Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju þyrstir okkur í sætindi, og af hverju finnast okkur þau góð?

Bryndís Eva Birgisdóttir

Við mannfólkið skynjum ferns konar bragð með tungunni, sætt, salt, súrt og beiskt, og fæðumst með þann eiginleika að þykja sætt bragð gott, beiskt og súrt vont en erum hlutlaus eða með einhvern áhuga á salti. Þetta mótast síðan enn frekar af reynslu okkar og verður til þess að okkur langar eða langar ekki í hinar ýmsu fæðutegundir.

Fæðuval barna er talið mótast að miklu leyti af foreldrum og af venjum í samfélaginu kringum þau. Þannig er ekki talið líklegt að líffræðilegir þættir geti einir og sér skýrt það hvaða mat fólk velur og finnst góður. Því miður erum við í dag umkringd af mat sem mikill sykur er í og langar okkur því oft og tíðum meira í hann en annan mat sem er ekki eins sætur. Þetta er sérstaklega slæmt barnanna vegna sem alast upp við mjög sætar vörur alls staðar kringum sig og venjast á þær.

Meðfædd sókn okkar í sætt er líklega einnig tengd þróunarsögunni á þann hátt að sykurbragðið hefur verið örugg ávísun á orku, svo sem í sætum ávöxtum. Móðurmjólkin er einnig sætari en venjuleg mjólk á bragðið og sókn í sætubragðið tryggir að ungbörn fái næringu úr móðurmjólk.

Mismikil sókn í sætt

Athyglisvert er að karlar virðast sækja minna í sætt en konur og einnig er það svo að sumir einstaklingar og þjóðfélagshópar virðast sækja meira í sætt en aðrir. Til dæmis virðast þeldökkir Bandaríkjamenn sækja meira í sætt en hvítir. Rannsóknir eru ekki nægilega langt á veg komnar til þess að hægt sé að segja til um það með nokkurri vissu hvað liggur hér að baki.

Nefna má að í Tyrklandi er til dæmis hefð fyrir mjög sætum eftirréttum sem fólki af flestum öðrum þjóðum myndi finnast of sætir. Fólk er hins vegar alið upp við þessa rétti frá barnæsku og þeir þykja því eðlilegur hluti af fæðinu. Þannig er það mismunandi eftir því hvaðan í heiminum við erum hvernig við upplifum sætt og mismunandi er við hvaða sykurmagn einstaklingar fara að upplifa sykurvatnslausn sem sæta.

Hitastig tungunnar hefur einnig áhrif á það hversu sætt bragð við finnum. Til dæmis þarf að setja heilmikinn sykur í ís af því að við finnum minna fyrir sætubragðinu vegna kuldans. Næringarefnaskortur, svo sem sinkskortur, getur einnig haft áhrif á hvernig við finnum bragð af mat, en ýmsir sjúkdómar og lyf eða líkamlegar breytingar svo sem við þungun eða tíðahvörf geta einnig haft þessi konar áhrif.

Í rannsókn þar sem börnum, unglingum og fullorðnum var boðið að velja sér eftir smekk sykurvatn eða límonaði sem innihélt mismikið magn af sykri kom í ljós að börnin völdu sætustu afurðirnar, unglingarnir vildu minna sætt en fullorðnir völdu minnst sætu drykkina.

Slæmur ávani

Á sama hátt og hægt er að venja sig á mikla saltneyslu, eins og margir þekkja af eigin raun, er hægt að venja sig á mikla sykurneyslu. Allt sem er minna salt/sætt verður þá ekki eins "gott". Reyni maður hægt og rólega að draga úr neyslu á sætindum verða þau þó með tímanum minna eftirsóknarverð. Ávextir og annað sem er minna sætt verður þá eftirsóknarverðara en sætt morgunkorn eða sætar kökur og manni finnst síðarnefndi maturinn jafnvel "of" sætur. Á sama hátt og ef dregið er úr saltmagni hægt og rólega fer fólk að finna betur bragðið af matnum sjálfum ef dregið er úr sykurmagni.

Sjá einnig svar Guðrúnar V. Skúladóttur við spurningunni Hvernig vinnur líkaminn úr þrúgusykri í samanburði við hvítan sykur?

Höfundur

doktor í næringarfræði

Útgáfudagur

21.11.2000

Spyrjandi

Bragi Antoniusson, f. 1985

Tilvísun

Bryndís Eva Birgisdóttir. „Af hverju þyrstir okkur í sætindi, og af hverju finnast okkur þau góð?“ Vísindavefurinn, 21. nóvember 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1150.

