Í byrjun vex sjúkdómurinn oftast staðbundið í leghálsi en dreifist síðan í aðliggjandi líffæri, svo sem upp í legbol, niður í leggöng, í aðliggjandi bandvef og út að grindarveggjum eða fram í þvagblöðruna og aftur í endaþarm. Einnig getur sjúkdómurinn dreift sér eftir sogæðum til aðliggjandi eitla eða eftir blóðæðum og þá oft til lifrar og lungna. Fyrstu einkenni sjúkdómsins eru oftast blæðingar, til dæmis við áreynslu og samfarir, eða milliblæðingar. Hjá rosknum konum getur fyrsta einkennið verið brún eða mikil hvítleit útferð. Þegar sjúkdómurinn er fremur langt genginn breytast einkennin í óþægilegan þrýsting á blöðru og endaþarm, verk sem oft leggur niður í aftanverð læri vegna þrýstings á taugar eða bjúg í fótum vegna þrýstings á sogæðar. Eftir greiningu sjúkdómsins er hann flokkaður í stig eftir því hversu útbreiddur hann er orðinn. Hann telst vera á 1. stigi ef hann er takmarkaður við leghálsinn, á 2. stigi ef hann vex út í aðliggjandi bandvef en nær ekki að grindarveggjum, á 3. stigi ef æxlisvöxtur nær að grindarveggjum og á 4. stigi ef æxlisvöxtur er inn í þvagblöðru eða endaþarm eða ef æxlið vex fyrir utan grindina. Batahorfur eru mjög háðar því á hvaða stigi sjúkdómurinn greinist. Batahorfur eru mjög góðar ef sjúkdómurinn greinist á 1. stigi en fremur litlar ef hann er kominn á 4. stig. Best er þó ef sjúkdómurinn greinist í byrjun 1. stigs, áður en einkenna fer að verða vart. Þetta er oft nefnt hulinstig sjúkdómsins og batalíkur eru nær 100%. Leit að leghálskrabbameini
Krabbameinsleit beinist að því að finna þá einstaklinga sem eru með forstig krabbameins eða eru með sjúkdóminn á hulinstigi. Leitin að leghálskrabbameini byggist á svonefndu frumustroki. Í frumunum er leitað eftir ákveðnum breytingum í kjörnum og útliti frumnanna, svokölluðum forstigsbreytingum. Þessar breytingar geta gefið til kynna hvort konan á í hættu að fá krabbamein í leghálsinn. Forstigsbreytingum leghálskrabbameins er skipt í fjögur stig. Á fyrsta stigi hafa orðið minnstar breytingar en á því fjórða eru forstigsbreytingarnar mestar og er það stig undanfari sjálfs krabbameinsins. Áhersla skal lögð á að forstigbreytingar eru ekki krabbamein. Þær eru hins vegar aðvörun um að myndast kunni leghálskrabbamein innan fárra ára ef ekkert er að gert.
Algengt er að sjúklingar með leghálskrabbamein fari í geislameðferð
Meðferð forstigsbreytinga felst í einfaldri skurðaðgerð sem kallast keiluskurður. Neðsti hluti leghálsins er þá skorinn eða brenndur burtu með leysigeisla eða hníf. Meðferð leghálskrabbameins fer eftir útbreiðslustigi sjúkdómsins við greiningu og felst aðallega í skurðaðgerðum og geislameðferð. Lyfjameðferð er frekar lítið notuð. Meðan á meðferð stendur er jafnframt fylgst grannt með hugsanlegum breytingum á stærð og dreifingu æxlisvaxtar. Ef sjúkdómurinn er á hulinstigi nægir oftast einfaldur keiluskurður eins og við forstigsbreytingar en í einstaka tilfellum þarf þó að fjarlægja legið. Ljóst er að meðferð á forstigi og hulinstigi er léttvæg miðað við þá meðferð sem þörf er á þegar sjúkdómurinn er komin á hærra stig. Þetta eykur enn frekar á mikilvægi þess að sjúkdómurinn sé greindur á forstigi. Leghálskrabbamein og HPV
Á síðari árum hefur orðið vart við fjölgun kynsjúkdómavarta (e. condylomata) meðal karla og kvenna, meðal annars hjá konum sem hafa forstigsbreytingar og byrjandi leghálskrabbamein. Þessar vörtur orsakast af veirutegund sem á ensku nefnist Human Papilloma virus (HPV). Lesa má nánar um þetta í svari sama höfundar við spurningunni: Hvernig er hægt að athuga hvort fólk sé með HPV?. Lokaorð
Árangur leghálskrabbameinsleitar hér á landi bendir ótvírætt til þess að greina megi sjúkdóminn á forstigi eða á hulinstigi svo framarlega sem konur komi reglulega í krabbameinsleit. Miðað er við að konur fari í skoðun á að minnsta kosti tveggja ára fresti. Þar sem sterk tengsl eru milli leghálskrabbameins og HPV-veirunnar sem smitast við samfarir, er vert að benda á að draga má úr hættu á slíku smiti með því að stunda öruggt kynlíf og nota smokk. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hversu margir greinast árlega með krabbamein á Íslandi? eftir Laufeyju Tryggvadóttur
- Af hverju fær fólk krabbamein ef það reykir? eftir Jóhannes Björnsson
- Er allt krabbamein lífshættulegt? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Hvernig er krabbamein læknað? eftir Helgu Ögmundsson
- Er líklegt að maður fái krabbamein ef margir í fjölskyldunni hafa fengið það? eftir Laufeyju Tryggvadóttur
- Koma fram æxli í öllum tegundum krabbameins? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum krabbamein? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Hver er munurinn á bakteríu og veiru? Eru sýklar og bakteríur það sama? eftir Evu Benediktsdóttur
- Hvers vegna gengur erfiðlega að finna og þróa lyf sem virka á veirusýkingar? eftir Hilmar Hilmarsson
Þetta svar birtist fyrst á vefsetrinu Doktor.is og birtist hér með góðfúslegu leyfi í lítillega breyttri og styttri útgáfu.