Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvert er helsta hlutverk nýrna og hvaða líffæri tengjast þeim?
Við efnaskipti næringarefna mynda frumur úrgangsefni: koltvíoxíð, aukavatn og varma. Að auki verða til eitruð nitursambönd eins og ammóníak og þvagefni við sundrun prótína. Ennfremur hafa lífsnauðsynlegar jónir, eins og natrín (Na+), klóríð (Cl-), súlfat (SO42-), fosfat (HPO42-) og vetnisjónir (H+) tilhneigingu til að safnast fyrir.
Öllum úrgangsefnum og nauðsynlegum efnum sem verða afgangs þarf að þveita úr líkamanum til að viðhalda samvægi. Nýrun eru ein helstu þveitislíffæri líkamans en önnur eru lungun, svitakirtlar húðar og meltingarvegurinn.
Nýrun eru tvö, staðsett í kviðarholinu aftur við hrygginn til móts við efstu lendarliðina. Þau tilheyra svokölluðu þvagkerfi sem sér um að viðhalda jafnvægi með því að stjórna samsetningu og rúmmáli blóðs. Auk nýrna samanstendur þvagkerfið af tveimur þvagpípum, þvagblöðru og þvagrás.
Nýrun gegna nokkrum mikilvægum störfum:
Þau stýra efnasamsetningu blóðs og rúmmáli og fjarlægja úrgangsefni úr því. Í ferlinu myndast þvag. Nýrun þveita einnig tilteknu magni af ýmsum úrgangsefnum, þar með töldu umframmagni af vetnisjónum, sem stuðlar að stjórnun sýrustigs í blóðinu.
Þau hjálpa til við að stjórna blóðþrýstingi með því að seyta ensíminu reníni sem virkjar svokallað renín-angíótensín ferli sem leiðir til hækkunar blóðþrýstings.
Þau taka þátt í efnaskiptum með því að (1) mynda nýjar glúkósasameindir þegar fasta eða hungursneyð stendur yfir, (2) seyta rauðkornavaka, hormóni sem örvar framleiðslu á rauðkornum og (3) taka þátt í myndun D-vítamíns.
Þvagi er þveitt úr hvoru nýra um sína þvagpípu og berst eftir henni í þvagblöðru þar sem því er safnað þar til kemur að þvaglátum. Þá berst þvagið úr þvagblöðru í þvagrás og með henni út úr líkamanum.
Nýrun eru því lífsnauðsynleg. Hægt er að lifa góðu lífi með eitt heilt nýra en ef bæði nýrun bila, til dæmis vegna sýkingar eða áverka, safnast þvagefni og önnur úrgangsefni fyrir í blóðinu. Sé ekkert að gert leiðir það til dauða.
Heimild:
Tortora, Gerard J. (1997): Introduction to the Human Body - The Essentials of Anatomy and Physiology. Menlo Park, California: Benjamin Cummings.
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hversu nauðsynleg eru nýrun?“ Vísindavefurinn, 22. september 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3748.