Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna dó risahákarlinn megalodon út?

Jón Már Halldórsson

Fyrir fáeinum milljónum ára syntu í úthöfunum stórvaxnir hákarlar af tegund sem á fræðimáli nefnist Otodus megalodon, Carcharodon megalodon eða Carcharocles megalodon. Þessir hákarlar voru náskyldir hinum alræmda hvíthákarli eða hvítháfi (Carcharodon carcharias) sem er eina núlifandi tegund Carcharodon-ættkvíslarinnar og stærstur svokallaðra ránhákarla.

Vitað er að megalodon var töluvert stærri en hvíthákarlinn. Reyndar er aðeins hægt að leggja gróft mat á stærð hans þar sem einungis hafa fundist tennur en lítið af öðrum leifum. Með því að bera stærð tannanna við tennur hvítháfa hafa vísindamenn áætlað að þessi hákarl hafi verið sannkallaður risaháfur. Sumir ganga svo langt að telja hann hafa verið allt að 20 metrar á lengd og yfir 40 tonn að þyngd, þótt flestir hallist að því að hann hafi verið nokkuð minni eða 10-18 m. Um útlit megalodons er ekkert vitað með vissu en vegna samsvörunar við tennur hvíthákarls hafa vísindamenn getið sér þess til að hann hafi verið líkur honum í útliti.

Samanburður á stærð megalodons (Otodus megalodon), hvítháfs (Carcharodon carcharias), hvalháfs (Rhincodon typus - stærsti háfiskur heims) og manns.

Vegna þess að tennur sem fundist hafa á hafsbotni eru einu vísbendingarnar um tilvist megalodons er erfitt að segja til um það hvers vegna þessi risahákarl hvarf af sjónarsviðinu. Tennur megalodons hafa fundist í öllum heimshöfum sem bendir til að hann hafi verið mjög útbreiddur á sínum tíma. Tegundir sem eru svo útbreiddar eiga mun meiri möguleika á því að lifa af miklar umhverfisbreytingar en þær sem hafa mjög litla útbreiðslu. Það er því líklegt að margþættar breytingar á vistkerfi heimshafanna hafi stuðlað að því að megalodon hvarf af sjónarsviðinu. Reyndar hefur þeirri hugmynd einnig verið kastað fram að hann hafi einfaldlega þróast áfram í hvíthákarla og sé því beinn forfaðir þeirra, en fæstir líffræðingar sem um þessi mál fjalla eru á þeirri skoðun.

Yfirleitt er talið að megalodon hafi verið kominn fram fyrir að minnsta kosti 16 milljón árum, og jafnvel fyrr, en horfið af sjónarsviðinu fyrir 3,6 milljón árum. Á þessum tíma í jarðsögunni, seinni hluta míósen og plíósen, urðu töluverðar breytingar. Meginlöndin héldu áfram reki sínu, meðal annars hélt Indlandsflekinn áfram að rekast á Asíuflekann með myndun Himalajafjallgarðsins og Afríkuflekinn rakst á Evrópuflekann en með því lauk sögu Tethyshafsins þó enn megi sjá leifar þess; Miðjarðarhaf, Svartahaf og Kaspíahaf. Norður- og Suður-Ameríka tengdust með Panamaeiðinu en við það varð núverandi Golfstraumur til.

Þessar miklu breytingar á afstöðu landmassanna höfðu umtalsverð áhrif á hafstrauma, vinda og úrkomu og einnig fylgdu breytingar á grunnsævi meginlandanna. Loftslag á jörðinni kólnaði verulega og undir lok þess tíma sem megalodon lifði var ísöld að ganga í garð. Miklir jökulskildir höfðu myndast á pólsvæðunum, og yfirborð sjávar lækkaði um allt að 200 metra með þeim afleiðingum að grunnsævi hurfu. Allt hafði þetta mikil áhrif á vistkerfi sjávar og þar með þær lífverur sem þar þrifust.

Tönn úr megalodon ásamt tveimur tönnum úr hvíthákarli til samanburðar.

