Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Ef maður hefur einu sinni fengið krabbamein er þá líklegt að maður fái krabbamein aftur?

Jón Gunnlaugur Jónasson

Þetta er nokkuð flókin spurning, einkum þar sem krabbamein er í raun margir sjúkdómar og eðli krabbameina er afskaplega misjafnt. Almennt mætti þó svara spurningunni í stuttu máli á þann hátt að hafi einstaklingur fengið krabbamein er líklegra að hann fái aftur krabbamein heldur en annar einstaklingur á sama aldri og af sama kyni, sem ekki hefur áður fengið krabbamein.

Eftir greiningu krabbameins er sjúkdómurinn yfirleitt meðhöndlaður og oftast er meinið fjarlægt með skurðaðgerð. Í mjög mörgum tilvikum felur slíkt í sér endanlega lækningu og meinið gerir ekki meira vart við sig. Í öðrum tilvikum getur sama mein tekið sig upp aftur, annað hvort á sama stað og upprunaæxlið var eða með meinvörpum í eitlum eða öðrum líffærum. Ekki er gert ráð fyrir í þessu svari að spurningin eigi við það hvort líklegt sé að áður meðhöndlað krabbamein taki sig upp að nýju, heldur er hér fremur gengið út frá því hvort líklegt sé að slíkur einstaklingur fái nýtt krabbamein, sem ekki túlkast sem endurkoma hins fyrra æxlis.

Almennt séð eru þeir einstaklingar sem greinst hafa með krabbamein útsettari fyrir að greinast aftur með nýtt frumæxli. Það fer þó eftir ýmsu hversu mikil sú áhætta er. Þar skiptir meðal annars máli hvaða upphafskrabbamein var um að ræða, hvaða meðhöndlun það hlaut, lífsstíll fólksins og umhverfi, sem og arfgengir þættir.



Blöðruhálskrabbameinsfrumur að skipta sér.

Vitað er að sum krabbamein eru algengari í vissum fjölskyldum heldur en öðrum og þeir einstaklingar með slíka arfgenga áhættu, sem þegar hafa greinst með krabbamein, eru útsettari fyrir að greinast aftur með nýtt krabbamein. Það er þó stundum erfitt að meta hver slík áhættuaukning raunverulega er, meðal annars vegna þess að ef einstaklingur greinist með krabbamein, þá er allt líffærið í sumum tilfellum fjarlægt. Sem dæmi ef einstaklingur greinist með eggjastokkskrabbamein þá eru eggjastokkar fjarlægðir og því ekki unnt að fá aftur krabbamein í eggjastokka eftir það.

Arfgeng áhættuaukning einstaklings á að greinast með krabbamein í einu tilteknu líffæri hefur þó oft í för með sér að sá sé útsettari fyrir krabbameini í öðrum líffærum. Vel þekkt í þessu sambandi eru svokölluð BRCA-gen sem tengjast meiri áhættu á að greinast með brjóstakrabbamein, en einnig kemur fyrir meiri áhætta á krabbameini í eggjastokkum í tengslum við þessa arfgengu þætti.

Umhverfisáhrif eru einnig afar þýðingarmikill þáttur í tilurð krabbameina. Til dæmis eru vel þekkt tengsl tóbaksreykinga við lungnakrabbamein, þó einnig séu þekkt tengsl reykinga við ýmis önnur krabbamein. Það er sem dæmi þekkt að einstaklingar sem greinst hafa með krabbamein í munni, koki eða barka eru í meiri áhættu á að greinast með lungnakrabbamein.

Í sumum tilvikum felur meðferð sem beita þarf við krabbameini í sér áhættuaukningu á að annað krabbamein myndist. Læknum er þetta ljóst, en í sumum tilvikum þarf illt með illu út að reka. Til dæmis eru sjúklingar sem gengið hafa í gegnum geislameðferð í meiri áhættu á að fá krabbamein en þeir sem ekki hafa fengið slíka meðferð. Æxli sem myndast í kjölfar geislameðferðar koma einkum fram í eða við það líkamssvæði sem geislað hefur verið.

