Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sú var tíðin að litið var á krabbamein sem ólæknandi sjúkdóm og vissulega var það rétt. Margt hefur hins vegar breyst á undanförnum þremur áratugum eða svo. Nú eru ýmsar tegundir krabbameina læknanlegar og viðhorfin orðin önnur, og orðalag spurningarinnar er raunar ánægjulegur vitnisburður um það.
Fyrir nokkrum mánuðum svaraði ég svohljóðandi spurningu á Vísindavefnum: Er allt krabbamein lífshættulegt?. Ýmislegt í því svari snertir þessa nýju spurningu og lesandinn kynni því að vilja skoða það líka.
Fyrst ber að athuga að krabbamein er í raun fjölmargir ólíkir sjúkdómar sem hegða sér á mismunandi hátt, og þess vegna eiga líka mismunandi aðferðir við til lækninga. Meðferðarleiðirnar flokkast í þrennt: skurðaðgerðir, lyf og geislar.
Langalgengustu illkynja æxlin eiga uppruna sinn í þekjuvef, svo sem í mjólkurkirtlunum í brjóstum, í blöðruhálskirtli, í öndunarvegi eða meltingarvegi. Þessi æxli eru upphaflega staðbundin og þá liggur beinast við að fjarlægja þau með skurðaðgerð. Reyndar geta aðstæður verið þannig að það sé erfitt og á það til dæmis við um krabbamein í blöðruhálskirtli, en ef við tökum brjóstakrabbamein eða ristilkrabbamein sem dæmi er skurðaðgerð nánast alltaf fyrsta meðferð og er læknandi ef meinið hefur enn verið staðbundið þegar það var fjarlægt. Ef svo var ekki þarf frekari meðferð með geislum á viðkomandi líkamssvæði eða með lyfjum, en þau dreifast um allan líkamann.
Illkynja æxli í stoðkerfi líkamans (beinum eða brjóski), svokölluð sarkmein, eru sjaldgæf, en þar á skurðaðgerð líka við sem meðferð og liggur beint við til dæmis að taka viðkomandi útlim af.
Þegar æxli eru farin að sá sér um líkamann með meinvörpum á staðbundin meðferð með skurðaðgerð ekki lengur við, allavega ekki ein og sér. Sum illkynja æxli, þau sem eiga uppruna sinn í blóðmyndandi vef, eru aldrei staðbundin. Ef um er að ræða hvítblæði eru illkynja frumurnar á sveimi í blóði, en æxli sem hefjast í eitlum eru gjarnan svæðisbundin fremur en alveg staðbundin.
Þegar geislum er beint gegn illkynja æxlisvexti skiptir máli að beina geisluninni mjög nákvæmlega að svæðinu með æxlisvextinum, til að valda sem minnstum skaða á heilbrigðum vef. Tækninni við geislameðfeð hefur fleygt mjög fram á síðustu árum.
Lyfjameðferð gegn illkynja vexti er það eina sem dugir ef æxlisvöxturinn er útbreiddur. Bæði geislameðferð og lyfjameðferð byggist á því að skemma DNA-kjarnsýru eða að koma með öðrum hætti í veg fyrir að illkynja frumurnar geti skipt sér. Einnig er að koma æ betur í ljós að slík meðferð ræsir svokallaða sjálfsmorðsferla í frumunum. Einkenni illkynja frumna er hömlulaus frumufjölgun, sem þó þarf ekki endilega að vera mjög hröð. Illkynja frumur hafa svo öðlast þann eiginleika að geta fjölgað sér takmarkalaust, en lífdagar eðlilegra frumna (nema svokallaðra stofnfrumna) eru yfirleitt taldir.
Ennfremur hafa illkynja frumur oft misst hæfileikann til að drepa sig, sem er öllum frumum annars eiginlegt þegar þær hafa lokið starfsemi sinni. Vandinn við geisla- og lyfjameðferð er að þessi munur á illkynja frumum og eðlilegum er ekki nægilegur til að heilbrigðar frumur sem er eðlilegt að fjölga sér hratt, til dæmis í beinmerg og slímhúðum, sleppi óskaddaðar frá meðferðinni. Þetta lýsir sér í alvarlegum aukaverkunum sem takmarka hversu langt er unnt að ganga í meðferð.
Helga Ögmundsdóttir. „Hvernig er krabbamein læknað?“ Vísindavefurinn, 25. nóvember 2001, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1967.
Helga Ögmundsdóttir. (2001, 25. nóvember). Hvernig er krabbamein læknað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1967