Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum sykursýki? Hver eru einkenni hennar?

Davíð Þórisson

Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum sykursýki?

Áður fyrr greindu læknar oft sykursýki með því að bragða á þvagi sjúklinga. Sætt bragð var sterk vísbending um sykur í þvagi og lýsir það í raun vel því sem er að gerast í líkamanum; blóðsykur hækkar. Raunverulegur vettvangur sykursýki er ekki innan frumunnar heldur utan, nánar tiltekið í blóðrásinni. Orsökina má hins vegar rekja til atburða sem gerast innan frumunnar og má flokka sykursýki eftir þeim í tvær tegundir.

Fyrst þarf að kynna til sögunnar hormónið insúlín. Insúlín er framleitt í brisi og losað út í blóðrásina þegar líkaminn skynjar hækkaðan blóðsykur. Þetta gerist til dæmis eftir máltíð og er í raun viðbragð líkamans við skilaboðunum “nú er næg orka til staðar, notum afgangsorkuna til að byggja upp orkuforða”. Grænt ljós er gefið á flutning sykurs (orku) úr blóðrás inn í frumur líkamans og uppbyggingu á prótínum, fjölsykrum og fitu. Uppbyggingarfasi er hafinn. Þegar insúlín lækkar svo aftur hefst niðurbrotsfasi líkamans, orkuforðanum er breytt aftur í blóðsykur svo að líkaminn hafi stöðugan aðgang að orku, einkum hinn orkufreki heili.

Sykursýki I (insúlínháð sykursýki) orsakast af galla í frumunum í brisinu. Ónæmiskerfið þekkir þær ekki og ræðst því gegn þeim. Eftir einhvern tíma framleiðir brisið ekki lengur insúlín í nægilegu magni til að stýra sykurbúskap líkamans á eðlilegan hátt.

Sykursýki II (insúlínóháð sykursýki), algengari tegundin, orsakast af gölluðum viðtökum á frumunum sem binda og nota insúlín. Insúlínið er til staðar en nýtist ekki líkamanum.

Báðum tegundum sykursýki er því sameiginlegt að valda of háu magni sykurs í blóðrásinni og það veldur bæði skammtíma- og langtímaeinkennum svo og fylgikvillum.

Hver eru einkenni sykursýki?

Þar sem mikill sykur er í blóði leitar sykurlaus vökvi úr líkamanum inn í það með himnuflæði (osmósu) gegnum æðaveggi og veggi hjartahólfanna, þaðan í þvagið og síðan út úr líkamanum. Sjúklingur er síþyrstur og þarf stöðugt að kasta af sér vatni. Þyngdartap, stöðug hungurtilfinning, þreyta, doði í útlimum og aukin tíðni sýkinga eru algeng einkenni áður en sjúklingur leitar loks til læknis. Ef læknismeðferð hefst ekki tímanlega getur blóðsykur hækkað upp úr öllu valdi. Þá líður jafnvel yfir sjúkling og hann getur dáið mjög skyndilega. Öll þessi einkenni má ráða við með reglulegri gjöf insúlíns, heilbrigðu mataræði, hreyfingu og fleiru.

Meðferð við sykursýki felst í því að halda blóðsykri stöðugum þar sem alvarlegir langtíma fylgikvillar ágerast eftir því sem blóðsykurinn fær að sveiflast meira. Til dæmis er algengasta orsök blindu illa meðhöndluð sykursýki. Fleiri fylgikvilla má nefna, svo sem nýrnabilun, kransæðasjúkdóma, heilaslag, útlimamissi og skyndoða vegna taugaskemmda. Sjúklingur missir tilfinningu í fótum og rekur þá oft í, sár myndast og geta orðið mjög svæsin. Flestir þessara fylgikvilla koma til vegna skemmandi áhrifa af háum blóðsykri á æðar líkamans.

Af hverju kemur sykursýki og af hverju er hún ekki greind á meðgöngu?

Sykursýki er að hluta komin til vegna erfða og er sá þáttur sterkari í sykursýki. Að öðrum hluta koma til svipgerðar- eða umhverfisþættir. Talið er að þeir sem erfa sjúkdóminn hafi sykursýkina í sér á óvirku formi þar til tilteknir umhverfisþættir virkja sjúkdóminn. Það er því ljóst að um er að ræða marga mögulega þætti sem allir enda á einn veg, sem sykursýki. Mikil rannsóknarvinna er unnin í dag til að geta betur skilgreint hlutfall hvers orsakaþáttar og miðar þeim vel áfram.

