Herpes-veiran getur valdið hvimleiðum útbrotum.
Dæmi um vel hannað veirulyf er acyclovir, en það hindrar eftirmyndunarferli herpesveiru í hýsilfrumum. Þetta lyf virkar aðeins í veirusýktum frumum þar sem það þarf veiruensím til að lyfið verði virkt. Það er því nær skaðlaust ósýktum frumum. Í dag eru því miður komnir fram skæðir stökkbreyttir herpesveirustofnar sem acyclovir virkar ekki á. Annað dæmi um veirulyf eru tvö helstu inflúensulyfin, zanamivir (relenza) og oseltamivir (tamiflu). Báðum þessum lyfjum er beint gegn ákveðnu yfirborðsensími sem inflúensuveiran hefur. Lömun þessa ensíms hindrar að nýjar veiruagnir geti klofnað frá sýktum frumum og þar með er hægt að hefta sýkingar til nærliggjandi frumna. Hins vegar hafa komið fram stökkbreyttir stofnar inflúensu sem þessi lyf virka ekki á. Þriðja dæmið um veirulyf má svo nefna í sambandi við baráttuna gegn HIV-veirunni sem veldur alnæmi. Flest lyf sem beint er gegn HIV-veirunni hindra ákveðið ensím sem veiran hefur í sér og víxlritar erfðaefni sitt með. Slíkt ensím á sér hins vegar ekki hliðstæðu í frumum líkamans. Líkt og aðrar veirur getur hún þó stökkbreyst og er hún því orðin ónæm gegn mörgum þessara lyfja. Miklar framfarir á lyfjum gegn veirusýkingum
Síðustu 20 árin hefur orðið mikil aukning í rannsóknum á veirulyfjum, ekki síst vegna uppgötvunar á HIV-veirunni og rannsókna á lyfjum gegn henni. Árið 2004 voru 37 veirulyf skráð og af þeim voru 19 virk gegn HIV-veirunni. Með ört vaxandi tækni í erðafræði- og lífvísindarannsóknum er ekki ólíklegt að á næstu 10 árum eigi þessar tölur eftir að tvöfaldast. Þó svo að efni finnist sem hugsanlega gætu nýst sem veirulyf, er langur vegur þangað til þau komast á markað. Efnin þurfa að fara í gegnum ströng rannsóknarferli sem eru mjög kostnaðarsöm og kanna þarf í þaula hvernig þau virka gegn veirunni og í hvaða skammtastærðum þau eru skaðlaus hýsilfrumum. Rannsóknarstofur sem mega rannsaka hættulegar veirur eins og HIV þurfa að uppfylla strangar öryggiskröfur hvað varðar öryggi starfsfólks og því fylgir aukinn kostnaður. Annað sem setur einnig strik í reikninginn er stökkbreytihraði veira. Veirur hafa tilhneigingu til að stökkbreytast og verða ónæmar fyrir lyfjum og er þetta vaxandi vandamál í lyfjaiðnaðnum. Það má því segja að uppgötvun efna sem hugsanlega gætu nýst sem veirulyf sé ekki mesta hindrunin, heldur að koma slíkum efnum í gegnum þær flóknu og dýru rannsóknir sem þarf til að koma lyfi á markað. Ónæmi gegn lyfjum vegna stökkbreytinga í veirum mun einnig ávallt standa lyfjaþróun fyrir þrifum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er munurinn á bakteríu og veiru? Eru sýklar og bakteríur það sama? eftir Evu Benediktsdóttur
- Hvað eru klínískar rannsóknir? eftir Magnús Jóhannsson
- Hvað er inflúensa? eftir Gunnar Björn Gunnarsson
- Hvað er vitað um munnangur og er til lækning við því? eftir Magnús Jóhannsson
- Er hugsanlegt að nota HIV-veiruna sem genaferju til að breyta erfðaefni sjúklinga með arfgenga sjúkdóma? eftir Helgu Bjarnadóttur og Jón Jóhannes Jónsson