Það má velta fyrir sér af hverju megalodon dó út en ekki aðrar tegundir af Carcharodon-ættkvíslinni. Skýringin liggur sennilega í vistfræðilegri stöðu hans, hann var risavaxinn hákarl sem var háður því að veiða stóra bráð. Þær tegundir hákarla sem nálgast hann að stærð og nú lifa, hvalháfur og beinhákarl, eru hins vegar svifætur. Þær miklu breytingar á veðurfari og aðstæðum í sjónum sem áður eru nefndar höfðu áhrif á búsvæði og þar með afkomu helstu veiðidýra megalodons með þeim afleiðingum að þeim fækkaði og tegundir dóu út. Fæðuframboð fyrir megalodon minnkaði og eins kann að vera að hann hafi ekki þrifist eins vel í kólnandi sjó.

Saga lífsins er uppfull af dæmum um stórar og öflugar kjötætur sem hurfu vegna breytinga í vistkerfinu, svo sem hinn stórvaxni ógnarúlfur (Canis dirus) í Ameríku og hellaljónið (Panthera leo spelea) í Evrópu. Líklega var það einnig hlutskipti megalodons. Minna fæðuframboð og aðrar breytingar í vistkerfi hákarlsins hafa sjálfsagt átt stóran þátt í því að hann hvarf af sjónarsviðinu fyrir meira en milljón árum.

Heimild og myndir:


Í heild hljóðaði spurningin svona:
Ég var að horfa á þátt sem fjallaði um risahákarl sem heitir megalodon og lifði fyrir nokkur þúsund árum. Mig langar að vita meira um hann og af hverju hann dó út. Og voru hákarlategundirnar sem eru uppi núna þá til og ef svo er af hverju lifðu þær þá af það sem drap megalodon?

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

22.7.2008

Síðast uppfært

5.5.2022

Spyrjandi

Lovísa Sigurjónsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvers vegna dó risahákarlinn megalodon út?“ Vísindavefurinn, 22. júlí 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=48176.

Jón Már Halldórsson. (2008, 22. júlí). Hvers vegna dó risahákarlinn megalodon út? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=48176

Jón Már Halldórsson. „Hvers vegna dó risahákarlinn megalodon út?“ Vísindavefurinn. 22. júl. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=48176>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna dó risahákarlinn megalodon út?
Fyrir fáeinum milljónum ára syntu í úthöfunum stórvaxnir hákarlar af tegund sem á fræðimáli nefnist Otodus megalodon, Carcharodon megalodon eða Carcharocles megalodon. Þessir hákarlar voru náskyldir hinum alræmda hvíthákarli eða hvítháfi (Carcharodon carcharias) sem er eina núlifandi tegund Carcharodon-ættkvíslarinnar og stærstur svokallaðra ránhákarla.

Vitað er að megalodon var töluvert stærri en hvíthákarlinn. Reyndar er aðeins hægt að leggja gróft mat á stærð hans þar sem einungis hafa fundist tennur en lítið af öðrum leifum. Með því að bera stærð tannanna við tennur hvítháfa hafa vísindamenn áætlað að þessi hákarl hafi verið sannkallaður risaháfur. Sumir ganga svo langt að telja hann hafa verið allt að 20 metrar á lengd og yfir 40 tonn að þyngd, þótt flestir hallist að því að hann hafi verið nokkuð minni eða 10-18 m. Um útlit megalodons er ekkert vitað með vissu en vegna samsvörunar við tennur hvíthákarls hafa vísindamenn getið sér þess til að hann hafi verið líkur honum í útliti.

Samanburður á stærð megalodons (Otodus megalodon), hvítháfs (Carcharodon carcharias), hvalháfs (Rhincodon typus - stærsti háfiskur heims) og manns.