Vissulega mætti skima fyrir sykursýki strax á meðgöngu en það myndi lítið stoða. Eðlilegra væri að kanna erfðir í áhættuhópum (ættingar sykursjúkra) og veita þeim fræðslu og nota nútíma aðferðir til að fyrirbyggja að sykursýkin nái að verða virk. Til dæmis eru nú verið að kanna hvort insúlíngjöf strax til ungbarna geti komið í veg fyrir sykursýki seinna á ævinni.

Hvenær verður búið að finna lausn gegn sykursýki?

Sykursýki I mætti hugsanlega lækna með því að koma fyrir í brisinu frumum sem starfa eðlilega og koma þar með af stað eðlilegri insúlínframleiðslu. Eins og með vefjaígræðslur almennt í dag liggur vandinn í því að sjúklingur þarf að vera á sterkum ónæmisbælandi lyfjum til að geta þegið utanaðkomandi bris.

Sykursýki II er ekki hægt að lækna með nútíma læknisfræði, í þeirri merkingu að uppræta sjúkdóminn. Til þess þyrfti að skipta út öllum insúlín-viðtökum á þeim frumum sem þá bera. Það er líkast því að ætla að skipta um vélar í ótalmörgum bílum sem eru á ferð. Erfðatæknin lumar þó á ýmsum brellum sem gætu átt eftir að valda byltingum á þessari öld, þar á meðal á sviði sykursýkinnar.

Í dag byggjast nýjustu aðferðir við meðferð þess vegna á því að fyrirbyggja sykursýki. Talið er að 50% einstaklinga með erfðagalla gagnvart sykursýki fái aldrei sjúkdóminn og reynt er að finna aðferðir til að hin 50% sleppi líka við hann. Þessu miðar vel áfram og er ekki ólíklegt að tilfellum sykursýki II fari hlutfallslega fækkandi á næstu árum.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Einnig má benda á greinar um sykursýki á doktor.is og ítarlegar upplýsingar um sykursýki, ætlaðar almenningi á Medline Plus


Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Hvenær verður búið að finna lausn gegn sykursýki?
  • Af hverju kemur sykursýki og af hverju er hún ekki greind á meðgöngu?

Höfundur

Útgáfudagur

29.3.2001

Síðast uppfært

13.1.2023

Spyrjandi

Guðmundur Frímann
Elsý Vilhjálmsdóttir
Valgerður Pálsdóttir

Tilvísun

Davíð Þórisson. „Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum sykursýki? Hver eru einkenni hennar?“ Vísindavefurinn, 29. mars 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1438.

Davíð Þórisson. (2001, 29. mars). Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum sykursýki? Hver eru einkenni hennar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1438

Davíð Þórisson. „Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum sykursýki? Hver eru einkenni hennar?“ Vísindavefurinn. 29. mar. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1438>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum sykursýki? Hver eru einkenni hennar?
Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum sykursýki?

Áður fyrr greindu læknar oft sykursýki með því að bragða á þvagi sjúklinga. Sætt bragð var sterk vísbending um sykur í þvagi og lýsir það í raun vel því sem er að gerast í líkamanum; blóðsykur hækkar. Raunverulegur vettvangur sykursýki er ekki innan frumunnar heldur utan, nánar tiltekið í blóðrásinni. Orsökina má hins vegar rekja til atburða sem gerast innan frumunnar og má flokka sykursýki eftir þeim í tvær tegundir.

Fyrst þarf að kynna til sögunnar hormónið insúlín. Insúlín er framleitt í brisi og losað út í blóðrásina þegar líkaminn skynjar hækkaðan blóðsykur. Þetta gerist til dæmis eftir máltíð og er í raun viðbragð líkamans við skilaboðunum “nú er næg orka til staðar, notum afgangsorkuna til að byggja upp orkuforða”. Grænt ljós er gefið á flutning sykurs (orku) úr blóðrás inn í frumur líkamans og uppbyggingu á prótínum, fjölsykrum og fitu. Uppbyggingarfasi er hafinn. Þegar insúlín lækkar svo aftur hefst niðurbrotsfasi líkamans, orkuforðanum er breytt aftur í blóðsykur svo að líkaminn hafi stöðugan aðgang að orku, einkum hinn orkufreki heili.

Sykursýki I (insúlínháð sykursýki) orsakast af galla í frumunum í brisinu. Ónæmiskerfið þekkir þær ekki og ræðst því gegn þeim. Eftir einhvern tíma framleiðir brisið ekki lengur insúlín í nægilegu magni til að stýra sykurbúskap líkamans á eðlilegan hátt.

Sykursýki II (insúlínóháð sykursýki), algengari tegundin, orsakast af gölluðum viðtökum á frumunum sem binda og nota insúlín. Insúlínið er til staðar en nýtist ekki líkamanum.