Bryndís Eva Birgisdóttir. (2000, 21. nóvember). Af hverju þyrstir okkur í sætindi, og af hverju finnast okkur þau góð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1150

Bryndís Eva Birgisdóttir. „Af hverju þyrstir okkur í sætindi, og af hverju finnast okkur þau góð?“ Vísindavefurinn. 21. nóv. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1150>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju þyrstir okkur í sætindi, og af hverju finnast okkur þau góð?
Við mannfólkið skynjum ferns konar bragð með tungunni, sætt, salt, súrt og beiskt, og fæðumst með þann eiginleika að þykja sætt bragð gott, beiskt og súrt vont en erum hlutlaus eða með einhvern áhuga á salti. Þetta mótast síðan enn frekar af reynslu okkar og verður til þess að okkur langar eða langar ekki í hinar ýmsu fæðutegundir.

Fæðuval barna er talið mótast að miklu leyti af foreldrum og af venjum í samfélaginu kringum þau. Þannig er ekki talið líklegt að líffræðilegir þættir geti einir og sér skýrt það hvaða mat fólk velur og finnst góður. Því miður erum við í dag umkringd af mat sem mikill sykur er í og langar okkur því oft og tíðum meira í hann en annan mat sem er ekki eins sætur. Þetta er sérstaklega slæmt barnanna vegna sem alast upp við mjög sætar vörur alls staðar kringum sig og venjast á þær.

Meðfædd sókn okkar í sætt er líklega einnig tengd þróunarsögunni á þann hátt að sykurbragðið hefur verið örugg ávísun á orku, svo sem í sætum ávöxtum. Móðurmjólkin er einnig sætari en venjuleg mjólk á bragðið og sókn í sætubragðið tryggir að ungbörn fái næringu úr móðurmjólk.

Mismikil sókn í sætt

Athyglisvert er að karlar virðast sækja minna í sætt en konur og einnig er það svo að sumir einstaklingar og þjóðfélagshópar virðast sækja meira í sætt en aðrir. Til dæmis virðast þeldökkir Bandaríkjamenn sækja meira í sætt en hvítir. Rannsóknir eru ekki nægilega langt á veg komnar til þess að hægt sé að segja til um það með nokkurri vissu hvað liggur hér að baki.

Nefna má að í Tyrklandi er til dæmis hefð fyrir mjög sætum eftirréttum sem fólki af flestum öðrum þjóðum myndi finnast of sætir. Fólk er hins vegar alið upp við þessa rétti frá barnæsku og þeir þykja því eðlilegur hluti af fæðinu. Þannig er það mismunandi eftir því hvaðan í heiminum við erum hvernig við upplifum sætt og mismunandi er við hvaða sykurmagn einstaklingar fara að upplifa sykurvatnslausn sem sæta.

Hitastig tungunnar hefur einnig áhrif á það hversu sætt bragð við finnum. Til dæmis þarf að setja heilmikinn sykur í ís af því að við finnum minna fyrir sætubragðinu vegna kuldans. Næringarefnaskortur, svo sem sinkskortur, getur einnig haft áhrif á hvernig við finnum bragð af mat, en ýmsir sjúkdómar og lyf eða líkamlegar breytingar svo sem við þungun eða tíðahvörf geta einnig haft þessi konar áhrif.

Í rannsókn þar sem börnum, unglingum og fullorðnum var boðið að velja sér eftir smekk sykurvatn eða límonaði sem innihélt mismikið magn af sykri kom í ljós að börnin völdu sætustu afurðirnar, unglingarnir vildu minna sætt en fullorðnir völdu minnst sætu drykkina.

Slæmur ávani

Á sama hátt og hægt er að venja sig á mikla saltneyslu, eins og margir þekkja af eigin raun, er hægt að venja sig á mikla sykurneyslu. Allt sem er minna salt/sætt verður þá ekki eins "gott". Reyni maður hægt og rólega að draga úr neyslu á sætindum verða þau þó með tímanum minna eftirsóknarverð. Ávextir og annað sem er minna sætt verður þá eftirsóknarverðara en sætt morgunkorn eða sætar kökur og manni finnst síðarnefndi maturinn jafnvel "of" sætur. Á sama hátt og ef dregið er úr saltmagni hægt og rólega fer fólk að finna betur bragðið af matnum sjálfum ef dregið er úr sykurmagni.

Sjá einnig svar Guðrúnar V. Skúladóttur við spurningunni Hvernig vinnur líkaminn úr þrúgusykri í samanburði við hvítan sykur?...