Kossageit byrjar oftast sem litlar blöðrur sem rofna auðveldlega og við það myndast gulleitt hrúður sem situr fast. Útbrotin eru algengust í andliti og á höndum. Stöku sinnum geta margar litlar blöðrur runnið saman og getur þá myndast stórt svæði þakið gulleitu hrúðri. Oft fylgir þessu kláði og er hætta á að sýkingin breiðist út ef viðkomandi klórar sér. Engir verkir eru á sýkingarsvæðinu og önnur einkenni eru lítil sem engin. Sýkingin gengur yfir án örmyndunar.
Hér sést hvernig einkenni kossageitar geta litið út.
Kossageit smitast auðveldlega og smit innan fjölskyldu og í daggæslu barna er vel þekkt vandamál. Bakterían kemst á fingur og hendur þegar komið er við útbrotin og þannig berst smitið áfram til annarra. Smit getur einnig borist á milli með hlutum, til dæmis leikföngum og handklæðum. Greining
Greining fæst í flestum tilfellum við skoðun hjá lækni. Hægt er að taka sýni úr útbrotunum og setja í rannsókn. Þar eru ræktaðar upp bakteríurnar úr sýninu og þannig fæst vitneskja um hvaða baktería veldur sýkingunni og um næmi hennar við sýklalyfjum. Meðferð
Oft er engin þörf á sýklalyfjameðferð heldur nægir að þvo útbrotin með vatni og sápu, mýkja hrúðrið og fjarlægja það varlega. Ef sú meðferð dugar ekki má nota sýkladrepandi krem (Fucidin eða Topicin), en þó er vel þekkt að bakteríurnar séu ónæmar gegn þeim lyfjum. Ef kossageit er mjög útbreidd getur sýklalyfjameðferð með töflum eða eða lyfi á fljótandi formi reynst nauðsynleg. Forvarnir
Ekki er til bóluefni gegn kossageit og er besta forvörnin hreinlæti og góður handþvottur. Aðgerðir til að forðast smit
Góður handþvottur ásamt því að nota alltaf sitt eigið handklæði eða einnota pappírsþurrkur er mjög mikilvægur þáttur í að stöðva útbreiðslu smits. Einnig er mikilvægt að klippa neglur á höndum en bakteríur geta leynst og dafnað undir nöglum. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Hver er munurinn á bakteríu og veiru? Eru sýklar og bakteríur það sama? eftir Evu Benediktsdóttur
- Hvað er og hvernig verkar penisilín? eftir Berglindi Júlíusdóttur
- Hvað er MÓSA-smit? eftir Sigríði Antonsdóttur
- Hvað er vitað um munnangur og er til lækning við því? eftir Magnús Jóhannsson
- Hvað er í brunablöðrum á húðinni? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Af hverju fær maður blöðrur? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
Þetta svar er tekið af vefsetrinu Doktor.is og birt hér með góðfúslegu leyfi.