsemi hans. Sykursýki er heiti á flokki sjúkdóma sem sýna sig fyrr eða seinna sem hækkaður blóðsykur og sykur í þvagi. Sykursýki einkennist einnig af vangetu til að endursoga vatn úr þvagi sem leiðir til tíðra þvagláta og mikils þorsta. Megrun þrátt fyrir mikla matarlyst er einnig einkenni.

Til eru tvær megingerðir af sykursýki. Gerð I eða insúlínháð sykursýki birtist skyndilega, oftast fyrir tvítugsaldurinn og fylgir fólki alla ævi. Hún stafar af insúlínskorti vegna fækkunar beta-frumna. Einstaklingar sem fá þessa gerð af sykursýki virðast hafa gen í frumum sínum sem gera þá næmari fyrir sjúkdómnum, en svo virðist sem einhver þáttur, oftast veirusýking, sé kveikja að honum. Talið er að um sjálfsofnæmi geti verið að ræða, sem sagt að líkaminn bregðist þannig við að hann ræðst ekki einungis gegn veirunni heldur skemmi einnig beta-frumurnar.

Insúlínskorturinn gerir það að verkum að líkaminn getur ekki nýtt sykur sem orkugjafa og fitubirgðir hans eru þá brotnar niður, en við það myndast lífrænar sýrur sem kallast ketónar. Ef magn ketóna í blóði nær vissu marki kemur fram ástand sem kallast ketósis sem stuðlar að súrnun blóðs og getur leitt til dauða. Þeir sem eru með þessa gerð af sykursýki verða að mæla blóðsykur sinn reglulega og fá insúlíninngjafir í samræmi við hann alla ævi.

Sykursýki af gerð II er mun algengari en gerð I eða um 90% af öllum sykursýkitilfellum. Flestir sem fá þessa gerð sjúkdómsins eru eldri en fertugir og of þungir. Sjúkdómseinkenni þessarar gerðar eru væg og í flestum tilvikum er hægt að halda hækkun blóðsykurs í skefjum með því að borða rétt og grenna sig, stunda líkamsrækt og ef til vill taka blóðsykurlækkandi lyf.

Margir sykursýkisjúklingar með þessa gerð sjúkdómsins eru með meira en nóg af insúlíni í blóðinu. Þessir einstaklingar fá sem sagt ekki sykursýki vegna ónógs insúlíns, enda er sjúkdómurinn oft kallaður insúlínóháð sykursýki. Líkleg skýring á þessari gerð sykursýki er sú að frumur líkamans missa insúlínviðtaka sína og verða af þeim sökum ónæmar fyrir insúlíni. Þegar fitufrumur stækka virðast þær missa insúlínviðtaka sína og því er hægt að halda þessari gerð af sykursýki í skefjum með því að grenna sig því þá minnka fitufrumurnar á ný.

Ofseyti insúlíns leiðir til blóðsykurskorts. Það er mun sjaldgæfara en vanseyti sem stuðlar að insúlínháðri sykursýki og gerist helst ef illkynja æxli fer að vaxa í briseyju.

Fái einstaklingur sem er ekki með sykursýki insúlín er hætta á insúlínlosti. Þá hverfur blóðsykurinn mjög snögglega inn í frumurnar og blóðsykur fellur mjög ört. Í versta falli fær viðkomandi flog, getur misst meðvitund og jafnvel dáið. Reyndar eru sykursýkisjúklingar í meiri hættu að fá insúlínlost og blóðsykurskort en einkenni of mikils sykurs í blóði. Ástæðan er sú að erfitt getur reynst að stilla nákvæmlega saman sykurmagn í blóði og insúlíngjöf, en nú til dags eru insúlínlyf mjög öflug.

Sykursjúkum er ráðlagt að hafa ávallt eitthvað sætt í fórum sínum, eins og þrúgusykur, kex eða sætan ávaxtasafa, svo að þeir geti brugðist skjótt við fari þeir að finna fyrir einkennum blóðsykurslækkunar. Þau helstu eru skjálfti, svimi, slappleiki, svitnun, óróleiki, hraður hjartsláttur, föl húð, hungur, ringlun, höfuðverkur, einbeitingarörðugleikar, skapbreyting og nálardofi í kringum munninn. Sjái sykursýkisjúklingur til þess að hafa góða reglu á mataræði og matartímum sínum, stunda reglulega líkamsrækt og fylgjast vel með blóðsykri sínum og insúlíngjöfum ætti hann ekki að lenda í vandræðum. Reglulegt líferni er það sem skiptir mestu máli.

Af þessari umfjöllun um briskirtilinn ætti að vera ljóst að brisið gegnir afar mikilvægu hlutverki í líkamsstarfseminni. Stundum reynist nauðsynlegt að fjarlægja bris úr sjúklingum, til dæmis vegna krabbameins í brisi.

Heimildir og myndir:


Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Er hægt að lifa það af ef brisið er fjarlægt?
  • Hvert er hlutverk briskirtils í sykurstjórnun líkamans?
  • Hvað gerist þegar brisið starfar ekki eðlilega?
  • Hvaða áhrif hefur insúlín á fólk sem ekki hefur insúlínháða sykursýki?

