Í næringarfræðinni teljast sykrur til orkuefna, enda eru þær notaðar sem eldsneyti í frumum líkamans. Þetta á einkum við um glúkósa en hann er aðalorkugjafi líkamans. Tvísykrum og mjölva úr fæðu er breytt í glúkósa við meltinguna. Beðmi og aðrar fjölsykrur úr plöntufrumuvegg eru þó ekki nýttar sem orkuefni því að líkami okkar getur ekki melt þær. Í staðinn nýtast þær sem trefjaefni sem eru nauðsynleg fyrir eðlilega meltingu fæðunnar. Ef við fáum ekki nóg af trefjaefnum úr fæðunni berst fæðumauk hægt og illa niður eftir þörmunum og ristlinum og getur orðið hart og þurrt og leitt til harðlífis og hægðatregðu. Sykrur myndast við ljóstillífun plantna og eru helstu orkugjafar þeirra. Plöntur geyma næringarforða sem fjölsykruna mjölva sem er gerð úr mörg þúsund glúkósaeiningum. Beðmi er einnig fjölsykra úr mörgum glúkósaeiningum en það er að finna í frumuvegg plöntufrumna og gerir plöntuafurðir harðar undir tönn. Lítið er um sykrur í dýraafurðum. Helsta dýrasykran er glýkógen (stundum kölluð dýramjölvi) sem er fjölsykra úr glúkósa og finnst í lifur og vöðvum, þar með talið í mannslíkamanum. Við fáum því sykrur nær eingöngu úr plöntuafurðum. Ávextir innihalda mikið af einföldum sykrum (ein- og tvísykrum), en kartöflur, hrísgrjón, baunir, brauð og pasta eru mjölvaríkar fæðutegundir. Trefjaefni er að finna í ávöxtum, grænmeti og grófu korni, eins og heilhveiti. Þegar korntegundir eru fínunnar eru trefjaefnin skilin frá og með þeim mikið af vítamínum og steinefnum. Því er mun hollara að borða gróf brauð en franskbrauð. Ef við fáum meira en nóg af sykrum úr fæðunni breytir lifrin þeim í fjölsykruna glýkógen. Þannig geymir hún um kíló af orkuforða. Ef enn meira af sykrum en samsvarar þessu er borðað breytir lifrin umframmagninu í fitu. Lifrin getur geymt mun meira af orkuforða sem fitu og sent til fitugeymslustöðva undir húð og víðar í líkamanum. Heilinn og aðrir taugungar nota aftur á móti eingöngu glúkósa (eða ketóna í glúkósahallæri) sem orkugjafa. Líkaminn getur myndað svolítið af glúkósa úr tilteknum amínósýrum og úr glýseróli úr fituefnum en þó er ekki gott að vera án kolvetna í lengri tíma eins og fjallað er um í svari Önnu Rögnu Magnúsardóttur við spurningunni Hvað er hægt að svelta líkamann lengi um kolvetni? Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvernig brennir maður prótíni, kolvetni og fitu? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur.
- Hver eiga hlutföll fitu, kolvetnis og prótíns að vera í ráðlögðum dagskammti matar? eftir Dag Snæ Sævarsson.
- Fita og kolvetni eru gerð úr sömu frumefnum, en hvað er ólíkt með þeim? eftir Önnu Rögnu Magnúsardóttur og Guðrúnu V. Skúladóttur.
- Hvernig vinnur líkaminn úr þrúgusykri í samanburði við hvítan sykur? eftir Guðrúnu V. Skúladóttur.
- Carbohydrate á Wikipedia.org.
- Sykra á Wikipedia - íslensk útgáfa.
- Carbohydrates á Netdoctor.
- Mynd: Revolution Personal Training. Sótt 11. 2. 2011.
Aðrar spurningar um sykrur:
- Hvað gera sykrur í líkamanum?
- Hvar í líkamanum verða sykrur til og hvaða hlutverki gegna þær?