Af framansögðu er ljóst að áhættan er mjög mismikil og fer eftir ýmsu. Hinsvegar hefur þetta verið mjög mikið rannsakað og meðal annars í mjög stóru samvinnuverkefni margra áreiðanlegra krabbameinsskráa í Evrópu, Kanada, Singapúr og Ástralíu, sem skilað hefur alls sextán vísindagreinum á árunum 2005-2008. Hver þessara vísindagreina miðar útfrá einni tiltekinni gerð frumkrabbameins og er fjallað um áhættu einstaklinganna á að fá nýtt krabbamein síðar á ævinni og áhættan einnig sundurgreind niður eftir líffærakerfum þar sem síðar greindu æxlin kæmu fram. Ekki er unnt að fara nákvæmlega í niðurstöður vísindagreinanna hér en velkomið er að fá nánari upplýsingar um þessa vinnu hjá yfirlækni Krabbameinsskrár Íslands hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

Sem dæmi úr þessum rannsóknum er unnt að taka rannsókn á áhættu kvenna sem greinst hafa með brjóstakrabbamein á að fá annað krabbamein. Í heildina voru slíkar konur í 25% meiri áhættu á að fá annað krabbamein heldur en aðrar konur. Rétt er að ítreka að ekki er hér um að ræða að 25% kvennanna fái aftur nýtt krabbamein heldur er um að ræða að ef áhætta konu á að fá krabbamein er 1 þá er áhættan hjá konu sem áður hefur fengið brjóstakrabbamein 1,25.



Rannsóknir hafa sýnt að konur sem hafa áður fengið brjóstakrabbamein eru í 25% meiri áhættu á að fá annað krabbamein en konur sem ekki hafa greinst með krabbamein í brjósti. Það merkir að ef áhætta konu á að fá krabbamein er 1 þá er áhættan hjá konu sem áður hefur fengið brjóstakrabbamein 1,25.

Þessi áhætta var talsvert misjöfn milli staðsetningar á nýju æxli. Til dæmis eru 35% meiri líkur á magakrabbameini hjá þeim sem áður höfðu fengið brjóstakrabbamein, 22% meiri líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi, 24% meiri líkur á lungnakrabbameini, 52% á krabbameini í legslímhúð, 48% á eggjastokkakrabbameini, 27% á nýrnakrabbameini, 62% á skjaldkirtilskrabbameini og 52% meiri líkur á að fá hvítblæði en þær konur sem ekki höfðu áður greinst með brjóstakrabbamein. Líklegt er að slík áhættuaukning að greinast með nýtt krabbamein eftir greiningu brjóstakrabbameins skýrist af meðferðinni við brjóstakrabbameininu og af sameiginlegum arfgengum þáttum eða umhverfisþáttum, þó að hin almenna krabbameinsáhættuaukning bendi til að fleira geti haft þýðingu í því sambandi, svo sem betra læknisfræðilegt eftirlit meðal þeirra sem áður hafa greinst með krabbamein.

Sú spurning sem hér er borin fram er afar mikilvæg og verður sífellt þýðingarmeiri eftir því sem meðferð sjúklinga með krabbamein batnar og horfur sjúklinga verða betri. Fimm ára lífshorfur hafa meira en tvöfaldast frá því krabbameinsskráning hófst á Íslandi árið 1954. Samkvæmt Krabbameinsskrá Íslands voru á landinu í árslok 2006 alls 10.536 einstaklingar, sem einhvern tímann hafa greinst með krabbamein.

Á Vísindavefnum eru fjölmörg svör um krabbamein, til dæmis:

Myndir:

Höfundur

Jón Gunnlaugur Jónasson

prófessor og meinafræðingur, yfirlæknir Krabbameinsskrár Íslands

Útgáfudagur

5.2.2009

Spyrjandi

Valdimar Örn Arason
Hildur Kristín Hilmarsdóttir

Tilvísun

Jón Gunnlaugur Jónasson. „Ef maður hefur einu sinni fengið krabbamein er þá líklegt að maður fái krabbamein aftur?“ Vísindavefurinn, 5. febrúar 2009, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=47602.