Höfundur

Útgáfudagur

12.4.2006

Spyrjandi

Sólrún Ragnarsdóttir
Atli Rafnsson
Marta Sólrún
Sigurdís Benonýsdóttir
Konráð Konráðsson

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvaða hlutverki gegnir brisið í líkamanum?“ Vísindavefurinn, 12. apríl 2006, sótt 28. janúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=5820.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2006, 12. apríl). Hvaða hlutverki gegnir brisið í líkamanum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5820

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvaða hlutverki gegnir brisið í líkamanum?“ Vísindavefurinn. 12. apr. 2006. Vefsíða. 28. jan. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5820>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða hlutverki gegnir brisið í líkamanum?
Briskirtillinn eða brisið er svolítið sérstakur kirtill þar sem hann er bæði útkirtill og innkirtill. Útkirtilshluti brissins eru kirtilblöðrur sem mynda brissafa og seyta honum út í brisgöng sem bera hann ofan í skeifugörnina. Á leiðinni í skeifugörnina sameinast brisgöng gallgöngum frá lifur.

Brissafinn er glær, litlaus vökvi sem inniheldur mestmegnis vatn, natríumbíkarbónat og meltingarensím. Natríumbíkarbónatið gerir brissafann örlítið basískan, sem gerir það að verkum að þegar hann blandast súrum magasafanum í skeifugörninni verður magasafaensímið pepsín óvirkt en sýrustigið verður heppilegt fyrir starfsemi hinna meltingarensímanna í skeifugörninni.

Meltingarensím brissafans sjá um að melta allar helstu stóru fæðusameindirnar. Þetta eru amýlasi sem meltir fjölsykruna mjölva í glúkósa, lípasi sem meltir fitusameindir í glýseról og fitusýrur, þrenns konar prótínmeltiensím (trypsín, kýmótrypsín og karboxýpeptíðasi) og tveir núkleasar sem kljúfa kjarnsýrur í grunneiningar sínar. Prótínmeltiensímunum er seytt á óvirku formi til að þau melti ekki briskirtilinn sjálfan, en verða virk þegar þau komast í snertingu við vökvann í smáþörmunum (sjá nánar í svari sama höfundar við spurningunni Af hverju melta meltingarfærin ekki sjálf sig um leið og þau melta fæðu?)



Eins og áður sagði er briskirtillinn einnig innkirtill. Það er sá hluti hans sem hefur með sykurstjórnun líkamans að gera. Í briskirtli má finna svokallaðar briseyjar sem eru litlir frumuklasar með nokkrum mismunandi gerðum innkirtilfrumna. Mikilvægastar eru alfa-frumur sem mynda hormónið glúkagon og beta-frumur sem mynda hormónið insúlín. Þessi tvö hormón eru mótvirk, sem þýðir að þau hafa andstæðar verkanir. Þau koma bæði við sögu sykurstjórnunar og er seyti þeirra gott dæmi um neikvæða afturverkun sem stuðlar að mjög nákvæmri stjórnun.

Ef blóðsykur fellur niður fyrir eðlileg mörk eru sérstakir efnanemar í alfa-frumunum sem skynja það og bregðast við með því að örva glúkagonseyti í blóðið. Glúkagon berst með blóðrásinni til markfrumna sinna í lifur. Þar fær það lifrarfrumurnar til að:
  • örva umbreytingu fjölsykrunnar glýkógens (forðasykur líkamans) í glúkósa
  • örva ummyndun annarra næringarefna, svo sem amínósýra og mjólkursýru, í glúkósa
  • örva losun glúkósa úr lifur í blóðið.

Allt þetta stuðlar að hækkun blóðsykurs og þegar eðlilegum mörkum er náð eru alfa-frumurnar ekki lengur áreittar og draga þá úr myndun glúkagons.

Beta-frumur taka til sinna ráða þegar gagnstætt ástand kemur upp. Ef blóðsykur hækkar upp fyrir eðlileg mörk, til dæmis stuttu eftir máltíð, verða efnanemar varir við það og bregðast við með því að örva insúlínseyti. Insúlín hefur eftirfarandi áhrif:
  • hraðar flutningi glúkósa úr blóðinu og inn í frumur, einkum rákóttar vöðvafrumur
  • örvar umbreytingu glúkósa í glýkógen og fitusýrur
  • hraðar flutningi amínósýra úr blóði í frumur þar sem þær eru notaðar til prótínmyndunar
  • hægir á umbreytingu glýkógens í glúkósa í lifrinni
  • hægir á ummyndun amínósýra og mjólkursýru í glúkósa

Allt þetta stuðlar að lækkun blóðsykurs og þegar hann hefur náð eðlilegum mörkum á ný eru beta-frumur ekki lengur áreittar og insúlínmyndun minnkar.