Vegna þess að tennur sem fundist hafa á hafsbotni eru einu vísbendingarnar um tilvist megalodons er erfitt að segja til um það hvers vegna þessi risahákarl hvarf af sjónarsviðinu. Tennur megalodons hafa fundist í öllum heimshöfum sem bendir til að hann hafi verið mjög útbreiddur á sínum tíma. Tegundir sem eru svo útbreiddar eiga mun meiri möguleika á því að lifa af miklar umhverfisbreytingar en þær sem hafa mjög litla útbreiðslu. Það er því líklegt að margþættar breytingar á vistkerfi heimshafanna hafi stuðlað að því að megalodon hvarf af sjónarsviðinu. Reyndar hefur þeirri hugmynd einnig verið kastað fram að hann hafi einfaldlega þróast áfram í hvíthákarla og sé því beinn forfaðir þeirra, en fæstir líffræðingar sem um þessi mál fjalla eru á þeirri skoðun.

Yfirleitt er talið að megalodon hafi verið kominn fram fyrir að minnsta kosti 16 milljón árum, og jafnvel fyrr, en horfið af sjónarsviðinu fyrir 3,6 milljón árum. Á þessum tíma í jarðsögunni, seinni hluta míósen og plíósen, urðu töluverðar breytingar. Meginlöndin héldu áfram reki sínu, meðal annars hélt Indlandsflekinn áfram að rekast á Asíuflekann með myndun Himalajafjallgarðsins og Afríkuflekinn rakst á Evrópuflekann en með því lauk sögu Tethyshafsins þó enn megi sjá leifar þess; Miðjarðarhaf, Svartahaf og Kaspíahaf. Norður- og Suður-Ameríka tengdust með Panamaeiðinu en við það varð núverandi Golfstraumur til.

Þessar miklu breytingar á afstöðu landmassanna höfðu umtalsverð áhrif á hafstrauma, vinda og úrkomu og einnig fylgdu breytingar á grunnsævi meginlandanna. Loftslag á jörðinni kólnaði verulega og undir lok þess tíma sem megalodon lifði var ísöld að ganga í garð. Miklir jökulskildir höfðu myndast á pólsvæðunum, og yfirborð sjávar lækkaði um allt að 200 metra með þeim afleiðingum að grunnsævi hurfu. Allt hafði þetta mikil áhrif á vistkerfi sjávar og þar með þær lífverur sem þar þrifust.

Tönn úr megalodon ásamt tveimur tönnum úr hvíthákarli til samanburðar.

Það má velta fyrir sér af hverju megalodon dó út en ekki aðrar tegundir af Carcharodon-ættkvíslinni. Skýringin liggur sennilega í vistfræðilegri stöðu hans, hann var risavaxinn hákarl sem var háður því að veiða stóra bráð. Þær tegundir hákarla sem nálgast hann að stærð og nú lifa, hvalháfur og beinhákarl, eru hins vegar svifætur. Þær miklu breytingar á veðurfari og aðstæðum í sjónum sem áður eru nefndar höfðu áhrif á búsvæði og þar með afkomu helstu veiðidýra megalodons með þeim afleiðingum að þeim fækkaði og tegundir dóu út. Fæðuframboð fyrir megalodon minnkaði og eins kann að vera að hann hafi ekki þrifist eins vel í kólnandi sjó.

Saga lífsins er uppfull af dæmum um stórar og öflugar kjötætur sem hurfu vegna breytinga í vistkerfinu, svo sem hinn stórvaxni ógnarúlfur (Canis dirus) í Ameríku og hellaljónið (Panthera leo spelea) í Evrópu. Líklega var það einnig hlutskipti megalodons. Minna fæðuframboð og aðrar breytingar í vistkerfi hákarlsins hafa sjálfsagt átt stóran þátt í því að hann hvarf af sjónarsviðinu fyrir meira en milljón árum.

Heimild og myndir:


Í heild hljóðaði spurningin svona:
Ég var að horfa á þátt sem fjallaði um risahákarl sem heitir megalodon og lifði fyrir nokkur þúsund árum. Mig langar að vita meira um hann og af hverju hann dó út. Og voru hákarlategundirnar sem eru uppi núna þá til og ef svo er af hverju lifðu þær þá af það sem drap megalodon?
...