Sárasótt smitar venjulega um slímhúð kynfæra við samfarir, en getur einnig smitað um aðrar slímhúðir svo sem í munnholi og endaþarmi. Dæmi eru um að smit komist í gegnum húð til dæmis á fingrum. Sýkt móðir getur einnig smitað fóstur sitt á meðgöngu. Einkenni
Fyrstu einkenni sárasóttar eru eitt eða fleiri hörð, eymslalaus, vessandi sár, sem eru um 3-10 mm í þvermál. Sárin koma oft fram 1-6 vikum eftir smit á þeim stað þar sem bakterían komst inn í líkamann. Oft er erfitt að finna sárið ef það er inni í leggöngum, við endaþarminn eða inni í þvagrás, en þessi sár eru oftast sársaukalaus. Ef engin meðferð er gefin hverfur sárið af sjálfu sér eftir 3-6 vikur. Þótt sárin hverfi er bakterían samt sem áður lifandi í líkamanum. Eftir 1-3 mánuði kemur sjúkdómurinn oft fram aftur og þá sem útbrot á húðinni. Þessu getur fylgt hiti, flökurleiki, þreyta, liðverkir og hárlos. Jafnvel þessi einkenni geta þó horfið án meðferðar.
Hér sést hinn gormlaga sýkill Treponema pallidum sem veldur sárasótt
Ef sárin eru vessandi er hægt að taka sýni beint úr þeim og skoða þau í smásjá þar sem bakteríurnar sjást. Algengara er þó að taka þurfi blóð, en mótefni greinast í blóðinu nokkrum vikum eftir smit. Ef tekið er penisilín í ófullnægjandi skömmtum getur sýkillinn leynst í marga mánuði áður en hægt er að greina hann í blóðprufum. Meðferð
Sárasótt er læknuð með penisilíni sem oftast er gefið með sprautum í 10-17 daga. Eftir að meðferð lýkur verður að hafa nákvæmt eftirlit með smituðum einstaklingum og þarf þá að taka blóðprufur á nokkurra mánaða fresti í að minnsta kosti eitt ár. Allir rekkjunautar viðkomandi einstaklings verða að koma í skoðun þar sem afleiðingar sjúkdómsins geta verið alvarlegar. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Er hollt að stunda kynlíf? eftir Sóleyju S. Bender
- Hvernig getur klamydía smitast? eftir Landlæknisembættið
- Er hægt að fá klamydíu í munninn? eftir MBS
- Hvaða sjúkdómar eru algengastir í þróunarlöndunum? eftir Ulriku Andersen og Ólaf Pál Jónsson
- Duga smokkar alltaf? eftir EDS
Svar þetta birtist upphaflega á vef Landlæknisembættis Íslands og er birt hér með góðfúslegu leyfi.
Hér var einnig svarað spurningunni:
Hver er gerð sýkilsins sárasóttar sýkilsins?