Hvar lifir sleggjuháfur? Lifir sleggjuháfurinn við Ísland? Ef svo er ekki hefur hann flækst hingað? Hvað borðar sleggjuháfur?
Sleggjuháfar (e. hammerhead sharks) eru hákarlar af ættkvíslunum Sphyrna og Eusphyrna. Þeir eru auðþekkjanlegir vegna sérkennilegrar lögunar á haus sem er útflattur og líkist sleggju með augun yst á endunum (sleggjusköllunum). Þekktar eru átta tegundir sleggjuháfa sem finnast nær eingöngu í hlýjum sjó við miðbaug jarðar, þar af telst aðeins ein tegund til ættkvíslarinnar Eusphyrna. Ein tegund teygir þó útbreiðslu sína á tempruð hafsvæði. Það er tegundin Sphyrna zygaena sem finna má undan ströndum Nova Scotia, suður við Galapagosseyjar og undan ströndum Argentínu. Stærst er tegundin Sphyrna mokarran (e. great hammerhead shark) sem einfaldlega mætti kalla á íslensku stóra sleggjuháfinn. Hann getur orðið rúmir 5,5 metrar á lengd og finnst við miðbaug um alla jarðarkringluna. Aðrar tegundir sleggjuháfa eru á stærðarbilinu 1-5 metrar. Þegar fæðuval sleggjuháfa er skoðað, blasir við að þeir éta allt sem að kjafti kemur og þeir ráða við. Stóri sleggjuháfurinn virðist éta hvað mest af ýmsum tegundum skata og beinfiska. Sleggjuháfar gjóta lifandi seiðum (eru það sem á ensku kallast viviparous) og er fjöldinn mismunandi eftir tegundum. Stóri sleggjuháfurinn gýtur til dæmis 13-42 seiðum eftir um 7 mánaða meðgöngu og eru þau um 50-70 cm á stærð. Félagskerfi sleggjuháfa er fjölbreytt. Sumar tegundir eru algerir einfarar nema á fengitíma, en aðrar eiga sér sína farhegðun og synda í átt að pólunum yfir vetrartímann.