Getið þig sagt mér frá öllu sem fer fram við fæðingur hvítháfa, þyngd, stærð, lengd, hver sér um þá og allt í þá veruna?
Það er skepna á lífi í dag sem hefur lifað af í milljónir ára án breytinga. Hún lifir til að drepa, hugsunarlaus átvél sem ræðst á allt og tætir allt í sundur. Það er líkt og guð hafi skapað djöfulinn og gefið honum kjálka.Þessi tilvitnun er úr Jaws, kvikmynd Stevens Spielbergs frá 1975 um hvíthákarl sem herjaði á fólk úti fyrir strandbæ í Bandaríkjunum. Margt í þessari lýsingu á vel við hvíthákarlinn eða hvítháfinn (Carcharodon carcharias) eins og hann er einnig nefndur. Hvíthákarlinn er um margt sérstakur. Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hvenær hann kom fram á sjónarsviðið en hann er forn skepna. Margar tegundir frá miðlífsöld höfðu líklega sambærilegt svipmót og útlit og hvítháfurinn. Hvítháfurinn er eina eftirlifandi tegund Carcharodon-ættkvíslarinnar og stærstur svokallaðra ránhákarla. Hann getur orðið rúmir 6 metrar á lengd og vegið allt að 2 tonn. Hvíthákarlar finnast á grunnsævi um allan heim þar sem sjávarhitinn er á bilinu 12-30°C. Þeir er þó algengari á ákveðnum svæðum en öðrum, svo sem á grunnsævi undan ströndum suður Ástralíu, við Suður-Afríku, Kaliforníu, beggja megin við Mexíkó, í Miðjarðarhafi og í Adríahafi.
Hvíthákarlar eru miklir flakkarar. Nýlegar rannsóknir leiddu í ljós að hvíthákarlar sem lifa úti fyrir Baja Kaliforníu í Mexíkó flakka til Hawaii þar sem þeir dvelja í um 100 daga áður en þeir snúa aftur austur á bóginn til Baja. Með rafeindamerkjum sem sett voru á nokkur dýr var hægt að skoða atferli þeirra á sundi. Þá kom í ljós að á ferðalaginu austur að meginlandi Norður-Ameríku synda hvítháfar hægt og kafa reglulega niður á allt að 900 metra dýpi. Þegar þeir komast á leiðarenda breytist atferli þeirra, þeir kafa ekki eins mikið og fara í mesta lagi niður á 300 metra dýpi í um 10 mínútur. Hvíthákarlar sem lifa við Suður-Afríku sýna svipaða fartilhneigingu en þeir synda um 20 þúsund km leið austur til Ástralíu og aftur til baka á níu mánaða tímabili. Vísindamenn eru ekki vissir um ástæður þessara ferða hvíthákarlanna en sennilega á æxlun og/eða fæða þar stóran hlut að máli. Frjóvgun hvítháfa fer fram innvortis og klekjast eggin í legi kvendýrsins eins og hjá öðrum tegundum innan hámeraættar (Lamnidae). Þegar ungviðið klekst út er það rúmlega 110 cm á lengd og venjulega eru fimm til tíu hákarlar í hverju klaki. Ungviðið nærist á ófrjóvguðum eggjum í leginu meðan á meðgöngu stendur en ekki hafa fundist beinar sannanir fyrir því að þau éti hvert annað. Gotið á sér sennilega stað seint á vorin eða snemma á sumrin og er ungviðið þá á bilinu 130-150 cm á lengd. Strax við got er ungviðið fullfært um að veiða sjálft smærri fiska enda komið með tiltölulega öflugar tennur. Móðirin skiptir sér ekkert af afkvæmunum eftir að þau eru komin í heiminn. Ungviðið vex hratt fyrsta árið og er venjulega orðið rúmlega tveir metrar eftir fyrsta árið. Það er sennilega breytilegt eftir kyni hvenær hvíthákarlar verða kynþroska, karldýrin við 8-9 ára aldur, þá um 3,8 metrar að lengd en kvendýrin við 12-15 ára aldur, þá um 5 metrar að lengd.
- Francis, M. P., 1996. Observations on a pregnant white shark with a review of reproductive biology. Í: A. P. Klimley og D. G. Ainley (ritstj.), Great White Sharks. The Biology of Carcharodon carcharias. Academic Press, San Diego, bls. 157-172.
- Strong, W. R., 1996. A study of shape discrimination and visual predatory tactics in white sharks. Í: A. P. Klimley og D. G. Ainley (ritstj.), Great White Sharks. The Biology of Carcharodon carcharias. Academic Press, San Diego, bls. 229-240.
- Ichthyology at the Florida Museum of Natural History
- Great White Shark - Flickr.com. (Sótt 4.5.2022).
Á Vísindavefnum eru fjölmörg önnur svör um hvítháfa og aðra hákarla. Hægt er að finna þau með því að smella á efnisorð hér fyrir neðan eða nota leitarvél Vísindavefsins.