Hvítháfur.
Tvær tegundir koma næstar og eru þessar þrjár tegundir í sérflokki hvað varðar árásartíðni. Tígrisháfur (Galeocerdo cuvieri) er skæður mönnum og næstur kemur nautháfurinn (e. bull shark, Carcharhinus leucas). Þessar tegundir eiga það sameiginlegt að hafa mikla útbreiðslu í heimshöfunum, yfirráðasvæði þeirra skarast við athafnasvæði mannsins, þær verða gríðarstórar og éta sjávarspendýr reglulega. Hér fyrir neðan er tafla yfir tíu hættulegustu hákarlategundirnar samkvæmt tölfræði ISAF, International Shark Attack File. Starfsmenn ISAF gera þó fyrirvara um þessar tölur. Þrjár fyrrnefndar tegundir eru vissulega hættulegastar en eru auðþekkjanlegri en ýmsar aðrar tegundir hákarla sem líklega koma við sögu í fleiri árásum en gefið er upp.
Skráðar tilefnislausar árásir hákarla eftir tegundum á árunum 1580-2000 (10 hættulegustu tegundirnar) | ||||
Tegund | Fræðiheiti | Enskt heiti | Heildarfjöldi tilefnislausra árása | Banvænar tilefnislausar árásir |
Hvítháfur | Carcharodon carcharias | (great) white shark | 254 | 69 |
Tígrisháfur | Galeocerdo cuvier | tiger shark | 91 | 29 |
Nautháfur | Carcharhinus leucas | bull shark | 66 | 20 |
Strandháfur | Carcharias taurus | sand tiger shark | 36 | 0 |
Svartuggi | Carcharhinus limbatus | blacktip shark | 28 | 0 |
Mannætuháfur* | Carcharhinus spp. | requiem sharks | 31 | 9 |
Sleggjuháfur† | Sphyrna spp. | hammerhead sharks | 21 | 2 |
Bláháfur | Prionace glauca | blue shark | 16 | 3 |
Makrílháfur | Isurus oxyrinchus | shortfin mako | 12 | 2 |
Spunaháfur | Carcharhinus brevipinna | spinner shark | 13 | 0 |
† Ættkvísl misstórra og mishættulegra hákarlategunda. Þess má svo geta að tvær stærstu tegundir hákarla (og fiska) eru hættulausar mönnum. Hvalháfurinn og beinhákarlinn lifa aðallega á dýrasvifi og smáum fisktegundum.
Fífldjarfur kafari syndir að tígrisháf.
Vísindamenn telja að helsta ástæðan fyrir árásum hákarla á menn sé sú að þeir ruglist á okkur og hefðbundinni fæðu sinni. Menn eru ekki á hinum venjulega „matseðli“ hákarla frekar en annarra dýra. Fólk sem verður fyrir árás er oftast að slá fótunum til og frá í sjónum en þess konar háttalag vekur upp bylgjuhreyfingar sem laða hákarlinn að. Slíkar „krampakenndar“ hreyfingar minna mjög á slasaðan fisk eða sel sem hákarlinum finnst vera auðveld og kærkomin bráð. Önnur orsök árása frá hákörlum á menn gæti verið að hákarlarnir hafi verið æstir upp með óábyrgri hegðan og sá þriðji að þeir séu að verja umráðasvæði sitt. Fjölmargar hákarlaárásir gerast mjög snöggt, til dæmis getur hákarl ráðist á sundmann og synt síðan strax í burtu. Oft er þá engin leið að gera sér grein fyrir um hvaða tegund hafi verið að ræða. Taka verður tölfræði með fyrirvara þegar litið er langt aftur í tímann, en á mynd hér á eftir má sjá fjölda tilkynntra, tilefnislausra hákarlaárása á síðustu öld, raðað eftir áratugum. Svæðisbundið er hvaða tegund framkvæmir flestar árásir og menn hafa verið misjafnlega duglegir að tilkynna árásir eftir löndum. Þróun í tækni, samskiptum og rannsóknum hefur átt sinn þátt í að fjölga tilkynningum um hákarlaárásir á síðustu áratugum. Staðfest mannslát af völdum hákarla hafa verið frá 5-15 á ári síðastliðna áratugi en voru aðeins þrjú árið 2002.
Á síðasta ári (2002) urðu alls 60 tilefnislausar hákarlaárásir í heiminum samkvæmt skrá ISAF, þar af voru 47 þeirra innan bandarískrar landhelgi. Árið áður voru árásirnar 72, þar af 53 við strendur Bandaríkjanna. Árið 2000 var hinsvegar metár síðan farið var að skrá kerfisbundið hákarlaárásir, alls voru þær 80 talsins. Svo virðist sem árásum hákarla sé að fjölga í Bandaríkjunum en tíðnin standi í stað annars staðar í heiminum.
Nautháfur
Ástæðurnar fyrir þessu liggja nær örugglega ekki í því að hákarlar séu að verða ágengari þar, heldur er um mannlega þætti að ræða. Þar má nefna betri samskipti og aukna vörslu sem veldur því að menn skrá betur minniháttar árásir hákarla, og síðast en ekki síst verða strandgestir sífellt fleiri. Fólk verður fyrir hákarlaárásum við tómstundaiðju sem með árunum hefur verið að teygja sig æ meir inn á umráðasvæði hákarla. Árið 2001 varð brimbrettafólk fyrir 32 árásum, sundmenn urðu fyrir 22 og kafarar fyrir fjórum. Hákarlar eru margir hverjir tækifærissinnar í fæðuvali. Því er ómögulegt að segja til um hvort þeim finnst mannakjöt vera gómsætara á bragðið en önnur fæða meðan þeir láta ekkert uppi um það sjálfir. Til dæmis er því stundum haldið fram að tígrisháfum finnist menn ekki góðir á bragðið. Gallinn er hinsvegar sá að þeir þurfa fyrst að taka bita til að komast að því og oft er það nóg til að valda alvarlegum skaða. Heimildir, tölfræði og myndir:
- ISAF (International Shark Attack File)
- Sharks: assessing the dangers within a rational context
- Underwater Magic
- Fish Facts: Sharks
Í svarinu er að finna hlekki á svör á Vísindavefnum um ýmsar hákarlategundir. Einnig skal bent á efnisorðin neðst í svarinu vilji lesendur fræðast meira um hákarla og einstakar tegundir þeirra.