Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fæða er líkamanum nauðsynleg af tveimur meginástæðum. Í fyrsta lagi er hún eldsneyti þar sem hún gefur frumum þá orku sem þarf til að framkvæma efnabreytingar og knýja líkamsstarfsemi eins og vöðvasamdrátt, flutning taugaboða, efnaseyti og efnaupptöku. Í öðru lagi er fæða hráefni því að í henni eru alls kyns næringarefni sem líkaminn þarf á að halda til efnabreytinga og til að vaxa og viðhalda sér.
En fæðan er ekki á nýtanlegu formi fyrir líkamann heldur þarf að brjóta hana niður í flóknu ferli sem við köllum meltingu. Líffærin sem sinna þessu verkefni kallast meltingarfæri og mynda saman meltingarkerfi okkar.
Skipta má meltingarfærunum í tvo megin flokka. Annars vegar er sjálfur meltingarvegurinn, samfelld slanga sem hefst í munni og endar í endaþarmi. Líffæri sem tilheyra meltingarveginum eru munnur, kok, vélinda, magi, smáþarmar og ristill.
Hins vegar eru líffæri sem liggja utan meltingarvegarins en tengjast honum á einn eða annan veg. Hér er um að ræða tennur, tungu, munnvatnskirtla, lifur, gallblöðru og briskirtil. Tennur skaga ofan í meltingarveginn og hjálpa til við mölun, en svo kallast fyrsta stig meltingar eftir að fæða hefur verið innbyrð. Öll önnur líffæri í þessum flokki, nema tungan, eru alveg utan meltingarvegarins. Þau framleiða eða geyma efni sem eru nauðsynleg fyrir efnameltingu og tengjast meltingarveginum um rásir sem flytja efni í hann.
Skipta má vinnslu fæðu til þess að hún nýtist frumum líkamans í fimm grundvallarstörf:
Innbyrðing/át. Fæða sett upp í munninn.
Blöndun og flutningur fæðu. Vöðvasamdrættir blanda saman fæðu og efnaseyti frá meltingarkirtlum og flytja blönduna niður eftir meltingarveginum.
Melting. Sundrun fæðunnar bæði með efnafræðilegum og mekanískum aðferðum.
Mölun eða mekanísk melting er hreyfingar af ýmsu tagi sem auðvelda efnameltingu. Til hennar teljast tygging fæðunnar, kynging og bylgjuhreyfingar í meltingarveginum sem stuðla bæði að blöndun fæðu við meltingarsafa og flutning hennar niður eftir meltingarveginum.
Við efnameltingu eru stórsameindir fæðunnar, fjölsykrur, fitur og prótín, brotnar niður í sameindir sem eru nógu litlar til að komast í gegnum veggi meltingarvegarins, út í blóð og vessa. Þessi sundrun stórsameinda gerist í efnahvörfum sem eru háð meltingarensímum í efnaseyti hinna ýmsu meltingarfæra og fer fram að mestu leyti í holrúmi meltingarvegarins.
Upptaka. Flutningur meltrar fæðu úr meltingarvegi í blóð og vessa til dreifingar til frumna líkamans.
Saurlát. Losun ómeltanlegra efna úr meltingarveginum.
Ef við fylgjum fæðunni í gegnum meltingarveginn og lýsum í fáum orðum því sem gerist á leið hennar þá er það eitthvað á þessa leið:
Í munni hefst bæði mölun og efnamelting. Við tyggingu mala tennur fæðuna með hjálp tungu og kjálkavöðva. Tyggingin leiðir einnig til þess að fæðan blandast seyti frá munnvatnskirtlum en í munnvatni er slím sem gerir fæðuna mjúka og sleipa og auðveldar kyngingu (sjá svar sama höfundar um munnvatn). Í munnvatni er einnig fyrsta meltingarensímið sem fæðan kemst í snertingu við. Það ensím brýtur mjölva sem er fjölsykra niður í tvísykruna maltsykur.
Tungan sér um að ýta fæðunni ofan í kok þar sem kyngingarviðbragðið hefst og verður til þess að koma fæðunni ofan í vélinda. Þar sjá bylgjuhreyfingar í veggjunum um að koma fæðunni alla leið ofan í maga. Í maga er fæðan hnoðuð vegna hreyfingar hans og blönduð magasafa sem í eru ýmis efni (sjá svar sama höfundar um hlutverk magans). Þar hefst meðal annars efnamelting prótína.
Úr maga fer fæðan ofan í skeifugörn sem er efsti hluti smáþarma. Í skeifugörn berast meltingarsafar frá gallblöðru (gall sem lifrin myndar en gallblaðra geymir – sjá svar sama höfundar um lifur og svar um gallblöðru eftir Bjarna Þjóðleifsson) og briskirtli (brissafi). Í þessum söfum eru meltingarensím sem brjóta stórsameindir í smásameindir. Fæðan færist niður eftir smáþörmum og blandast meltingarsafa þeirra. Öll efnamelting klárast í smáþörmum. Þá hafa fjöl- og tvísykrur verið brotnar niður í einsykrur, fita í fitusýrur og glýseról og prótín í amínósýrur. Þar að auki fer uppsog að mestu leyti fram um veggi smáþarma.
Úr smáþörmum fer fæðumaukið í ristil en þar fer engin melting fram heldur lýkur hér uppsogi á næringarefnum fæðunnar, aðallega vatni og steinefnum (sjá svar sama höfundar um hlutverk ristils). Við hægðir losar líkaminn sig við ómeltanleg efni úr fæðunni og ýmislegt fleira sem saur út um endaþarmsop.
Heimild:
Gerard J. Tortora (1997): Introduction to the Human Body - The Essentials of Anatomy and Physiology. Menlo Park, California: Benjamin Cummings.
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig starfa líffæri meltingakerfisins saman og hvaða efnaskipti fara þar fram?“ Vísindavefurinn, 11. nóvember 2002, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2845.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2002, 11. nóvember). Hvernig starfa líffæri meltingakerfisins saman og hvaða efnaskipti fara þar fram? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2845
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig starfa líffæri meltingakerfisins saman og hvaða efnaskipti fara þar fram?“ Vísindavefurinn. 11. nóv. 2002. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2845>.