Áður en hvítur sykur eða súkrósi er frásogaður úr meltingarveginum klýfur meltingarensímið sem nefnist súkrasi súkrósann í einsykrurnar glúkósa og frúktósa. Glúkósahlutinn frásogast eins og greint er frá að ofan. Frúktósi, sem frásogast úr meltingarvegi, hefur ekki strax áhrif á styrk blóðsykurs eins og glúkósi. Fyrst fer frúktósi til lifrarinnar og er þar meðal annars ummyndaður í glúkósa, sem birtist þá sem sykur í blóði. Þetta ferli tekur lengri tíma og áhrifin á styrk blóðsykurs verða ekki eins mikil og þegar þrúgusykur er borðaður. Lífsvenjur og aldur einstaklings ráða miklu um hvernig líkaminn vinnur úr sykri (glúkósa) Ef líkaminn getur ekki unnið almennilega úr sykri verður blóðsykurinn of hár. Efnaskiptasjúkdómurinn sykursýki einkennist af of háum blóðsykri og honum fylgja ýmsir alvarlegir kvillar svo sem nýrnaskemmdir og blinda og sjúkdómurinn getur leitt til dauða. Einnig eru hjarta- og æðasjúkdómar meðal annars taldir vera fylgikvillar sykursýki. Tíðni hinnar svokölluðu insúlínóháðu sykursýki eða sykursýki af tegund 2 er há meðal aldraðra og hefur farið ört vaxandi meðal yngra fólks bæði hér á landi og annars staðar í heiminum. Insúlínóháð sykursýki er meðal annars talin stafa af því að frumur verða ónæmar fyrir insúlíni og afleiðingin er skert upptaka á glúkósa inn í frumur. Fyrir sextán árum birtust niðurstöður rannsóknar sem sýndu að næmi frumna fyrir insúlíni jókst, og þar með upptaka blóðsykurs inn í frumur, þegar aldraðir og ungir einstaklingar höfðu stundað reglulega líkamshreyfingu í eina viku. Fjórum árum síðar birtust niðurstöður rannsóknar þar sem sýnt var fram á að blóðsykur einstaklings með insúlínóháða sykursýki lækkaði eftir reglulega líkamshreyfingu í eina viku. Frumur miðtaugakerfisins, þar með talin heilinn og mænan, og rauð blóðkorn hafa þá sérstöðu að vera háð orku frá blóðsykri til eðlilegrar starfsemi. Einstaklingur sem er í námunda við kjörþyngd sína og hreyfir sig reglulega nýtir bæði þrúgusykur (glúkósa) og hvítan sykur (glúkósa og frúktósa) sem orkugjafa. Einstaklingur sem er of feitur og hreyfir sig lítið þarf ekki á mikilli orku úr næringarefnum að halda og þá er líklegt að þrúgusykurinn og hvíti sykurinn stuðli enn meir að uppsöfnun fitu í líkamanum, þar sem umframneysla á sykri verður að fitu. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvers vegna eykst sykursýki hjá börnum og unglingum svona mikið? eftir Árna V. Þórsson
- Hvað er langt í það að unnt verði að setja tæki inn í sykursjúka? eftir Ástráð B. Hreiðarsson
- Af hverju þyrstir okkur í sætindi, og af hverju finnast okkur þau góð? eftir Bryndísar Evu Birgisdóttur
- Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum sykursýki? Hver eru einkenni hennar? eftir Davíð Þórisson
- Hvað eru sykrur? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Michigan Comprehensive Diabetes Center. Sótt 15. 5. 2008.