Er það satt að þegar maður fitnar þá myndi líkaminn nýjar fitufrumur sem eyðast aldrei og því sé auðveldara að fitna aftur?Heildarmagn fitu í líkamanum, það er hversu feitur einstaklingur er, fer eftir tvennu - annars vegar fjölda fitufrumna og hins vegar stærð þeirra eða hversu fullar þær eru af fitu. Fitufrumur eru að mestu fylltar af fituefnum sem nefnast þríglýseríð. Kjarni þeirra og önnur frumulíffæri eru samanþjöppuð í örlítið svæði utan við fitubóluna sem geymir fituna. Hlutverk fitufrumna er að geyma ónotaða fitu í líkamanum á formi þríglýseríða. Til þess að sinna þessu hlutverki sínu geta frumurnar þanist út og stækkað gífurlega. Þannig geta fitufrumur í of feitum einstaklingi orðið hundrað sinnum stærri en í grönnum einstaklingi. Hver hitaeining sem við innbyrðum er ýmist nýtt eða geymd. Þegar við borðum meira af orkuríkri fæðu en sem nemur orkunni sem við notum söfnum við fitu og fitufrumurnar fyllast og stækka. Ef við notum aftur á móti meiri orku en við neytum skreppa fitufrumurnar saman, en fjöldi þeirra breytist ekki. Gjarnan er talað um tvenns konar offitu eftir því hvenær á ævinni hún kemur fram - offitu sem kemur fram í æsku og offitu sem kemur fram á fullorðinsaldri. Offita í æsku Vöxtur líkamans á sér fyrst og fremst stað frá því fyrir fæðingu og þar til unglingsárunum lýkur. Hann er sérlega hraður síðustu þrjá mánuði í móðurkviði, fyrstu þrjú ár ævinnar og á unglingsárunum. Á meðan á vexti stendur hefur líkaminn möguleika á að safna ofgnótt af fitufrumum. Offita sem hefst í æsku leiðir til marktækt fleiri fitufrumna en í grönnum einstaklingi. Aukinn fjöldi fitufrumna í æsku gerir einstaklingnum erfiðara fyrir að létta sig þegar hann kemst á fullorðinsár og þar með að viðhalda kjörþyngd. Að sama skapi er auðveldara að bæta á sig á ný seinna meir. Megrun og líkamsrækt stuðla að því að fitufrumurnar minnka en fjöldi þeirra breytist ekki það sem eftir er ævinnar. Við sitjum því uppi með allar þær fitufrumur sem við myndum á vaxtarskeiði ævina á enda. Fitusöfnun á fullorðinsárum Offita sem kemur fram á fullorðinsaldri stafar fyrst og fremst af stækkun fitufrumna. Fólk sem fitnar fyrst á fullorðinsaldri á líklega auðveldara með að léttast og viðhalda æskilegri þyngd vegna þess að það hefur færri fitufrumur en fólk sem hefur orðið of feitt í æsku. Heimild og mynd:
- Byer, Curtis O. og Shainberg, Louis W. 1991. Living Well - Health in Your Hands, HarperCollins Publishers, Inc., 1991
- gcarlson.com
Þeim sem vilja lesa meira á Vísindavefnum um fitu er bent á svör við spurningunum:
- Hvers vegna verða sumir feitir þótt þeir borði alveg eins mat og þeir grönnu? eftir Magnús Jóhannsson
- Af hverju breytast vöðvar í fitu eftir að þjálfun er hætt? eftir Þórarin Sveinsson
- Fita og kolvetni eru gerð úr sömu frumefnum, en hvað er ólíkt með þeim? eftir Önnu Rögnu Magnúsardóttur og Guðrúnu V. Skúladóttur