Orsakir blöðruhálskirtilskrabbameins eru langt frá því að vera ljósar en talið er að hormónabúskapur, erfðaþættir og umhverfisáhrif komi þar við sögu. Vitað er að karlkynshormónið testósterón á þar hlut að máli. Á seinni árum hefur komið í ljós að genabreytingar sem erfast virðast hafa talsverða þýðingu varðandi myndun sjúkdómsins. Rannsóknir benda einnig til að umhverfisáhrif séu þýðingarmikill þáttur. Blöðruhálskirtilskrabbamein er oftast einkennalaust þangað til að æxlið er orðið það stórt að það hefur dreift sér út fyrir blöðruhálskirtilshýðið. Einkennin eru þá svipuð og við góðkynja blöðruhálskirtilsstækkun, sem er mun algengara fyrirbæri en blöðruhálskirtilskrabbamein. Dæmigerð einkenni eru tíð þvaglát, erfiðleikar við að byrja þvaglát, kraftlítil þvagbuna og erfiðleikar við að tæma þvagblöðruna. Ef þess háttar erfiðleikar koma fram nokkuð snögglega getur það bent til að orsökin sé krabbameinsmyndun fremur en góðkynja blöðruhálskirtilsstækkun. Stundum koma fyrstu einkenni blöðruhálskirtilskrabbameins frá meinvörpum æxlisins. Þau geta til dæmis verið bakverkir vegna meinvarpa í beinagrind, aðallega í hryggsúlu. Þreyta og þyngdartap geta einnig verið einkenni blöðruhálskirtilskrabbameins. Hægt er að meðhöndla blöðruhálskirtilskrabbamein á marga vegu og stundum er ákveðið að veita enga meðferð að sinni heldur bíða átekta. Ef æxlið hefur ekki dreift sér út fyrir blöðruhálskirtilinn þegar það uppgötvast eru batahorfur sjúklingsins góðar, einkum ef æxlið er fjarlægt með aðgerð þar sem allur kirtillinn er numinn á brott. Aðgerðin getur leitt til getuleysis og í vissum tilfellum þvagleka. Stundum er beitt geislameðferð, sem getur læknað staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein. Geislameðferð getur haft aukaverkanir, til dæmis getuleysi og óþægindi í endaþarmi. Ef krabbameinið hefur dreift sér út fyrir blöðruhálskirtilinn er ekki hægt að fjarlægja allt æxlið með skurðaðgerð. Þá er unnt að beita ýmsum aðferðum sem verka gegn karlhormónum, en þeir örva vöxt blöðruhálskirtilskrabbameins. Unnt er að takmarka framleiðslu og áhrif testósterons með lyfjum en einnig má fjarlægja eistu með skurðaðgerð í þeim tilgangi. Í sumum tilvikum er blöðruhálskirtilskrabbamein meðhöndlað með krabbameinslyfjum. Geislameðferð er stundum beitt til að minnka æxlisvöxt og lina verki vegna beinmeinvarpa. Á Vísindavefnum eru mörg svör sem fjalla um krabbamein, til dæmis við spurningunum:
- Hver er tíðni og nýgengi hinna ýmsu krabbameinstegunda? eftir Laufeyju Tryggvadóttur
- Ef maður hefur einu sinni fengið krabbamein er þá líklegt að maður fái krabbamein aftur? eftir Jón Gunnlaug Jónasson
- Er hægt að smitast af krabbameini? eftir Laufeyju Tryggvadóttur
- Er allt krabbamein lífshættulegt? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Hvernig er krabbamein læknað? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Hver eru einkenni eistnakrabbameins og hvernig er hægt að ganga úr skugga um að um eistnakrabba sé að ræða? eftir Sigurð Böðvarsson
- Prostate Cryotherapy Australia, upprunalega frá National Cancer Institute. Sótt 19. 3. 2010.