Þegar briskirtillinn starfar ekki eðlilega fara afleiðingarnar eftir því hvaða starfsemi truflast. Oftast er rætt um truflun á innkirtilstarfsemi hans. Sykursýki er heiti á flokki sjúkdóma sem sýna sig fyrr eða seinna sem hækkaður blóðsykur og sykur í þvagi. Sykursýki einkennist einnig af vangetu til að endursoga vatn úr þvagi sem leiðir til tíðra þvagláta og mikils þorsta. Megrun þrátt fyrir mikla matarlyst er einnig einkenni.

Til eru tvær megingerðir af sykursýki. Gerð I eða insúlínháð sykursýki birtist skyndilega, oftast fyrir tvítugsaldurinn og fylgir fólki alla ævi. Hún stafar af insúlínskorti vegna fækkunar beta-frumna. Einstaklingar sem fá þessa gerð af sykursýki virðast hafa gen í frumum sínum sem gera þá næmari fyrir sjúkdómnum, en svo virðist sem einhver þáttur, oftast veirusýking, sé kveikja að honum. Talið er að um sjálfsofnæmi geti verið að ræða, sem sagt að líkaminn bregðist þannig við að hann ræðst ekki einungis gegn veirunni heldur skemmi einnig beta-frumurnar.

Insúlínskorturinn gerir það að verkum að líkaminn getur ekki nýtt sykur sem orkugjafa og fitubirgðir hans eru þá brotnar niður, en við það myndast lífrænar sýrur sem kallast ketónar. Ef magn ketóna í blóði nær vissu marki kemur fram ástand sem kallast ketósis sem stuðlar að súrnun blóðs og getur leitt til dauða. Þeir sem eru með þessa gerð af sykursýki verða að mæla blóðsykur sinn reglulega og fá insúlíninngjafir í samræmi við hann alla ævi.

Sykursýki af gerð II er mun algengari en gerð I eða um 90% af öllum sykursýkitilfellum. Flestir sem fá þessa gerð sjúkdómsins eru eldri en fertugir og of þungir. Sjúkdómseinkenni þessarar gerðar eru væg og í flestum tilvikum er hægt að halda hækkun blóðsykurs í skefjum með því að borða rétt og grenna sig, stunda líkamsrækt og ef til vill taka blóðsykurlækkandi lyf.

Margir sykursýkisjúklingar með þessa gerð sjúkdómsins eru með meira en nóg af insúlíni í blóðinu. Þessir einstaklingar fá sem sagt ekki sykursýki vegna ónógs insúlíns, enda er sjúkdómurinn oft kallaður insúlínóháð sykursýki. Líkleg skýring á þessari gerð sykursýki er sú að frumur líkamans missa insúlínviðtaka sína og verða af þeim sökum ónæmar fyrir insúlíni. Þegar fitufrumur stækka virðast þær missa insúlínviðtaka sína og því er hægt að halda þessari gerð af sykursýki í skefjum með því að grenna sig því þá minnka fitufrumurnar á ný.

Ofseyti insúlíns leiðir til blóðsykurskorts. Það er mun sjaldgæfara en vanseyti sem stuðlar að insúlínháðri sykursýki og gerist helst ef illkynja æxli fer að vaxa í briseyju.

Fái einstaklingur sem er ekki með sykursýki insúlín er hætta á insúlínlosti. Þá hverfur blóðsykurinn mjög snögglega inn í frumurnar og blóðsykur fellur mjög ört. Í versta falli fær viðkomandi flog, getur misst meðvitund og jafnvel dáið. Reyndar eru sykursýkisjúklingar í meiri hættu að fá insúlínlost og blóðsykurskort en einkenni of mikils sykurs í blóði. Ástæðan er sú að erfitt getur reynst að stilla nákvæmlega saman sykurmagn í blóði og insúlíngjöf, en nú til dags eru insúlínlyf mjög öflug.

Sykursjúkum er ráðlagt að hafa ávallt eitthvað sætt í fórum sínum, eins og þrúgusykur, kex eða sætan ávaxtasafa, svo að þeir geti brugðist skjótt við fari þeir að finna fyrir einkennum blóðsykurslækkunar. Þau helstu eru skjálfti, svimi, slappleiki, svitnun, óróleiki, hraður hjartsláttur, föl húð, hungur, ringlun, höfuðverkur, einbeitingarörðugleikar, skapbreyting og nálardofi í kringum munninn. Sjái sykursýkisjúklingur til þess að hafa góða reglu á mataræði og matartímum sínum, stunda reglulega líkamsrækt og fylgjast vel með blóðsykri sínum og insúlíngjöfum ætti hann ekki að lenda í vandræðum. Reglulegt líferni er það sem skiptir mestu máli.

Af þessari umfjöllun um briskirtilinn ætti að vera ljóst að brisið gegnir afar mikilvægu hlutverki í líkamsstarfseminni. Stundum reynist nauðsynlegt að fjarlægja bris úr sjúklingum, til dæmis vegna krabbameins í brisi.

Heimildir og myndir:


Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Er hægt að lifa það af ef brisið er fjarlægt?
  • Hvert er hlutverk briskirtils í sykurstjórnun líkamans?
  • Hvað gerist þegar brisið starfar ekki eðlilega?
  • Hvaða áhrif hefur insúlín á fólk sem ekki hefur insúlínháða sykursýki?

...