Jón Gunnlaugur Jónasson. (2009, 5. febrúar). Ef maður hefur einu sinni fengið krabbamein er þá líklegt að maður fái krabbamein aftur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=47602

Jón Gunnlaugur Jónasson. „Ef maður hefur einu sinni fengið krabbamein er þá líklegt að maður fái krabbamein aftur?“ Vísindavefurinn. 5. feb. 2009. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=47602>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Ef maður hefur einu sinni fengið krabbamein er þá líklegt að maður fái krabbamein aftur?
Þetta er nokkuð flókin spurning, einkum þar sem krabbamein er í raun margir sjúkdómar og eðli krabbameina er afskaplega misjafnt. Almennt mætti þó svara spurningunni í stuttu máli á þann hátt að hafi einstaklingur fengið krabbamein er líklegra að hann fái aftur krabbamein heldur en annar einstaklingur á sama aldri og af sama kyni, sem ekki hefur áður fengið krabbamein.

Eftir greiningu krabbameins er sjúkdómurinn yfirleitt meðhöndlaður og oftast er meinið fjarlægt með skurðaðgerð. Í mjög mörgum tilvikum felur slíkt í sér endanlega lækningu og meinið gerir ekki meira vart við sig. Í öðrum tilvikum getur sama mein tekið sig upp aftur, annað hvort á sama stað og upprunaæxlið var eða með meinvörpum í eitlum eða öðrum líffærum. Ekki er gert ráð fyrir í þessu svari að spurningin eigi við það hvort líklegt sé að áður meðhöndlað krabbamein taki sig upp að nýju, heldur er hér fremur gengið út frá því hvort líklegt sé að slíkur einstaklingur fái nýtt krabbamein, sem ekki túlkast sem endurkoma hins fyrra æxlis.

Almennt séð eru þeir einstaklingar sem greinst hafa með krabbamein útsettari fyrir að greinast aftur með nýtt frumæxli. Það fer þó eftir ýmsu hversu mikil sú áhætta er. Þar skiptir meðal annars máli hvaða upphafskrabbamein var um að ræða, hvaða meðhöndlun það hlaut, lífsstíll fólksins og umhverfi, sem og arfgengir þættir.



Blöðruhálskrabbameinsfrumur að skipta sér.

Vitað er að sum krabbamein eru algengari í vissum fjölskyldum heldur en öðrum og þeir einstaklingar með slíka arfgenga áhættu, sem þegar hafa greinst með krabbamein, eru útsettari fyrir að greinast aftur með nýtt krabbamein. Það er þó stundum erfitt að meta hver slík áhættuaukning raunverulega er, meðal annars vegna þess að ef einstaklingur greinist með krabbamein, þá er allt líffærið í sumum tilfellum fjarlægt. Sem dæmi ef einstaklingur greinist með eggjastokkskrabbamein þá eru eggjastokkar fjarlægðir og því ekki unnt að fá aftur krabbamein í eggjastokka eftir það.

Arfgeng áhættuaukning einstaklings á að greinast með krabbamein í einu tilteknu líffæri hefur þó oft í för með sér að sá sé útsettari fyrir krabbameini í öðrum líffærum. Vel þekkt í þessu sambandi eru svokölluð BRCA-gen sem tengjast meiri áhættu á að greinast með brjóstakrabbamein, en einnig kemur fyrir meiri áhætta á krabbameini í eggjastokkum í tengslum við þessa arfgengu þætti.

Umhverfisáhrif eru einnig afar þýðingarmikill þáttur í tilurð krabbameina. Til dæmis eru vel þekkt tengsl tóbaksreykinga við lungnakrabbamein, þó einnig séu þekkt tengsl reykinga við ýmis önnur krabbamein. Það er sem dæmi þekkt að einstaklingar sem greinst hafa með krabbamein í munni, koki eða barka eru í meiri áhættu á að greinast með lungnakrabbamein.

