Þar sem krabbamein er í raun gert úr frumum einstaklingsins sem ber meinið, er útilokað að sjálft krabbameinið geti smitast milli einstaklinga. Líkamsfrumur mannsins hafa ekki möguleika á að koma sér fyrir í öðrum mannslíkama af sjálfsdáðum, eins og ýmsar örverur geta. Þannig eru krabbameinin sjálf ekki smitandi. Hins vegar tengjast örverur, svo sem bakteríur og veirur, myndun sumra krabbameina og þessar örverur geta smitast milli einstaklinga. Slíkt smit er mun algengara í þróunarlöndunum en í þróuðum löndum. Áætlað er að ef hægt væri að útrýma þeim smitsjúkdómum sem þarna koma við sögu myndi krabbameinum fækka um 26,3% í þróunarlöndunum (1,5 milljón tilfelli árlega) og um 7,7% í þróuðum löndum (390.000 tilfelli árlega). Dæmi um krabbamein sem orsakast af veirusmiti er krabbamein í leghálsi kvenna. Þetta krabbamein myndast ekki nema að undangenginni sýkingu af völdum svokallaðra vörtuveira (e. human papilloma viruses – HPV). Til eru margir stofnar af vörtuveirum og nokkrir þeirra valda leghálskrabbameini. Þess ber þó að geta að þótt sýkingar af völdum þessara stofna séu algengar, fær aðeins lítið brot sýktra kvenna krabbamein. Í flestum tilvikum læknast sýkingin fyrir tilstilli ónæmiskerfis líkamans, en af óþekktum orsökum tekst það ekki alltaf og þá leiðir sýkingin til myndunar krabbameins. Vörtuveirurnar berast milli einstaklinga við kynmök og því eru konur í þeim mun meiri hættu á smiti sem þær hafa átt fleiri rekkjunauta, eða ef þær hafa sængað hjá körlum sem hafa átt marga rekkjunauta. Aðrar mikilvægar örverur sem vitað er að koma við sögu við myndun krabbameina eru bakterían Helicobacter pylori sem tengist myndun krabbameins í maga, lifrarbólguveirur af B- og C-stofni, Epstein-Barr veiran, alnæmisveiran og einn stofn af herpesveiru. Rannsóknir á þessu sviði eru enn umtalsverðar og líklegt er að þær eigi eftir að leiða til uppgötvunar fleiri sambanda milli sýkla og myndunar krabbameina. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hversu margir greinast árlega með krabbamein á Íslandi? eftir Laufeyju Tryggvadóttur
- Af hverju fær fólk krabbamein ef það reykir? eftir Jóhannes Björnsson
- Er allt krabbamein lífshættulegt? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Hvernig er krabbamein læknað? eftir Helgu Ögmundsson
- Er líklegt að maður fái krabbamein ef margir í fjölskyldunni hafa fengið það? eftir Laufeyju Tryggvadóttur
- Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum krabbamein? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Hvernig veit maður hvort maður sé með krabbamein? eftir Helgu Ögmundsdóttur