Er megalodon ekki hættulegur? Útaf því hann er ekki á hættulega listanum.Höfundur þessa svars veit ekki til hvaða hættulega lista fyrirspyrjandi er að vísa til en við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af þessum stórvaxna hákarli nú á dögum þar sem tegundin dó út fyrir um 3,6 milljón árum. Otodus megalodon, sem á íslensku mætti kannski kalla stórtanna, er aðeins þekktur á tönnum sem hafa fundist í jarðlögum. Þessar tennur eru geysistórar og þær gefa til kynna að líklega hafi megalodon verið risi að stærð. Hversu stór hann var munum við þó sennilega aldrei vita fyrir víst en vísindamenn hafa áætlað líkamsstærðina út frá tönnunum og miðað við hvíthákarlinn (Carcharodon carcharias) sem er skyld tegund. Líklega hafa stærstu megalodon getað orðið allt að 18 metrar á lengd en algengast að hákarlar þessarar tegundar hafi verið nokkuð minni eða rúmir tíu metrar. Til samanburðar má geta þess að stærstu hvíthákarlar mælast rúmlega 6 metrar langir.
- Boessenecker, R. W. o.fl. (2019). The Early Pliocene extinction of the mega-toothed shark Otodus megalodon: a view from the eastern North Pacific. PeerJ, 7, e6088.
- Pimiento, C. og Balk, M.A. (2015). Body-size trends of the extinct giant shark Carcharocles megalodon: a deep-time perspective on marine apex predators. Paleobiology, 41(3), 479–490.
- Yabe, H. o.fl. (2004). Age of Carcharocles megalodon (Lamniformes: Otodontidae): A review of the stratigraphic records. The Palaeontological Society of Japan. 75: 7–15.
- Mynd: Megalodon tooth with great white sharks teeth-3-2.jpg - Wikimedia Commons. Birt undir CC BY-SA 3.0 leyfi. (Sótt 14.7.2020).