Báðum tegundum sykursýki er því sameiginlegt að valda of háu magni sykurs í blóðrásinni og það veldur bæði skammtíma- og langtímaeinkennum svo og fylgikvillum.

Hver eru einkenni sykursýki?

Þar sem mikill sykur er í blóði leitar sykurlaus vökvi úr líkamanum inn í það með himnuflæði (osmósu) gegnum æðaveggi og veggi hjartahólfanna, þaðan í þvagið og síðan út úr líkamanum. Sjúklingur er síþyrstur og þarf stöðugt að kasta af sér vatni. Þyngdartap, stöðug hungurtilfinning, þreyta, doði í útlimum og aukin tíðni sýkinga eru algeng einkenni áður en sjúklingur leitar loks til læknis. Ef læknismeðferð hefst ekki tímanlega getur blóðsykur hækkað upp úr öllu valdi. Þá líður jafnvel yfir sjúkling og hann getur dáið mjög skyndilega. Öll þessi einkenni má ráða við með reglulegri gjöf insúlíns, heilbrigðu mataræði, hreyfingu og fleiru.

Meðferð við sykursýki felst í því að halda blóðsykri stöðugum þar sem alvarlegir langtíma fylgikvillar ágerast eftir því sem blóðsykurinn fær að sveiflast meira. Til dæmis er algengasta orsök blindu illa meðhöndluð sykursýki. Fleiri fylgikvilla má nefna, svo sem nýrnabilun, kransæðasjúkdóma, heilaslag, útlimamissi og skyndoða vegna taugaskemmda. Sjúklingur missir tilfinningu í fótum og rekur þá oft í, sár myndast og geta orðið mjög svæsin. Flestir þessara fylgikvilla koma til vegna skemmandi áhrifa af háum blóðsykri á æðar líkamans.

Af hverju kemur sykursýki og af hverju er hún ekki greind á meðgöngu?

Sykursýki er að hluta komin til vegna erfða og er sá þáttur sterkari í sykursýki. Að öðrum hluta koma til svipgerðar- eða umhverfisþættir. Talið er að þeir sem erfa sjúkdóminn hafi sykursýkina í sér á óvirku formi þar til tilteknir umhverfisþættir virkja sjúkdóminn. Það er því ljóst að um er að ræða marga mögulega þætti sem allir enda á einn veg, sem sykursýki. Mikil rannsóknarvinna er unnin í dag til að geta betur skilgreint hlutfall hvers orsakaþáttar og miðar þeim vel áfram.

Vissulega mætti skima fyrir sykursýki strax á meðgöngu en það myndi lítið stoða. Eðlilegra væri að kanna erfðir í áhættuhópum (ættingar sykursjúkra) og veita þeim fræðslu og nota nútíma aðferðir til að fyrirbyggja að sykursýkin nái að verða virk. Til dæmis eru nú verið að kanna hvort insúlíngjöf strax til ungbarna geti komið í veg fyrir sykursýki seinna á ævinni.

Hvenær verður búið að finna lausn gegn sykursýki?

Sykursýki I mætti hugsanlega lækna með því að koma fyrir í brisinu frumum sem starfa eðlilega og koma þar með af stað eðlilegri insúlínframleiðslu. Eins og með vefjaígræðslur almennt í dag liggur vandinn í því að sjúklingur þarf að vera á sterkum ónæmisbælandi lyfjum til að geta þegið utanaðkomandi bris.

Sykursýki II er ekki hægt að lækna með nútíma læknisfræði, í þeirri merkingu að uppræta sjúkdóminn. Til þess þyrfti að skipta út öllum insúlín-viðtökum á þeim frumum sem þá bera. Það er líkast því að ætla að skipta um vélar í ótalmörgum bílum sem eru á ferð. Erfðatæknin lumar þó á ýmsum brellum sem gætu átt eftir að valda byltingum á þessari öld, þar á meðal á sviði sykursýkinnar.

Í dag byggjast nýjustu aðferðir við meðferð þess vegna á því að fyrirbyggja sykursýki. Talið er að 50% einstaklinga með erfðagalla gagnvart sykursýki fái aldrei sjúkdóminn og reynt er að finna aðferðir til að hin 50% sleppi líka við hann. Þessu miðar vel áfram og er ekki ólíklegt að tilfellum sykursýki II fari hlutfallslega fækkandi á næstu árum.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Einnig má benda á greinar um sykursýki á doktor.is og ítarlegar upplýsingar um sykursýki, ætlaðar almenningi á Medline Plus


Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Hvenær verður búið að finna lausn gegn sykursýki?
  • Af hverju kemur sykursýki og af hverju er hún ekki greind á meðgöngu?
...