Fáar ef einhverjar tegundir sjávardýra eru hjúpaðar jafnmikilli dulúð, goðsögnum og ævintýrablæ og hvíthákarlinn (Carcharodon carcharias). Það er líklega að miklu leyti komið til vegna stærðar hans og vegna þess hve hann er mikill einfari. Eins og komið er fyrir tegundinni í dag eru hins vegar risarnir meðal hvíthákarla orðnir afar sjaldgæfir vegna rányrkju okkar mannanna. Nú er hvíthákarlinn verndaður enda í mikilli útrýmingarhættu. Stærstu einstaklingar tegundarinnar vega allt upp í 3 tonn og geta náð 6 metrum á lengd. Talið er að meðalþyngdin sé á bilinu 1200 til 2000 kg. Árásir hákarla á kafara, brimbrettafólk og aðra strandagesti eru sjaldgæfar en af þeim hljótast venjulega slæmir áverkar. Rannsóknir hafa sýnt að hvíthákarlar eiga sök á 33–50% af hákarlaárásum á fólk. Talið er að tæplega ein af hverjum tíu árásum hvíthákarla sé banvæn. Þar sem hvíthákarlar eru algengastir, undan ströndum Ástralíu, Suður-Afríku og Kaliforníu, eru sæljón aðal fæða þeirra. Annars éta þeir ýmsar sæskjaldbökur, stóra og smáa fiska, aðra hákarla, hræ og reyndar allt sem að kjafti kemur, þar á meðal sorp frá skipum og bátum. Hvíthákarla er að finna á opnu hafi frekar en inni í fjörðum. Þeir eru algengastir í tempruðum sjó en finnast þó víðar. Hvíthákarlar eru oftast gráleitir eða bláleitir á bakinu en kviðurinn er ljósari, oftast hvítur. Stærstu einstaklingarnir eru yfirleitt fölleitari. Hvíthákarlar gjóta ungum. Alls gjóta kvendýrin frá tveimur upp í fjórtán ungum sem geta verið allt að 1,5 metrar á lengd. Eins og meðal allra hákarla verður frjóvgunin inni í kvendýrinu. Eggin klekjast þar út og nýklaktir ungarnir nærast á öðrum eggjum og systkinum sínum. Í hákörlum er engin legkaka til að næra fóstrin heldur byrjar hin harða lífsbarátta unganna strax við klak. Eftir gotið synda þeir burt frá móður sinni og hefja strax ránlífi. Sú aðferð náttúrunnar að láta eggin klekjast í líkama móður er nefnd ovoviviparous á erlendum tungum. Flokkunarfræði hvíthákarlsins er eftirfarandi:
Ríki (Kingdom) | Dýraríki (Animalia) |
Fylking (Phylum) | Seildýr (Chordata) |
Undirfylking (Subphylum) | Hryggdýr (Vertebrata) |
Flokkur (Class) | Brjóskfiskar (Chondrichthyes) |
Undirflokkur (Subclass) | Hákarlar og skötur (Elasmobranchii) |
Ættbálkur (Order) | Lamniformes |
Ætt (Family) | Hámeraætt (Lamnidae) |
Ættkvísl (Genus) | Carcharodon |
Tegund (Species) | Hvíthákarl (Carcharias) |
Sofa hákarlar og hvalir?
Hver er veiðitækni hvíthákarlsins?