Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Munnangur er sár í munni og getur ýmist verið um einstakt, afmarkað tilfelli að ræða eða sár sem kemur aftur æ ofan í æ. Hér verður fjallað um síendurtekin tilfelli af munnangri. Frekari umfjöllun um munnangur má finna á doktor.is.
Orsakir munnangurs eða munnsára sem koma aftur og aftur geta verið fjölmargar. Meðal algengustu orsaka má nefna áblástur í munni (herpes), síendurtekið munnangur (aphthous stomatitis), sárasótt (sýfilis), lekanda, berkla, þrusku (sveppasýkingu), regnbogaroðasótt, blöðrusótt (pemphigus), flatskæning (lichen planus) og rauða úlfa. Flestir þessara sjúkdóma hafa ýmis önnur einkenni annars staðar á líkamanum. Ef sjúkdómurinn veldur síendurteknum sárum í munni og engum sjúkdómseinkennum annars staðar í líkamanum er líklegast að um geti verið að ræða annaðhvort áblástur í munni eða síendurtekið munnangur.
Hér má sjá áblástur í munni eða herpes.
Áblástur eða herpes er sýking sem stafar af herpesveirum og er oftast staðsett á vörum og umhverfis munn. Áblástur getur þó verið staðsettur á ýmsum öðrum stöðum og má þar nefna kynfæri og munnhol. Áblástur í munni er oftast staðsettur á eða nálægt harða gómnum og byrjar með mörgum litlum blöðrum sem springa og renna saman í stórt, óreglulegt sár, eitt eða fleiri. Umhverfis sárin er mikill roði og snerting veldur sársauka. Sárin geta staðið í viku en sjaldan meira en 10 daga. Hægt er að stytta tímann og draga úr óþægindunum með lyfjagjöf en engin varanleg lækning er þekkt.
Síendurtekið munnangur lýsir sér með sárum sem eru venjulega staðsett innan á kinnum eða vörum, á tungu, í munnbotni, mjúka gómnum eða koki. Þetta eru eitt eða mörg sár sem geta verið mörg í þyrpingum eða stök sár allt að 1,5 cm í þvermál. Lítill roði er umhverfis sárin, þau eru sársaukafull í 3-4 daga en læknast á 1-2 vikum. Sárin koma aftur og aftur, stundum um það bil mánaðarlega eða nokkrum sinnum á ári og geta verið allt að 10-15 talsins í hvert sinn. Þessi sjúkdómur er algengari hjá konum en körlum og orsök hans er óþekkt en grunsemdir beinast að eins konar staðbundnu svari ónæmiskerfisins án þess að um sé að ræða ofnæmi fyrir einhverju sérstöku. Ekkert læknisráð er þekkt sem læknar þennan sjúkdóm en talið er að skortur á járni, B12-vítamíni og fólínsýru geti gert hann verri. Hægt er að draga úr óþægindunum með staðbundinni lyfjameðferð, meðal annars staðdeyfilyfjum og sterum. Bæði áblástur og síendurtekið munnangur hafa tilhneigingu til að koma þegar eitthvað bjátar á eins og til dæmis umgangspestir eða streita.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Magnús Jóhannsson. „Hvað er vitað um munnangur og er til lækning við því?“ Vísindavefurinn, 5. september 2000, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=874.
Magnús Jóhannsson. (2000, 5. september). Hvað er vitað um munnangur og er til lækning við því? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=874
Magnús Jóhannsson. „Hvað er vitað um munnangur og er til lækning við því?“ Vísindavefurinn. 5. sep. 2000. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=874>.