Í sumum tilvikum felur meðferð sem beita þarf við krabbameini í sér áhættuaukningu á að annað krabbamein myndist. Læknum er þetta ljóst, en í sumum tilvikum þarf illt með illu út að reka. Til dæmis eru sjúklingar sem gengið hafa í gegnum geislameðferð í meiri áhættu á að fá krabbamein en þeir sem ekki hafa fengið slíka meðferð. Æxli sem myndast í kjölfar geislameðferðar koma einkum fram í eða við það líkamssvæði sem geislað hefur verið.

Af framansögðu er ljóst að áhættan er mjög mismikil og fer eftir ýmsu. Hinsvegar hefur þetta verið mjög mikið rannsakað og meðal annars í mjög stóru samvinnuverkefni margra áreiðanlegra krabbameinsskráa í Evrópu, Kanada, Singapúr og Ástralíu, sem skilað hefur alls sextán vísindagreinum á árunum 2005-2008. Hver þessara vísindagreina miðar útfrá einni tiltekinni gerð frumkrabbameins og er fjallað um áhættu einstaklinganna á að fá nýtt krabbamein síðar á ævinni og áhættan einnig sundurgreind niður eftir líffærakerfum þar sem síðar greindu æxlin kæmu fram. Ekki er unnt að fara nákvæmlega í niðurstöður vísindagreinanna hér en velkomið er að fá nánari upplýsingar um þessa vinnu hjá yfirlækni Krabbameinsskrár Íslands hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

Sem dæmi úr þessum rannsóknum er unnt að taka rannsókn á áhættu kvenna sem greinst hafa með brjóstakrabbamein á að fá annað krabbamein. Í heildina voru slíkar konur í 25% meiri áhættu á að fá annað krabbamein heldur en aðrar konur. Rétt er að ítreka að ekki er hér um að ræða að 25% kvennanna fái aftur nýtt krabbamein heldur er um að ræða að ef áhætta konu á að fá krabbamein er 1 þá er áhættan hjá konu sem áður hefur fengið brjóstakrabbamein 1,25.



Rannsóknir hafa sýnt að konur sem hafa áður fengið brjóstakrabbamein eru í 25% meiri áhættu á að fá annað krabbamein en konur sem ekki hafa greinst með krabbamein í brjósti. Það merkir að ef áhætta konu á að fá krabbamein er 1 þá er áhættan hjá konu sem áður hefur fengið brjóstakrabbamein 1,25.

Þessi áhætta var talsvert misjöfn milli staðsetningar á nýju æxli. Til dæmis eru 35% meiri líkur á magakrabbameini hjá þeim sem áður höfðu fengið brjóstakrabbamein, 22% meiri líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi, 24% meiri líkur á lungnakrabbameini, 52% á krabbameini í legslímhúð, 48% á eggjastokkakrabbameini, 27% á nýrnakrabbameini, 62% á skjaldkirtilskrabbameini og 52% meiri líkur á að fá hvítblæði en þær konur sem ekki höfðu áður greinst með brjóstakrabbamein. Líklegt er að slík áhættuaukning að greinast með nýtt krabbamein eftir greiningu brjóstakrabbameins skýrist af meðferðinni við brjóstakrabbameininu og af sameiginlegum arfgengum þáttum eða umhverfisþáttum, þó að hin almenna krabbameinsáhættuaukning bendi til að fleira geti haft þýðingu í því sambandi, svo sem betra læknisfræðilegt eftirlit meðal þeirra sem áður hafa greinst með krabbamein.

Sú spurning sem hér er borin fram er afar mikilvæg og verður sífellt þýðingarmeiri eftir því sem meðferð sjúklinga með krabbamein batnar og horfur sjúklinga verða betri. Fimm ára lífshorfur hafa meira en tvöfaldast frá því krabbameinsskráning hófst á Íslandi árið 1954. Samkvæmt Krabbameinsskrá Íslands voru á landinu í árslok 2006 alls 10.536 einstaklingar, sem einhvern tímann hafa greinst með krabbamein.

Á Vísindavefnum eru fjölmörg svör um krabbamein, til dæmis:

Myndir:

...